Námsefnisgerð fyrir táknmálstalandi nemendur

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita
Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður

Valgerður Stefánsdóttir, skrifaði greinina 27. mars 1999


“Höfuðmarkmið með kennslunni hérna við Heyrnleysingjaskólann er að kenna nemendum íslensku. Ef þeir ná valdi á henni geta þeir aflað sér allrar þeirrar menntunar sem þeir þurfa á að halda síðar. Íslenskan er lykillinn að þekkingu”.

Þetta var í stórum dráttum inntakið í ræðu Skólastjórans Brands Jónsson yfir okkur fimm nýútskrifuðum kennurum haustið 1977 þegar ég hóf störf sem kennari við Heyrnleysingjaskólann. Ég hafði aldrei hitt heyrnarlausa manneskju og vissi ekkert um kennslu heyrnarlausra.

Á þessum tíma var áherslan, víðast hvar í heiminum, á að kenna heyrnarlausum þjóðtunguna og trú manna var að táknmálið tefði fyrir því námi. Táknmálið var því ekki hátt skrifað og jafnvel talið að það væri hlutbundið í eðli sínu og gæti ekki miðlað flókinni hugsun.

Hugmyndafræðin sem lá að baki kennslunni var oralismi eða talmálsstefna. Lagt var upp úr því að kenna nemendum varalestur til þess að nema raddmálið og svo lestur. Gallinn við kennsluaðferð oralismans var hins vegar sá að þegar táknmálið var bannað var ekkert mál fyrir hendi til þess að skýra fyrir nemendunum hvað orðin í málinu þýddu. Við kennararnir spóluðum því alltaf í sama farinu með hlutbundið einfalt mál á íslensku.

Í skólanum voru tvö málsamfélög nánast alveg einangruð hvort frá öðru. Börnin skildu ekki kennarana og kennararnir skildu ekki börnin. Þau gátu beðið kurteislega um að fá að fara á klósettið og við skömmuðumst í þeim fyrir dónaskapinn. Þau hefðu getað undirbúið byltingu á sínu máli fyrir framan okkur og við hefðum ekkert skilið um hvað þau voru að tala. Á milli okkar og barnanna var einfalt “pidgin” mál eins og á milli indíánanna og hvíta mannsins í bíómyndunum. Það var kennslumálið.

Málið á námsbókunum var of þungt, við þurftum að endursemja námsefnið á einfalda málið og komumst aldrei til þess að vekja flókna hugsun í nemendum okkar eða ná upp gagnrýnni umræðu í bekknum. Námsefnið var sambærilegt við það sem séra Páll Pálsson lét prenta í Danmörku árið 1867 sama ár og hann var skipaður fyrsti kennari heyrnarlausra. Hann gerði þrjár bækur: "Orðasafn handa mál- og heyrnleysingjum", sem var notað til þess að kenna heyrnarlausum nemendum íslensk orð og fingramálið, "Biblíusögur handa mállausum og heyrnarlausum unglingum á Íslandi" og "Kristin fræði Lúters" Um seinni bækurnar tvær sagði Páll að hann hafi leitast við að hafa málið svo einfalt og barnalegt sem honum var unnt og líka reynt að hafa efnis- og orðskýringar neðan við hverja sögu (úr bókinni Heyrnarlausir á Íslandi eftir Guðmund Egilsson og Bryndísi Guðmundsdóttur, 1989).

Þetta gerðum við líka. Við höfðum málið eins einfalt og barnalegt og okkur var unnt en við fengum efnið ekki prentað, við fjölrituðum eða klipptum, límdum og ljósrituðum.

Núna í dag höfum við á Íslandi og í nágrannalöndum okkar gert okkur grein fyrir mistökum oralismans. Nú heitir hugmyndafræðin sem liggur að baki kennslunni tvítyngi og táknmálið er talið lykill að öllu námi. Breytingin í hugmyndafræði er byltingarkennd en það er ekkert einfalt mál að umbylta skólasamfélagi. Kröfurnar til skólans, kennaranna, kennslunnar og námsefnisins eru í samræmi við nýju hugmyndafræðina en umhverfið er í rauninni ennþá það sama. Það hefur ekki verið framleitt námsefni fyrir heyrnarlausa sem byggir á hugmyndafræði tvítyngis, kennararnir hafa ekki fengið menntun sem byggir á hugmyndafræði tvítyngis og skólabyggingin er hönnuð fyrir þarfir oralismans.

Þetta ástand er ekki einangrað við Ísland. Ég las um daginn grein um ástandið í skólum heyrnarlausra í Bandaríkjunum. Þar líkti höfundur kennurunum við farþega í flugvél sem ferðast með barn meðferðis. Þegar farið er yfir öryggisreglur er sagt eitthvað eins og: “Takið súrefnisgrímuna og setjið hana fyrst á yður en síðan á barnið.” Greinarhöfundur sagði að kennarar í skólum fyrir heyrnarlausa hefðu sett grímuna á barnið en þeir væru að kafna sjálfir. Þessi líking á vel við. Kennararnir vita hvaða hugmyndafræði er rétt, hvaða mál er rétt og að kennsluaðferðir oralismans eru ekki réttar en þá vantar “súrefni”.

Stærsti hluti kennaranna er heyrandi og hefur ekki táknmál sem sitt móðurmál. Þeir eiga að standa sem málfyrirmyndir nemenda sinna án þess að hafa fengið þá endurmenntun í táknmáli sem þeir þyrftu á að halda. Þeir þurfa yfirleitt að geta kennt hvaða kennslugrein sem er frá sögu til stærðfræði eða dönsku hvort sem þeir ráða við það eða ekki. Einn kennari getur lent í þeirri stöðu að vera með heyrnarskertan 11 ára nemanda, sem er talinn hafa íslensku að móðurmáli, annan þrettán ára misþroska með lítið mál og heyrnarskerðingu og þann þriðja fimmtán ára táknmálstalandi með mjög litla kunnáttu í íslensku. Í bekknum getur því, ofan á annað, myndast allflókið málsamfélag þar sem kennararnir vilja ávarpa sérhvern nemanda á því máli, sem talið er að hann hafi best vald á. Ennþá eru kennarar að búa sjálfir til námsefni sem þeir nota til kennslunnar og þeir hafa lært táknmálið utan vinnutímans. Í skólanum hefur verið unnið að því að þýða á táknmál tilbúið námsefni inn á myndband. Þessi myndbönd eru heimagerð, léleg að gæðum, án skýringarmynda og uppfylla alls ekki þær kröfur sem við gerum almennt til námsefnis. Þetta er samt viðleitni til þess að bjóða heyrnarlausum grunnskólanemendum upp á námsefni sem þeir hafa fullan aðgang að - en ennþá er verið að “klippa og líma”.

Samkvæmt hugmyndafræði tvítyngis á skóli fyrir heyrnarlausa, auk þess að vinna að kennslumarkmiðum grunnskólans, að gefa nemendum sínum vald á tveimur tungumálum. Táknmáli til talmálssamskipta og íslensku til ritmálssamskipta (lestur –skrift). Þessar kröfur til skólans, kennslunnar og námsefnisins hafa breyst ótrúlega mikið á fáum árum en það er erfitt að bregðast við slíkum kröfum. Svo stutt erum við komin ekki bara hér á Íslandi heldur á öllum Norðurlöndum; sem standa í fararbroddi í kennslu heyrnarlausra, að heyrnarlausir eru eini hópur fatlaðra þar sem hönnunarkröfur fyrir námsefni hafa ekki verið settar fram þ.e. hvernig eiga "bækur/námsefni" fyrir heyrnarlausa að vera?

Ég er nú forstöðumaður fyrir Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Samskiptamiðstöðin á að stuðla að því markmiði að heyrnarlausir fái þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls. Verkefni hennar eru meðal annars rannsóknir og kennsla. Samskiptamiðstöðin hefur nú starfað í næstum tíu ár og við eigum að leggja okkar að mörkum til þess að taka þátt í að breyta þessu umhverfi, reyna að sjá kennurum skólans fyrir súrefni í formi rannsóknarniðurstaðna og námskeiða og í samvinnu við þá að finna hvernig hanna á námsefni fyrir heyrnarlausa nemendur.


Tvítyngda tölvan

Tilraunir með námsefnisgerð fyrir heyrnarlausa

Á Samskiptamiðstöðinni hefur undanfarin ár farið fram hönnunar- og þróunarvinna á umhverfi til þess að smíða í námsefni handa heyrnarlausum. Um er að ræða tvö margmiðlunarforrit sem byggja á hugmyndafræði tvítyngis þar sem táknmál og íslenska eiga að standa jafnfætis í námsefninu. Í hugmyndavinnunni er gert ráð fyrir því að táknmálið liggi til grundvallar öllu námi, það sé kennslumálið, notað til skýringa og skilnings en að stefnt sé að því að íslenska verði ritmál heyrnarlausra og nauðsynlegur lykill að menntun og þátttöku.

Trausti Kristjánsson rafmagnsverkfræðingur er höfundur að forritunum, sem eru ennþá í þróun, en grunnhugmyndavinnuna unnum við saman á árinu 1996. Forritin voru fyrst og fremst hugsuð til þess að búa til námsefni í tungumálum. En í þróunarvinnu undanfarinna ára hefur notagildi þeirra orðið miklu víðara.

Margmiðlunarforritin sem um ræðir eru tvö; höfundarforrit þar sem við búum til námsefnið á hvaða tungumáli sem er og tengjum við þýðingar á hvaða táknmáli sem er og nemendaforrit þar sem nemandinn getur spilað og unnið með námsefnið.

Forritin smiður og spilari

Í höfundarforritinu Smið smíðum við námsefnið. Inn í það er hlaðið textaskrá með þeim texta sem á að kenna og myndaskrá með nákvæmri táknmálsþýðingu eða einungis orðskýringum og textaskýringum á táknmáli. Textaskráin og myndaskráin eru tengdar saman merkingu fyrir merkingu eða eins og við kjósum hverju sinni. Það er hægt að tengja saman orð og tákn, málfræðimerkingu í táknmáli á móti sambærilegri málfræðiendingu í texta eða bara einstök hugtök og glósur. Eftir að búið er að tengja textaskrána og myndaskrána verður til hvl. skrá, sem nemandinn getur spilað í nemandaforritinu, spilara.

Í Spilaranum, sem eru tveir gluggar, myndagluggi og textagluggi, getur nemandinn borið saman textana tvo, annan á móðurmáli sínu, táknmáli, en hinn á rituðu máli. Nemandinn getur unnið með textana á margvíslegan hátt, hann/hún getur skoðað tengdar merkingar og borið þær saman málfræðilega og merkingarlega. Skoða má sama táknið eða sömu þýðingu eins oft og eins lengi og nemandinn kýs, hann getur skoðað mismunandi breytur eins og hreyfingu augabrúna í táknmáli, munnhreyfingar eða handform og borið saman hvað er málfræðilega sambærilegt á rituðu máli. Nemandinn getur líka notað spilarann eins og orðabók þegar hann fær í hendurnar námsefni, til dæmis í líffræði, sem búið er að tengja við táknmálsglósur og skýringar á táknmáli.


Námsefni í tungumálum

Tungumálanám hefur alltaf verið mjög erfitt fyrir táknmálstalandi, heyrnarlausa nemendur. Námsefnið og kennsluaðferðirnar hafa verið miðaðar við heyrandi nemendur til þess að mæta þörfum þeirra og áhugamálum. Ný hugtök og málfræði málsins sem þeir eru að læra eru skýrð með tilvísun í mál og orðaforða sem er ekki þeirra móðurmál og hefur verið illa aðgengilegt eins og menningin sem það þróaðist í. Heyrnarlaus nemandi þarf þannig að læra nýtt tungumál í gegnum annað framandi mál og efnið er oft með tilvísun í heyrandi heim, popptónlist eða annað sem heyrandi unglingum finnst áhugavert.

Málfræði kennslumálsins og og námsaðstæðurnar hæfa því ekki þörfum eða áhuga heyrnarlausu nemendanna. Þeir geta ekki lært sjálfstætt heldur verða þeir að treysta á kennarann til þess að fá þýðingar og útskýringar. Út frá kennslufræðilegu sjónarhorni eru þessar aðstæður því algerlega ófullnægjandi.

Afleiðingarnar eru eðilega þær að heyrnarlausir nemendur hafa átt slæma möguleika á að læra erlend tungumál og ná þeim markmiðum sem sett eru í tungumálanámi. Oft hafa þeir ekki getað lokið þeim áföngum sem eru nauðsynlegir til þess að þeir geti útskrifast úr framhaldsskóla þar sem þeir hafa ekki náð lágmarksþekkingu í tungumálum.


Námsefni í dönsku

Samskiptamiðstöðin sótti um styrk til Sókratesáætlunar Evrópusambandsins, LINGUA D til þess að gera margmiðlunarnámsefni í dönsku fyrir táknmálstalandi Íslendinga í umræddum forritum. Við fengum styrk til þriggja ára og erum nú á þriðja ári að vinna að námsefninu í dönsku. Samstarfsaðilar okkar í Danmörku eru Center for Tegnsprog og Tegnstøttet Kommunikation en á Íslandi vinnum við með Vesturhlíðarskóla og Menntaskólanum við Hamrahlíð, sem auk þess tilraunakenna námsefnið.

Markmið okkar með þessari vinnu er að gera námsefni sem er hugsað fyrir táknmálstalandi nemendur og gerir þeim kleift að ná námsmarkmiðum skólanna í dönsku. Samhliða hafa einnig verið sett ný námsmarkmið fyrir heyrnarlausa nemendur, nýjar kennsluaðferðir verða til og ennfremur munum við setja upp námskeið fyrir kennara við að nota þetta efni í kennslunni.

Samkvæmt nýju námsmarkmiðunum er gert ráð fyrir að nemendur geti lesið, skilið og skrifað dönsku með almennum orðaforða vegna náms, vinnu og í persónulegum tilgangi og geti átt samskipti á dönsku táknmáli. Námsefni í dönsku táknmáli kemur því í staðinn fyrir framburð og skilning á talaðri dönsku.

Námsefnið í dönsku mun samanstanda af eftirfarandi þáttum:

-42 textar á dönsku með nákvæmri þýðingu á íslenskt táknmál og 8 textar á dönsku með nákvæmri þýðingu á danskt táknmál

-dönsk málfræði skýrð á táknmáli með dæmum og æfingum og málfræðistílar

-spil til þess að æfa samskipti á dönsku og dönsku táknmáli. Efni spilsins er að miklu leyti úr sögu og menningu heyrnarlausra í Danmörku

-kynning á rauntextum og glósulisti úr þeim

-yfirlit yfir námsefnið og kennsluleiðbeiningar


Kennslufræðilegur ávinningur

Með þessu margmiðlunarefni hefur tungumálanám verið gert einfaldara fyrir táknmálstalandi nemendur. Íslenskan er tekin út úr ferlinu og táknmál er lagt til grundvallar. Allar þýðingar eru gefnar á táknmáli og málfræðin verður skrifuð á táknmáli. Nemendur geta því lært af sjálfsdáðum og eru ekki alveg háðir kennaranum inni í kennslustofunni.

Námsefnið á rætur í heimi heyrnarlausra. Flestir textarnir sem eru notaðir eru þýddir af táknmáli og úr menningarheimi táknmálsins, ýmist í Danmörku eða á Íslandi. Þessi nálgun hefur gefið mjög góða raun og var valin eftir að dönskukennararnir sem tilraunakenndu efnið fyrir okkur bentu á að hefðbundið dönskukennsluefni höfðaði ekki til táknmálstalandi nemenda það væri gert fyrir annan markhóp og vísaði of mikið í hljóðaheim hinna heyrandi.

Stöðugleiki þessa nýja námsefnis og möguleikar á endurtekningu er líka mikill ávinningur. Svo sjálfsagður hlutur eins og að skoða þýðingu danska textans aftur og aftur á táknmáli, fara fram og tilbaka og á þeim hraða sem nemandinn kýs er í fyrsta sinn mögulegur. Nemendur fá í fyrsta sinn námsefni á táknmáli og sjá málinu sínu miðlað í nýju umhverfi, í gæðanámsefni og í gegnum nútímalega margmiðlunartækni upplýsingasamfélagsins.

Þetta gagnvirka margmiðlunarnámsefni mun því líka skila þeim ávinningi að gera nemendur færari um að vinna við tölvur, auka virkni þeirra og gefa þeim tækifæri til þess að vinna sjálfstætt.


Aðrar tilraunir með notkun forritanna við námsefnisgerð

Auk þess að gera námsefni í tungumálum fyrir táknmálstalandi nemendur erum við að gera tilraunir með að smíða námsefni í öðrum kennslugreinum í forritunum smiður og spilari. Í þeirri vinnu og í þróunarvinnu á forritunum eigum við samvinnu við Möllers Kompetansesenter í Noregi og Námsgagnastofnunina norsku (NLS). En Norðmenn keyptu forritin af okkur í fyrra.

Við erum að byrja að gera námsefni, sem prófa á við lestrarkennslu á leikskólanum Sólborg þar sem eru sex táknmálstalandi börn. Í námsefninu eiga að vera íslensk orð eða stuttar setningar sem eru tengd við samsvarandi tákn. Með því að ljóma upp orðið með músinni fær barnið fram myndband með þýðingunni á táknmáli. það getur þannig leikið sér fram og tilbaka og lært að þekkja orð eða setningar og hvað þær þýða.

Við höfum átt viðræður við Námsgagnastofnun hér á Íslandi um að fá að koma inn í gerð nýs námsefnis á fyrstu stigum hönnunar til þess að sjá hvort hægt verði að gefa út útgáfu fyrir heyrnarlausa. Í því sambandi höfum verið að gera tilraunir með námsefni í líffræði og einnig í íslensku. Í smiðnum tengjum við einstök orð og hugtök við þýðingu á táknmáli eða bætum við bakgrunnsþekkingu sem gert er ráð fyrir að heyrandi krakkar hafi en ekki er sjálfsagt að heyrnarlausir hafi getað aflað sér á sama hátt. Nemandinn getur þannig notað þetta námsefni með kennslubókinni eins og orðabók eða til þess að fá nánari skýringar á einhverju fyrirbæri sem hann eða hún skilur ekki.

Við höfum tekið eftir því að heyrnarlausir starfsmenn sem vinna við dönskuverkefnið okkar læra mikið í dönsku. Virkasta námið fer fram þegar þeir eru að vinna við þýðingar og tengingar á málunum í smiðnum. Þess vegna höfum við verið að velta fyrir okkur möguleikanum á því að nota smiðinn sem kennslutæki í kennslustofunni. Nemandinn geti þannig fengið tækifæri til þess að nota sinn eigin táknmálstexta og þýtt hann á íslensku/dönsku í smiðnum. Við kennslu í ritun á íslensku mætti nota smiðinn þannig að nemandinn fengi fyrirmynd á táknmáli og í textaskránni væru gefin einstök orð eða rammar sem hann fyllti inn í. Til dæmis mætti hugsa sér ramma fyrir ritgerð, sendibréf eða atvinnuumsókn.

Nemandinn gæti líka einfaldlega tengt tilbúna textaskrá og myndaskrá eins og gert er hér við námsefnissmíðina. Hægt er að láta hann skoða sérstaklega einhverja þætti í málfræði beggja málanna við tengivinnuna.

Sérhverja myndaskrá má tengja við margar textaskrár og sérhverja textaskrá má tengja við margar myndaskrár þannig að við getum notað sömu frásögnina á mismunandi þyngdarstigi eftir getu einstakra nemenda. Það er hægt að setja eina frásögn fram með einungis orða/táknalista, með endursögn, nákvæmri þýðingu, eingöngu tengt ákveðin málfræðiatriði o.s.frv..

Möguleikarnir sem forritin bjóða upp á eru margir og vonandi getum við átt einhvern þátt í að bæta vinnuumhverfi nemenda og kennara með því að leggja til nýtt námsefni eða leið til þess að hægt verði að framleiða það.

Núna eru markmiðin í kennslu í heyrnarlausra þau sömu og annarra grunnskólanema en að auki verða nemendur að ná góðu valdi á íslensku. Við viljum reyna að leggja sérstaka áherslu á gerð námsefnis í íslensku á komandi árum, því íslenskan er jafn mikilvægur lykill að menntun og þekkingu eins og Brandur Jónsson hélt fram. Það sem hefur breyst frá þeim tíma er að við vitum núna að táknmálið tefur ekki fyrir námi þvert á móti er það grundvöllurinn, sem verður að byggja á, því táknmálið er móðurmál heyrnarlausra og miðlar jafn flókinni hugsun og öll önnur tungumál.