2015: Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2015

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Ályktun

Íslenska táknmálið (ÍTM - Íslenskt táknmál er jafnan skammstafað ÍTM), eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi, er í útrýmingarhættu þar sem við blasir að allir með móðurmálsfærni á ÍTM hverfi af sjónarsviðinu án þess að nýir bætist við. Málnefnd um íslenskt táknmál lítur stöðu ÍTM alvarlegum augum og hvetur stjórnvöld til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að snúa þessari þróun við tafarlaust.

Mikilvægasti þátturinn í því að tungumál (hugtakið tungumál vísar bæði til raddmála og táknmála) haldi lífskrafti sínum er að það færist á milli kynslóða. Það gerist ekki nema ungir málnotendur læri málið í uppvextinum. Hvað ÍTM varðar er í því sambandi grundvallarforsenda að öll heyrnarskert, heyrnarlaus og daufblind börn, sem og börn döff (í þessari skýrslu verður hugtakið döff notað í umræðu um heyrnarlaust fólk sem samsamar sig ÍTM samfélagi og döff menningu) foreldra (Einnig nefnd börn af döff uppruna (BADU)], hafi óhindraðan aðgang að ÍTM og málsamfélagi þess. Aðrir mikilvægir þættir, sem ráða því hvort tungumál lifir eða deyr út, eru (a) notkunarsvið tungumálsins (mikilvægt er að hægt sé að nota tungumálið við allar aðstæður sem þörf krefur), (b) afstaða samfélagsins til tungumálsins, (c) magn og gæði gagna um málið og á málinu, (d) heildarfjöldi þeirra sem kunna málið og fyrst og fremst þeirra sem hafa móðurmálsfærni í því og (e) stefna stjórnvalda (hvort stjórnvöld styðja við bakið á málsamfélaginu, láta reka á reiðanum eða jafnvel vinna gegn því). Samkvæmt lögum nr. 61/2011 ber íslenskum stjórnvöldum að hlúa að og styðja ÍTM. Staða ÍTM er afleit í dag, fjórum árum eftir setningu laganna.


Forsendur og umræða

Inngangur

Í lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir:

3. gr.
Íslenskt táknmál.
Íslenskt táknmál er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja.
Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.

Með setningu þessara laga stigu stjórnvöld stórt skref í átt að bættri stöðu ÍTM og málhafa (hugtakið málhafi vísar til málnotenda með móðurmálsfærni) þess, bæði núverandi og verðandi. Lögin ein og sér duga hins vegar ekki til að breyta og bæta stöðu ÍTM heldur kalla lögin á áherslubreytingar víða í þjóðfélaginu. Staða ÍTM var ekki sterk þegar lögin voru sett og hafa breytingar, sem vænta mátti í kjölfar laganna, látið á sér standa.

Í samræmi við lög nr. 61/2011 skipaði mennta- og mennningarmálaráðherra Málnefnd um íslenskt táknmál sem hefur það hlutverk að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi. Málnefndin er skipuð 5 fulltrúum og hefur fengið eina milljón króna á fjárlögum til starfsins. Vegna skorts á fjármagni hefur málnefndin hvorki getað sinnt né styrkt rannsóknir á málefnum er tengjast nefndinni. Þá hefur Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra frá árinu 2012 greitt laun ritara málnefndarinnar í 20% stöðu. Frá upphafi hefur málnefndin lagt mesta áherslu á að benda stjórnvöldum á að lög nr. 61/2011 sýni sig ekki í framkvæmd, sérstaklega m.t.t. máluppeldis barna. Þá hefur málnefndin kallað eftir rökstuðningi frá menntastofnunum sem sérhæfa sig í menntun heyrnarlausra barna fyrir því námsumhverfi sem börnunum býðst.

Að mati málfræðinga við Rannsóknastofu í táknmálsfræðum er ÍTM enn í útrýmingarhættu, fjórum árum eftir setningu laganna. Helsta ástæða þess er sú að heyrnarskert, heyrnarlaus og daufblind börn, sem og börn döff foreldra, hafa ekki tækifæri til að læra ÍTM óhindrað.

Í þessari skýrslu verða rakin nokkur þeirra atriða sem ýta undir þá verulega slæmu þróun sem ÍTM stendur frammi fyrir í dag og þau m.a. skoðuð í ljósi menntunarsögu heyrnarlausra barna, bæði hér á landi og úti í heimi.


Stefna í menntun heyrnarlausra barna

Eins og fram kemur í álykun málnefndarinnar hér að framan er mikilvægasti þátturinn í því að tungumál haldi lífskrafti sínum flutningur þess á milli kynslóða þannig að nýir málhafar taki við og læri málið. Mál lærist í félagslegum samskiptum og er líklega sterkasta afl sem er til í félagsmótun barna. Máltaka er mjög háð því að verða félagslega hæfur í samfélaginu og ferlið að verða félagslegar hæfur í samfélaginu kemur að miklu leyti í gegnum tungumálið. Því er félagsleg þátttaka og menningarleg gildi óaðskiljanleg frá máli og máltöku. Máltaka verður að eiga sér stað í málsamfélagi þar sem börn læra tungumál og fá á sama tíma félagsmótun og viðeigandi menningarhegðun (Ahearn, 2012).

Foreldrar barna, sem fæðast heyrnarlaus kunna, í fæstum tilvikum ÍTM þegar börnin fæðast. Börn, sem reiða sig á ÍTM til samskipta, hafa því ekki óhindraðan aðgang að málsamfélagi fjölskyldu sinnar. Ef ekki er gripið inn í á þessu stigi er hætta á að barnið læri ekki reglur málsamfélagsins og menningarinnar, sem skapar barninu fötlun. Það verður því að koma í hlut skóla að sjá börnum fyrir málsamfélagi sem er nauðsynlegt máltöku þeirra. Áhrif skólans á máltökuferli og málþróun barnsins og einnig hvort barnið verður að búa við fötlun eru því meiri en hjá öðrum börnum og skólastefnan í menntun heyrnarlausra barna á hverjum tíma hefur mikil áhrif á líf barnanna og stöðu ÍTM.

Kennarar ættu að vera þeir sem skapa umhverfi og aðstæður fyrir barn til þess að þroskast og menntast. Afstaða þeirra til málanna sem börnin tala og val þeirra á máli sem barnið fær aðgang að ræður miklu um gengi barns. Kennarar eru þannig hliðverðir að máli og gengi barnsins í lífinu. Þeir ákveða hvort nemandi nær á milli bekkja og hvernig hann er metinn út úr skóla. Þeir hleypa nemendum inn í skóla og halda nemendum utan skólans og hafa því mikil áhrif á gengi nemanda í lífinu og á vinnumarkaði. Skólakerfið hefur tilhneigingu til að umbuna þeim sem hafa valdið, eru eins og kennararnir og tala íslensku.


Skóli fyrir heyrnarlaus börn

Harlan Lane, prófessor í sálfræði við Northeastern-háskólann í Boston, hefur bent á að eftir að fyrstu skólar fyrir heyrnarlaus börn voru stofnaðir hafi skólarnir gengið í gegnum fimm stig í átt að aðlögun barnanna að heyrandi heimi og í átt að útrýmingu táknmála heimsins með því að þrengja að aðgengi barnanna að táknmálssamfélögum.

Fyrsta stigið var boðun raddmálsstefnunnar (e. oralism) við lok 19. aldar þegar táknmál heimsins voru bönnuð og döff kennarar voru reknir úr skólunum. Annað stigið var þegar eitt táknmálssamfélag – heimavistarskólinn – var lagt niður og skólinn var gerður að dagskóla. Þetta var gert til þess að börnin gætu verið heima hjá sér í málumhverfi raddmálsins. Þriðja stigið var valdefling meirihlutamálsins með því sem kallað var alhliða boðskipti. Þá átti kennarinn að nota allar leiðir til þess að styrkja barnið í að nema raddmálið, m.a. tákn úr táknmáli. Fjórða stigið var svo blöndun í skóla fyrir heyrandi börn. Þar var heyrnarlausum nemendum dreift meðal heyrandi nemenda í almennum hverfisskólum. Fimmta og lokastig aðlögunar heyrnarlausa barnsins að heyrandi heimi er skurðaðgerð sem Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA) telur lækningu á heyrnarleysi og telur skurðaðgerð skila betri árangri en heyrnartæki (Lane, 1992).

Hér á Íslandi hefur skólastefnan þróast á sambærilegan hátt og Lane lýsir. Fyrsti skóli fyrir heyrnarlaus börn á Íslandi var stofnaður árið 1867 á Prestbakka á Síðu. Þar var heimavist. Séra Páll Pálsson var fyrsti kennari barnanna. Hann kunni það sem þá var kallað fingramál og var forveri ÍTM og notaði hann fingramálið við kennsluna. Nemendur lærðu að lesa og skrifa en ekki var lögð áhersla á tal. Þarna varð til fyrsta samfélag döff og þarna byrjaði ÍTM að þróast.

Upp úr 1920 byrjaði raddmálsstefnan að þróast í skóla heyrnarlausra og náði hámarki eftir 1944 þegar allar bendingar og fingrastafróf var bannað í kennslu barnanna. Þetta bann stóð langt fram á 20. öldina. Alhliða boðskipti verður ríkjandi aðferð við kennslu barnanna frá árinu 1980 til ársins 1985. Markmiðið með þeirri aðferð var að ná að styrkja íslenskunám barnanna með hjálp varalesturs, fingrastafrófs, bendinga, ritaðs máls og annarra leiða. Alhliða boðskipti nota tákn úr ÍTM samhliða íslensku. Kennarar, sem nota málið á þennan hátt, eru ómeðvitaðir um áhrif þess á nemendur sína. Það má taka sem hliðstæðu rannsókn Hill (2008) á spænskuslettum í bandarískri ensku (e. Mock Spanish) til þess að skilja áhrif þessarar notkunar á málinu betur. Alhliða boðskipti styrkja fyrst og fremst stöðu kennara, sem kunna ekki ÍTM, í samskiptum við nemendur. Þeir eru blindir á neikvæðu áhrifin á nemendur sína en eins og áhrif „spænsku“-notkunar Bandaríkjamanna hafa þau lítillækkandi áhrif, einangrandi (e. marginalizing) og eiga þátt í að búa til einsleita mynd af fólki (e. stereotyping) (Hill, 2008). Neikvæðu áhrifin, sem táknanotkun með íslensku hafði á ÍTM, voru sömuleiðis að endurskapa og stýra þróun þess á neikvæðan hátt.

Árið 1991 var heimavist skólans lokað og börnin fluttu inn á heimilin þar sem talað var raddmál og misstu með því málsamfélag heimavistarinnar. Árið 1996 tók táknmálstalandi döff skólastjóri við stjórn skólans og við það jókst áhersla á færni kennara í ÍTM. Árið 2002 er síðan Vesturhlíðarskóla lokað. Með lokun skólans var síðasta málsamfélagi ÍTM, sem börnin höfðu aðgang að, eytt. Þrátt fyrir að innan Hlíðaskóla sé nú starfrækt táknmálssvið eru mörg heyrnarskert og heyrnarlaus börn í sínum hverfisskólum og fá enga táknmálskennslu. Þar að auki ervið Hlíðaskóla einnig verulega ábótavant. Fimmta stigið á einnig vel við hér á landi því flest börn, sem greinast heyrnarlaus, fara nú í kuðungsígræðslu og fæst þeirra fá tækifæri til að öðlast móðurmálsfærni í ÍTM.


ÍTM í útrýmingarhættu

Sú þróun sem hefur átt sér stað í menntun og málumhverfi heyrnarlausra barna, bæði hér á landi og víðar, hefur orðið til þess að mörg táknmál heimsins eru í útrýmingarhættu. Þegar málsamfélagi táknmáls er eytt með kerfisbundnum hætti og heyrnarlaus börn fara í kuðungsígræðslu án þess að fá aðgang að táknmálsumhverfi minnkar heildarfjöldi móðurmálshafa. Er þetta ein helsta ástæðan fyrir þeirri stöðu sem ÍTM er í í dag. ÍTM, eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi, er í útrýmingarhættu.

Málfræðingar við Rannsóknastofu í táknmálsfræðum hafa, í samstarfi við Ethnologue.com, sýnt fram á að ÍTM er komið í flokk mála sem er verulega ógnað (e. threatened). Ástæðan er sú að ÍTM er aðeins notað í daglegum samskiptum milli manna. Notkunarsvið málsins er því afar takmarkað en til þess að tungumál haldi lífskrafti sínum er m.a. mikilvægt að hægt sé að nota tungumálið við allar aðstæður sem þörf krefur. Þá færist málið ekki á milli kynslóða því afar fá börn læra málið í uppvexti sínum. Ef ekkert verður að gert fellur málið í flokk deyjandi mála (e. moribund) innan fárra ára. Málfræðingarnir hafa einnig lýst yfir því við UNESCO, í samstarfi við iSLanDS Centre í Preston á Englandi, að ÍTM sé í mikilli hættu. Helsta ástæða þess er sú að heyrnarskert, heyrnarlaus og daufblind börn, sem og börn döff foreldra, hafa ekki tækifæri til að læra ÍTM óhindrað.

Á Íslandi ríkir nú sú menntastefna að skóli skuli vera án aðgreiningar. Innan þeirrar stefnu er heyrnarlausum, heyrnarskertum og daufblindum börnum, auk barna döff foreldra, kennt í tvítyngdu eða margtyngdu umhverfi. Máltaka í slíku umhverfi getur verið óhindruð efvel er að henni staðið en sýnt hefur verið fram á að félagslegir þættir og hugmyndir um tungumál geta komið í veg fyrir að börn nái valdi á tungumáli þrátt fyrir að málið sé oft notað í umhverfi barnsins (Ahearn, 2012). Viðhorf stjórnvalda, skólayfirvalda, kennara og barnanna sjálfra til ÍTM getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir börnin sjálf og málið, eins og menntunarsaga heyrnarlausra barna hefur sýnt okkur. Fram til dagsins í dag hafa íslensk stjórnvöld ekki framleitt námsefni á ÍTM fyrir börn sem hafa ÍTM sem sitt fyrsta mál, hvorki fyrir ÍTM sem námsgrein, né vegna kennslu annarra námsgreina. Þá er hvergi á Íslandi boðið upp á menntun fyrir táknmálskennara, þá sem sinna móðurmálskennslu ÍTM. Staðan er þessi, þrátt fyrir setningu laga nr. 61/2011 og stöðu ÍTM í Aðalnámskrá grunnskóla (2013), en þar segir að „traust kunnátta í íslensku táknmáli og íslensku [sé] ein meginundirstaða staðgóðrar menntunar heyrnarlausra og heyrnarskertra“ (bls. 109).

Til þess að ÍTM geti staðið sem fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra verður málið að vera aðgengilegt í málsamfélagi þar sem það er notað af ólíkum einstaklingum á fjölbreyttan hátt. Innan skólakerfisins þarf að vera til slíkt málsamfélag og viðurkenning á málinu sem jafnréttháu íslensku til samskipta innan skólans. Mál, sem ekki er aðgengilegt og viðurkennt, getur ekki gegnt hlutverki móðurmáls eða fyrsta máls. Eins og staðan er í dag vantar mikið upp á að börnum sé tryggður nægur aðgangur að frjóu og jákvæðu málsamfélagi sem leiði af sér eðlilega máltöku og málþroska barna á máltökuskeiði. Til þess þarf að vera lifandi og aðgengilegt ÍTM málumhverfi í leikskólum og grunnskólum.

Leikskólinn Sólborg brást við fyrstu skýrslu málnefndarinnar árið 2013 með því að breyta námsumhverfi heyrnarlausra og heyrnarskertra barna. Mynduð var sérstök deild innan leikskólans þar sem börn sem tala ÍTM eru höfð saman í daglegu starfi og eingöngu á þessari deild vinna döff starfmenn. Þessi breyting var liður í því að mæta áskorun málnefndar til stjórnvalda um að bæta málumhverfi heyrnarskertra, heyrnarlausra og daufblindra barna, sem og barna döff foreldra. En betur má ef duga skal. Þar sem ÍTM er notað í málumhverfi heyrnarlausra barna er oft um að ræða blendingsmál íslensku og ÍTM þar sem ekki allir starfsmenn í námsumhverfi barnanna hafa næga færni í ÍTM. Engir sérskólar eru til hér álandi fyrir heyrnarlaus börn þar sem ÍTM er skólamálið og mörg heyrnarskert, heyrnarlaus og daufblind börn komast aldrei í snertingu við ÍTM, hvorki heima fyrir né í skólanum. Ástæðan er sú að það á að reyna að mennta þau án aðgreiningar, í sínum heimaskólum. Raunin er hins vegar sú að skóli án aðgreiningar aðgreinir heyrnarlaus börn frá máli og menntun. Hann er á kostnað ÍTM málumhverfis, börnum er ekki veitt þjónusta á grundvelli ÍTM líkt og lög nr. 61/2011 eiga að tryggja.


Sinnuleysi stjórnvalda hefur áhrif á virðingu fyrir ÍTM

Málfræðingar við Rannsóknarstofu í táknmálsfræðum telja afstöðu samfélagsins til ÍTM jákvæða og viðhorf til þess hlutlaus. Á RÚV eru daglega fluttar táknmálsfréttir en um er að ræða 10 mínútna fréttaágrip á ÍTM. Slíkt innslag í dagskrá RÚV hefur, að því er ætla má, jákvæð og/eða hlutlaus áhrif á viðhorf til málsins. Þá hefur magn og gæði gagna um málið og á málinu aukist á undanförnum árum, ekki hvað síst í gegnum vefinn SignWiki, sem starfræktur er hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Stjórnvöld leggja hins vegar ekki miklar fjárhæðir í rannsóknir á ÍTM, hvorki málinu sjálfu né þeim áhrifum sem skóli án aðgreiningar hefur haft á málsamfélag þess. Þetta áhugaleysi stjórnvalda gagnvart ÍTM hefur skilað sér í grafalvarlegri stöðu heyrnarskertra, heyrnarlausra og daufblindra barna, sem og barna döff foreldra.

Fækkun málhafa og ungra málnotenda ÍTM ber merki um sinnuleysi stjórnvalda. Nýir málhafar og ungir málnotendur eru fyrst og fremst börn döff foreldra sem læra málið heima hjá sér. Þessi börn hafa ekki raunverulegt val um móðurmálskennslu í skólakerfinu. Sú virðing og sú staða, sem lög nr. 61/2011 eiga að tryggja málsamfélagi ÍTM, hefur ekki sýnt sig í verki, allra síst í skólakerfinu. Málinu er m.a. sýnt sinnuleysi þar sem kennarar barnanna þurfa ekki að vera sérmenntaðir í ÍTM til þess að kenna málið eða kenna heyrnarlausum börnum aðrar námsgreinar innan skólakerfisins. Því er augljóst að íslenska og ÍTM eru ekki jafnrétthá mál innan skólakerfisins líkt og Aðalnámskrá grunnskóla (2013) og lög nr. 61/2011 kveða á um að þau eigi að vera.

Ef ÍTM er ekki kennt sem fyrsta mál í ÍTM málumhverfi mun málhöfum og ungum málnotendum halda áfram að fækka. Ef börnin læra ekki málið munu þau ekki geta nýtt sér þjónustu táknmálstúlka síðar á ævinni. Notkun ÍTM í flestum umdæmum fer í dag fram í gegnum táknmálstúlkuð samskipti. Ef börnin læra ekki málið leiðir það af sér verulega og öra fækkun umdæma ÍTM á næstkomandi árum verði ekkert að gert. Til þess að ÍTM geti sannarlega verið jafnrétthátt íslensku, líkt og lög nr. 61/2011 kveða á um, þarf að snúa við þeirri þróun sem nú blasir við og framfylgja núgildandi lögum í verki. Opna þarf sérskóla fyrir heyrnarskert, heyrnarlaus og daufblind börn og börn döff foreldra þar sem ÍTM er kennslumálið, auka þarf fjármagn til rannsókna á málinu og málsamfélagi þess og auka veg þess og virðingu í öllum þeim umdæmum þar sem íslenska fær að dafna.


Málnefnd um íslenskt táknmál

Valgerður Stefánsdóttir formaður

Ari Páll Kristinsson varaformaður

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Rannveig Sverrisdóttir


Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla. (2013). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Ahearn, L. M. (2012). Living Language. Chickester: Wiley-Blackwell.

Hill, J. H. (2008). The Everyday Language of White Racism. West Sussex: Blackwell Publishing.

Lane, H. (1992). The Mask Benevolence. New York: Alfred A. Knopf Inc.

Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011.


Hjördís Anna Haraldsdóttir, kennari við táknmálssvið Hlíðaskóla og fulltrúi í Málnefnd um íslenskt táknmál, skrifar:

Frá blómaskeiði táknmálsumhverfis að útrýmingu

Ég er af þeirri kynslóð sem fæddist kringum 1980. Ég gekk í Heyrnleysingjaskólann sem síðar varð Vesturhlíðarskóli. Þegar ég hóf mína skólagöngu tæplega ársgömul var starfrækt athugunardeild við skólann sem gekk undir nafninu Rauða húsið. Þangað mættu foreldrar með börnin sín strax eftir að heyrnarskerðing greindist. Á þessum tíma voru 50-60 nemendur í Heyrnleysingja-skólanum á aldrinum eins til átján ára. Við skólann var einnig starfrækt framhaldsdeild sem studdi döff í að sækja sér framhaldsmenntun. Á þessum tíma var ekki rekin túlkaþjónusta en kennarar skólans fylgdu nemendum í kennslustundir og túlkuðu fyrir þá.

Á skólalóðinni var íslenska táknmálið sjálfsagt mál og þar hitti maður fólk á öllum aldri. Ég man vel eftir að hafa horft öfundaraugum á eldri nemendur þar sem þeir sátu við hringborð og ræddu og rökræddu um allt og ekkert. Við, litla fólkið, vorum svo ung og höfðum ekki náð þroska til að taka þátt.

Árin 1990-1994 upplifi ég sem blómaskeið en þá var margs konar starfsemi á skólalóðinni. Að vísu fór nemendum fækkandi á þessum árum, sem hefur þá eðlilegu skýringu að stærsti árgangurinn frá 1964, samtals um 35 einstaklingar, lauk skólagöngu sinni en á venjulegu ári fæddust eða greindust aðeins 1-5 heyrnarlaus börn. Heimavistin, sem verið hafði á lóðinni, var lögð niður upp úr 1990 en þá fluttist önnur starfsemi inn í heimavistarhúsin. Þetta voru Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, dvalarheimilið Vinahlíð sem var fyrir elsta döff hópinn og félagsmiðstöð fyrir börn og unglinga þar sem öll döff börn voru saman eftir skóla.

Upp úr 1996 fór allt að breytast. Við sjálf stóðum á hliðarlínunni. Við vorum ekki höfð með í ráðum en horfðum á hvernig málsamfélagið okkar var smám saman saxað niður.

Nemendum fór fækkandi, Samskiptamiðstöðin fluttist af skólalóðinni í annað húsnæði, framhaldsdeildin var lögð niður og dvalarheimilið var lagt niður vegna rekstrarörðugleika. Aldraðir döff voru teknir úr táknmálssamfélaginu og fluttir inn á Hrafnistu í raddmáls-samfélag sem þeir höfðu ekki aðgang að. Menntamála-ráðuneytið og Reykjavíkurborg fóru að skipa málum Vestur-hlíðarskóla. Rauða húsið var lagt niður og sú starfsemi flutt inn á nýjan leikskóla, Sólborg, sem var byggður norðan við skólalóðina. Á þessum tíma var kennsluskyldunni breytt úr 4-18 ára í 6-16 ára.

Minn hópur var síðasti hópurinn sem útskrifaðist á 18. aldursári.

Á minni skólagöngu var skólalóðin í mínum huga Táknmálsland. Allri þekkingu var safnað saman á þennan stað og íslenska táknmálsumhverfið blómstraði. Ég fékk að kynnast eldri kynslóðum nógu vel til að þekkja þær seinna og ólst upp með yngri kynslóðum. Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra barna var jafnframt öflugt á þessu tímabili.

Kjarnanum var síðan tvístrað í allar áttir. Börnin áttu ekkert málsamfélag til þess að næra máltöku sína og foreldrar misstu sinn stuðning.

Mamma mín sagði að á sínum tíma hefði Vesturhlíðarskóli verið „dýrasti skólinn“. Skólakerfið sem við búum börnunum núna er miklu dýrara. Því það er börnunum dýrt að fara á mis við góða máltöku og þann persónustyrk sem fæst við að eiga sér fyrirmyndir í umhverfi sínu.

Ákvarðanir á þessum tíma byggðust á því að við værum fatlaðir einstaklingar en ekki á því að við mynduðum málsamfélag en það er grundvöllur undir menntun okkar og þroska.

Í mínum huga er vegferðin eins og að ganga yfir hrynjandi brú. Það var búið að byggja upp táknmálsland þar sem málið blómstraði og við studdum hvert annað. Mín kynslóð gengur yfir brúna og hver fjölin af annarri hrynur að baki okkur. Ekkert er skilið eftir fyrir komandi kynslóðir af arfleifðinni eða sögunni sem er þeirra eða því öryggi og þeim stuðningi sem þarna var að fá.

Þegar rætt er um táknmáls-umhverfi fyllist ég söknuði. Ég man hvað við áttum og höfum séð hverfa.

Ég veit af eigin raun hve mikilvægt táknmálsumhverfið var fyrir þroska minn, félagsfærni og rökhugsun. Við nutum þess að horfa á eldri döff segja okkur sögur og með því öðluðumst við blæbrigðaríkt mál sem ekki er hægt að kenna í kennslustofunni. Við lentum í árekstrum við aðra og lærðum að leysa ágreining á íslensku táknmáli. Þarna var málumhverfi. Það er ekki til í dag.

Í dag er bisað við að finna upp leiðir og aðferðir til að geta boðið upp á táknmálsumhverfi fyrir börn og unglinga. Ég upplifi örvæntingu við að finna lausn á því. Það tekur mikla orku og skilar litlu. Það er sárt að þurfa að horfa á börnin eitt til þrjú bundin við sinn árgang með 20 börnum talandi mál sem þau hafa ekki fullan aðgang að. Þetta eru gjörólíkar aðstæður.

Sem fyrrum nemandi í skóla þar sem talað var íslenskt táknmál og núverandi kennari á táknmálssviði hef ég þungar áhyggjur af stöðu málsamfélagsins og stöðu barnanna sem læra ekki íslenska táknmálið. Það er svo margt fólgið í málumhverfi sem ekki næst með kennslu.

Án málsamfélags verður ekki máltaka. Það vantar blæbrigði, samheiti, sköpun, leik með málið – það vantar lífið.