Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
The printable version is no longer supported and may have rendering errors. Please update your browser bookmarks and please use the default browser print function instead.

Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér?

Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu

Lokaverkefni til MA-gráðu í almennum málvísindum við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir

Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er að gera grein fyrir myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu (ÍTM) í ljósi fræðilegrar umfjöllunar um hv-spurningar í öðrum táknmálum. Fyrri hluti ritgerðarinnar snýr að myndun slíkra spurninga í öðrum táknmálum en hv-spurningar hafa verið vinsælt rannsóknarefni innan táknmálsfræða síðustu ár og uppskriftin að slíkum spurningum virðist vera í stórum dráttum eins á milli táknmála. Ólíkt hv-spurningum í raddmálum innihalda flestar hv-spurningar í táknmálum ekki einungis spurnartákn, sambærileg spurnarorðum, heldur einnig spurnarlátbrigði, sem koma fram í hreyfingu efri hluta líkama og/eða í andliti. Þó eru spurnarlátbrigðin í einhverjum tilvikum valfrjáls og spurnartáknin í öðrum tilvikum ekki til staðar. Þar sem spurnartákn koma fyrir skiptir staða þeirra líka máli fyrir myndun slíkra spurninga en í öllum rannsökuðum táknmálum virðist algengast að sjá spurnarliðinn á setningamörkum. Í setningafræðilegri greiningu á stöðum spurnarliða hafa fræðimenn greint spurnarliði á grunnmynduðum stað og spurnarliði færða með spurnarfærslu til vinstri eða hægri.

Seinni hluti ritgerðarinnar felst í því að lýsa hv-spurningum í íslenska táknmálinu út frá rannsókn á hv-spurningum sem gerð var. Hv-spurningar í ÍTM virðast vera eins myndaðar og hv-spurningar í öðrum táknmálum. Íslenska táknmálið virðist þó hafa tiltölulega mörg spurnartákn miðað við önnur táknmál en svo virðist sem þau séu að minnsta kosti ellefu talsins. Þau látbrigði sem fylgja hv-spurningum í ÍTM svipar mjög til þeirra sem sjást í öðrum vestrænum táknmálum en táknari merkir slíkar spurningar oftast með því að setja augabrúnir niður á meðan hann táknar slíkar spurningar eða hluta þeirra. Þó kemur einnig fyrir í ÍTM að táknari setji augabrúnirnar upp en í einhverjum tilvikum virðist vera hægt að tengja þau látbrigði frekar við tilfinningar heldur en setningagerðina. Í ÍTM koma spurnarliðir oftast fyrir í upphafi eða enda spurninga þótt dæmi séu um að spurnarliður komi fyrir inn í spurningum eða bæði í upphafi og enda spurningar. Setningafræðileg greining á þessum stöðum sýnir að spurnarliðir í ÍTM geti komið fyrir á grunnmynduðum stað en einnig verið færðir með spurnarfærslu. Í gögnunum fundust bæði dæmi sem benda til þess að færsla sé til vinstri, eins og í flestum raddmálum, og einnig einhver dæmi, þó fá, sem benda til færslu til hægri. Þá fundust dæmi um sögn í öðru sæti (V2) með spurnarfærslu til vinstri en engar heimildir eru um slíka færslu í öðrum táknmálum.

Ritgerðin er aðgengileg í heild sinni hér: Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér