Er táknmál skraut eða tungumál

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

Eftir Árnýju Guðmundsdóttur

Arny-Gudmundsdottir.jpg

Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um viðurkenningu íslensks táknmáls sem fyrsta mál þeirra heyrnarlausu, heyrnarskertu og daufblindu einstaklinga sem þurfa að reiða sig á það til daglegra samskipta. Táknmálið skal viðurkennt til jafns við íslenska tungu, móðurmáls meirihluta Íslendinga. Táknmál eru ekki alþjóðleg, þau eru hins vegar fullgild tungumál sem mynduð eru með höndum, svipbrigðum, munnhreyfingum og líkama og hafa sína eigin sérstöku málfræði og setningaskipan sem að mörgu leyti er mjög ólík til að mynda íslenskri tungu. Það skal ítrekað að munnhreyfingar þær sem tilheyra íslensku táknmáli eru oft á tíðum gjörólíkar íslenskum munnhreyfingum og orðaröð íslensks táknmáls og íslenskrar tungu er oft ólík.

Táknmálstalandi einstaklingar hafa árum saman barist fyrir virðingu táknmálsins og er sú barátta ekki einskorðuð við Ísland. Þar sem líklegt má telja að viðurkenning íslensks táknmáls sé handan við hornið er mikilvægt að þeir sem vinna með táknmál á einn eða annan hátt taki höndum saman og kynni þetta tungumál og þann menningarhóp sem býr á bak við það. Það er hægt með því að hafa táknmálið sýnilegt sem víðast og er netið og sjónvarpið sterkasti miðillinn til þess, þar sem táknmál er sjónrænt mál en ekki ritað. Jafnframt þarf að gæta framsetningar tungumálsins, sýna því virðingu og skapa því þann sess sem það á skilið.

Eðlilegt þykir alla jafna að fólk tali einungis eitt tungumál í einu – yfirleitt er það frekar einfalt, þegar við tölum raddmál eru talfæri okkar upptekin við það mál. Einhverra hluta vegna hefur sú skoðun verið víða við lýði að hægt sé að tala íslenskt táknmál samtímis því að íslenska sé töluð með rödd. Vegna fyrrnefndra atriða um ólíka orðaröð og munnhreyfingar þessara mála ætti þó að vera augljóst að ekki er hægt að tjá sig samtímis á tveimur ólíkum tungumálum. Ef hins vegar er gerð tilraun til að tjá sig bæði á íslensku raddmáli og íslensku táknmáli samhliða hlýtur niðurstaðan að verða sú að málfræði annars tungumálsins er látin víkja fyrir málfræði hins – og vegna veikrar stöðu táknmálsins er það alltaf málið sem nýtur ekki sannmælis. Tungumál, notað sem fallegt skraut á annað tungumál, öðlast ekki sterka stöðu sem sjálfstætt mál. Til þess að auka vegsemd og virðingu táknmálsins er nauðsynlegt að þeir sem að því koma sýni því þá virðingu sem það á skilið.

Táknmál er fallegt tungumál – það er íslenskan líka. Gerum báðum málunum hátt undir höfði og tölum þau í sitthvoru lagi.


Höfundur er táknmálstúlkur hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.

Greinin birstist fyrst á visir.is í apríl 2011