Menningarsamfélag heyrnarlausra

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita
Deaftheatre.jpg

Með menningarsamfélagi heyrnarlausra eða Döff er átt við tiltekinn þjóðfélagshóp, sem talar saman á táknmáli og á sameiginleg markmið og svipaða reynslu að baki. Fólkið sem myndar hópinn er heyrnarlaust eða heyrnarskert en það er fyrst og fremst íslenska táknmálið og sameiginleg þekking, hugmyndir, gildismat og venjur sem einkennir samfélag þeirra og heldur því saman.

Það að einstaklingur sé heyrnarlaus þýðir ekki sjálfkrafa að viðkomandi tilheyri samfélagi heyrnarlausra. Til að vera hluti af samfélagi heyrnarlausra þarf viðkomandi að hafa aðgang að og samsama sig samfélaginu í gegnum táknmál. Margir heyrnarskertir hafa samsamað sig þessu samfélagi eftir máltökualdur og líta á sig sem heyrnarlausa eða Döff í menningarlegum skilningi. Heyrnarlaust fólk, sem hefur ekki kunnáttu í táknmáli, tilheyrir ekki samfélaginu.

Samfélag heyrnarlausra samanstendur af einstaklingum með svipaða reynslu af að búa í heimi þar sem heyrandi fólk er í miklum meirihluta. Þeir þekkja allir samskiptaerfiðleika í heyrandi heimi og hindranir sem skapast af þeim.

Heyrnarlausir, eins og margir aðrir hópar fólks, verða fyrir fordómum og algengt er að dæma alla heyrnarlausa sem einn. Heyrnarlaust fólk er ekki síður ólíkt innbyrðis en heyrandi fólk. Sameiginlegt mál og sameiginleg reynsla hefur tengt það og styrkt hóp þeirra.