Túlkun í framhaldsskóla

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

Eftir Árnýju Guðmundsdóttur:

Arny-Gudmundsdottir.jpg

Táknmálstúlkar vinna mjög fjölbreytta vinnu og eitt af því sem við gerum mikið af er túlkun á framhaldsskólastigi. Við erum að túlka í mörgum skólum og fyrir marga nemendur. Einn nemandi getur haft allt að 3-4 túlka sömu önnina, allt eftir fögum. Til að auðvelda okkur vinnuna er þó reynt að halda sömu fögum á sömu túlkum.

Táknmálstúlkar fylgja ekki einhverjum einum nemanda heila önn eða í gegnum allan skólann, því við getum verið að túlka fyrir mjög marga nemendur í nokkrum skólum sömu önnina.

Á haustin fáum við stundatöflu búna til fyrir okkur frá deildarstjóra túlkaþjónustunnar og bækur fyrir fögin okkar fáum við í gegnum námsráðgjafa, því til að geta túlkað vel í tímum þurfum við að hafa lesið vel heima. Þessar töflur eru svo grunnurinn að vinnu okkar þá önnina, en til viðbótar við skólann túlkum við svo hin ýmsu verkefni.

Túlkurinn situr yfirleitt í námunda við kennarann og myndvarpann og túlkar allt sem fram fer í kennslustofunni, ekki bara það sem kennarinn segir. Túlkurinn situr yfirleitt á skrifborðsstól til að vera færanlegur í stofunni, því stundum þarf að setjast nær nemandanum ef það er t.d. hópvinna eða ljósin slökkt vegna myndasýningar.

Ef þú ert í framhaldsskóla og sérð konu á rölti með skrifborðsstól, þá er ekki ólíklegt að þar sé túlkur á ferð.

Árný Guðmundsdóttir, táknmálstúlkur

Greinin birstist fyrst á 2004 á heimasíðu SHH