Táknmál fyrir heyrnarskerta - af hverju

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

Höfundar: Margrét Gígja Þórðardóttir og Anney Þórunn Þorvaldsdóttir

Margir velta fyrir sér af hverju heyrnarskertir þurfi að læra táknmál. Er ekki nóg að vera með heyrnartækin? Táknmál er oft ekki inni í myndinni hjá foreldrum sem eiga heyrnarskert barn eða hjá heyrnarskertum almennt. Þess vegna þarf að upplýsa bæði foreldra og aðra hvað heyrnarskerðing er, hvað felst í því að vera heyrnarskertur og af hverju táknmál mikilvægt fyrir heyrnarskerta. Heyrnarskerðingu er erfitt að skilgreina og skilgreiningar eru oft á gráu svæði. Hvað er heyrnarskerðing? Á að skilgreina heyrnarskerðingu út frá læknisfræðilegu, félagslegu og akademísku sjónarmiði? Nauðsynlegt er að huga að úrræðum fyrir heyrnarskerta einstaklinga út frá fleiri en einu sjónarhorni.

Heyrnarskerðing er skerðing sem er í miðeyra og í innra eyra og eru skerðingin kölluð leiðslutap, skyntaugatap og blandað tap. Leiðslutap er truflun á leiðni til innra eyra sem er staðsett við miðeyra. Skyntaugatap er þegar innra eyra skaddast þar sem kuðungurinn er og blandað tap er blandað að hinu tveggja þ.e. leiðslutapi og skyntaugatapi. Heyrnarskerðingunni er svo skipt niður í 4 flokka eftir því hversu mikil skerðingin er, allt frá vægri heyrnarskerðingu upp í algjört heyrnarleysi. Heyrnartæki nýtast þá að litlu leyti nema til að átta sig á umhverfishljóðum. Foreldrar og forráðamenn verða að gera sér grein fyrir því þó barn sé komið með heyrnartæki þá uppfyllir það ekki allar þarfir barnsins líkt og þegar barn barn fær gleraugu. Segja má að barnið nái u.þ.b. 50 – 60 % af því sem sagt er við það en ekki 100%. Í hópsamræðum greina heyrnarskertir ekki raddmálið eins og þeir sem eru heyrandi. Þeir heyra að fólkið er að tala saman en ná ekki að greina um hvað er verið að tala og eru því sífellt að fylla inn í eyðurnar. Um leið og sá heyrnarskerti reynir að ná öllu sem fólkið í hópnum er að tala um spennist líkaminn upp og fljótlega fer hann að þjást af augnþreytu og vöðvabólgu. Margir segja þó um hann að hann tali svo vel. Þetta þýðir þó ekki að sá heyrnarskerti nái öllum upplýsingunum sem fram koma í umhverfinu. Heyrnarskertir lesa mikið út frá andliti hvers og eins. Ef hann sér fólk brosa þá brosir hann líka. Ef hann sér að fólk er sorgmætt, þá sýnir hann samskonar svipbrigði o.s.frv. Hann lendir þannig sífellt í þeim aðstæðum að plata þann sem verið er að tala við með því að þykjast skilja allt sem fram fer. Með tímanum aðlagast heyrnarskertir að þessu og verður sama um að heyra ekki allt það sem fram fer og kinka bara kolli.

Hegðun heyrnarskerta getur verið sérstök. Sum heyrnarskert börn á leikskólaaldri fara í foringjahlutverk. Þau vilja ráða í hvað leik hópurinn á að fara og hver leikur hvað, t.d. hver leikur pabbann, mömmuna eða kisuna o.s.frv. Þau vilja einnig oft stjórna umræðum inni á deild. Af hverju gerir heyrnarskerta barnið þetta? Jú það vill ráða leiknum svo það viti hvað er að gerast hverju sinni. Barnið finnur þá ekki fyrir vanlíðan, heldur öryggi því það hefur búið til reglurnar sjálft. Eftir því sem barnið verður eldra bakkar það sig oft úr foringjahlutverkinu vegna þess að samræðurnar fara að verða dýpri og innihaldsríkari og þ.a.l. erfiðari fyrir barnið að meðtaka. Annaðhvort verður það með í hópnum eða bakkar alveg út. Heyrnarskert börn sem ekki fara í foringjahlutverk eru oft mikið ein og læðast svolítið meðfram veggjum. Þau geta látið lítið fyrir sér fara og segir fólk þá að barnið sé svo rólegt og duglegt að dunda og leika sér eitt.

Heyrnarskertir eru undir stöðugri álagi af því lesa af vörum, reyna að ná augnsambandi og vera vakandi yfir því hvað er um að vera. Þetta veldur miklu líkamlegu álagi, vöðvabólgu, langvarandi höfuðverk og síþreytu. Þetta kemur einnig niður á andlegri líðan og veldur kvíða, einmanaleika og þunglyndi. Ef barn hefur vald á táknmáli og er í táknmálsumhverfi má komast hjá þessum vandamálum í daglegu lífi. Barnið verður afslappaðara, meðtekur upplýsingar, tekur þátt í samræðum og hlær á réttum tíma án þess að líkaminn spennist upp.

Mörg heyrnarskert börn eru tvítyngd, þ.e. að þau eru jafnvíg á táknmál og íslensku. Þau tilheyra tveimur menningarheimum, þ.e. heimi heyrnarlausa og heimi heyrenda. Foreldrum er skylt að stuðla að því að börn þeirra hafi sterka og skýra sjálfsmynd. Barn sem hefur ekki tök á móðurmáli getur átt á hættu að sjálsmynd þess brotni. Brotin sjálfsmynd leiðir svo af sér félagsleg vandamál og erfiðleika í námi. Sterkt móðurmál er lykill að menntun og félagslegu öryggi. Heyrnarskert eða heyrnarlaust barn í sterku málumhverfi leiðir af sér:

meiri vitsmunaþroska

betri félagsþroska

betri samskiptahæfni

öflugri menntun

aukinn skilning heiminum

meiri tilfinningaþroska

Leyfum börnum sem greinast heyrnarskert að kynnast táknmálinu. Tökum ekki ákvarðanir fyrir þau heldur styðjum þau og lofum þeim sjálfum að taka réttar ákvarðanir þegar þau hafa aldur og þroska til.

Margrét Gígja Þórðardóttir, ráðgjafi

Anney Þ. Þorvaldsdóttir, verkefnisstjóri

Margrét Gígja er kennari og ráðgjafi og Anney starfaði sem verkefnisstjóri þegar greinin var skrifuð.

Greinin birstist fyrst á heimasíðu SHH 2010