Hvað verður um táknmálstúlkaþjónustuna á Íslandi

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.S. verkefni Áslaugar Ýrar Hjartardóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2020

Táknmálstúlkaþjónusta hefur verið veitt á Íslandi undanfarna tvo áratugi. Táknmálstúlkar túlka milli máls og menningar og eru eins konar brú á milli heyrandi og heyrnarlausra einstaklinga. Ríkið hefur aðallega séð um veitingu þjónustunnar frá upphafi, en nú eru einkarekin fyrirtæki farin að stinga upp kollinum á markaðnum. Þetta vekur upp ýmsar spurningar, svo sem í hvernig umhverfi táknmálstúlkar starfa og hver verði framtíð þjónustunnar. Í þessari ritgerð er gerð tilraun til að greina fjarumhverfi þjónustunnar á Íslandi og spá fyrir um framtíð hennar. Notast er við svokallaða PESTEL-greiningu til að greina ógnir og tækifæri í ytra umhverfi, en niðurstöður greiningarinnar eru síðan nýttar til að greina stöðu og framtíð þjónustunnar. Þar sem lítið er til af heimildum um táknmálstúlkaþjónustuna á Íslandi er hér stuðst við bæði fyrirliggjandi gögn og frumgögn við vinnslu ritgerðarinnar og er meðal annars tekið viðtal við tvo táknmálstúlka. Þá er stuðst við fræðibækur í viðskiptafræði, fræðigreinar og upplýsingar af heimasíðum hinna ýmsu stofnana sem koma að málinu. Að öllu samanlögðu fæst niðurstaða um framtíð og stöðu táknmálstúlkaþjónustunnar á Íslandi. Tækniþróunin er afar hröð, þörfin fyrir táknmálkstúlkun er síbreytileg, lagaumhverfið er heldur flókið og ofan á allt saman stendur allur heimurinn frammi fyrir loftslagsvanda sem jafnvel nær til táknmálstúlkaþjónustunnar. Allir þessir þættir hafa áhrif á stöðu þjónustunnar og móta framtíð hennar.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Hvað verður um táknmálstúlkaþjónustuna á Íslandi?