Með táknmáli er ég jafningi
Nú stendur yfir alþjóðleg baráttuvika heyrnarlausra með yfirskriftina Með táknmáli er ég jafningi (With Sign Language I´m Equal). Samskiptamiðstöð þjónar fólki sem talar íslenskt táknmál og hefur reglulega bent á brýna þörf fyrir aukna þjónustu, sem byggir fyrst og fremst á eflingu íslensks táknmáls (ÍTM). Í áliti frá umboðsmanni Alþingis nr. 4182/2004 kemur fram að lög Samskiptamiðstöðvar tryggi ekki nægjanlega rétt heyrnarlausra til máls, menntunar og túlkaþjónustu. Breytingar á lögum og alþjóðlegum sáttmálum undanfarin ár, sem ættu að skylda til aukinnar þjónustu, hafa ekki náð að breyta miklu. Íslenskt táknmál er til dæmis viðurkennt í lögum án þess að nægjanleg uppbygging hafi átt sér stað til þess að lögin séu virt.
Í huga fólks og við skipulag á þjónustu er litið á döff fólk sem fatlað en hagsmunir þess geta verið algerlega andstæðir hagsmunum fatlaðra. Þetta á til dæmis við um sambýli, elliheimili og skóla án aðgreiningar. Tökum skóla án aðgreiningar sem dæmi þar sem heyrnarlaus börn ganga í skóla í heimahverfi og töluð er íslenska. Án táknmáls eru þau ekki jöfn öðrum börnum og öðlast ekki þá menntun og þroska sem skólinn á að veita. Hvergi í skólakerfinu er gerð krafa um að kennarar þeirra hafi skilgreinda kunnáttu í táknmáli. Við bætist að eðlilegum þörfum barnanna fyrir námsefni á íslensku táknmáli er ekki mætt.
Margar skýrslur hafa verið unnar hér á landi um málefni heyrnarlausra af um einum tug nefnda og framkvæmdanefnda allt frá árinu 1992. Allar hafa þær bent á mikilvægi þess að efla íslenskt táknmál og þjónustu á íslensku táknmáli. Skýrsla vistheimilisnefndar, sem skoðaði Heyrnleysingjaskólann á árunum 1947-1992, birti alvarlegar niðurstöður um einangrun, ofbeldi og misnotkun. Þar var lagt til við stjórnvöld að tekin yrði eins fljótt og kostur er skýr, efnisleg afstaða til áður framkominna tillagna nefnda um úrbætur í málefnum heyrnarlausra. Brugðist var við með skipun Framkvæmdanefndar um þjónustu við heyrnarlausa, heyrnarskerta og daufblinda í upphafi árs 2010. Fjórum árum síðar skilaði arftaki hennar, Framkvæmdanefnd nr. 2, skýrslu með tillögum að uppbyggingu á þjónustu og eflingu íslensks táknmáls. Tillögurnar snúa að menntun, kennsluráðgjöf, ráðgjöf við foreldra, stuðningi við máltöku barna með skerta heyrn, rannsóknum á máli og menningu, þjónustu við aldraða, þjónustu á sviði geðheilbrigðis– og félagsmála o.s.frv.
Ekki hefur verið tekin afstaða til þessara tillagna af stjórnvöldum og ekki hefur á neinn hátt verið brugðist við tillögum nefndarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra baðst afsökunar á mistökum Heyrnleysingjaskólans í kjölfar skýrslu vistheimilanefndar og ítrekaði að þetta væri svartur blettur á samfélaginu. Sagan sem í skýrslunni er rakin er að einhverju leyti að endurtaka sig í dag því ekki hefur verið brugðist við. Alveg er ljóst að önnur svört skýrsla mun birtast innan fárra ára.
Það er ekki nóg að biðjast afsökunar.
Döff fólk var ekki með í „góðærinu“ fyrir hrun. Árið 2009 og árin þar á eftir þurftu stofnanir og starfsfólk sem veitir döff fólki þjónustu samt að skera niður og taka á sig hrunskuldir. Núna árið 2016 erum við ekki enn komin á dagskrá. Nýjar tillögur um önnur viðfangsefni (sem e.t.v. verða aldrei að veruleika) eru á dagskrá nefndanna sem starfa í dag án þess að brugðist hafi verið við eldri tillögum. Starfsfólk Samskiptamiðstöðvar er stolt af stofnuninni og því sem þar er unnið en á sama tíma skömmumst við okkar fyrir allt það sem við gerum ekki og vitum að þarf að gera. Við ítrekum og tökum undir skilaboð baráttuvikunnar með döff fólki: Með táknmáli er ég jafningi.
Valgerður Stefánsdóttir
Greinin birtist í Fréttablaðinu, 22. september 2016