Sýnileiki táknmáls í leikhúsum og leiklist: Áhrif á viðhorf til táknmála

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Sesselju Hansen Daðadóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2022

Ritgerðin „Sýnileiki táknmáls í leikhúsum og leiklist: Áhrif á viðhorf til táknmála“ var unnin með það fyrir augum að komast að því hversu mikill sýnileiki táknmáls er í leikhúsum og leiklist og hvort að meiri sýnileiki geti haft jákvæð áhrif á viðhorf til táknmála. Táknmál eru fremur ósýnileg, einnig í leikhúsum og leiklist. Fjallað er um viðhorf til táknmála og döff, döff menningu og þjóð og um döff leikhús og leiklist en mismunandi aðferðir og sjónarmið ríkja á því sviði. Rannsóknaraðferðin var eigindleg þar sem reyndur túlkur og döff leikkona voru fengnar í viðtal um reynsluheim þeirra. Þær hafa báðar reynslu af leiklistarheiminum á Íslandi og Bandaríkjunum og stefna þær á að setja upp leikrit í samstarfi við Þjóðleikhúsið haustið 2022. Spurningalisti með opnum spurningum, var notaður í viðtölunum, bættust svo við ýmsar spurningar út frá flæði samtalsins. Helstu niðurstöður eru þær að sýnileiki táknmáls í leikhúsum og leiklist getur haft jákvæð áhrif á viðhorf til þeirra, en brýnni þörf er á að upplýsa almenning um hvað táknmál, döff og döff menning er. Viðmælendum fannst báðum mikilvægt að meiri sýnileiki væri á táknmáli í leikhúsum og leiklist. Túlkurinn nefndi að því meiri sýnileiki, því betra, en bætti við að það þyrfti einnig sýnileika á döff samfélaginu í leikhúsunum. Döff leikkonunni fannst brýnni þörf á að mennta börn frá unga aldri um hvað döff og táknmál er, hún nefndi að sýnileiki væri mikilvægur og gæti hjálpað, en að það eingöngu væri ekki nóg.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Sýnileiki táknmáls í leikhúsum og leiklist: Áhrif á viðhorf til táknmála