TÁKNMÁL AF HVERJU. Er tvítyngi raddmáls og táknmáls besta leiðin fyrir heyrnarlaus börn með kuðungsígræðslu

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Kristínar Guðnýjar Sigurðardóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2019

Ritgerð þessi er lögð fram til BA-prófs í táknmálsfræði og táknmálstúlkun frá íslensku – og menningardeild við Háskóla Íslands. Markmið ritgerðarinnar var að leita svara við þeirri spurningu hvort að tvítyngi sé í raun rétta leiðin fyrir börn, einkum heyrnarlaus og heyrnarskert börn. Í því samhengi er tvítyngi skoðað út frá ýmsum sjónarhornum. En talið er að um helmingur jarðbúa sé tvítyngdur og jafnvel fjöltyngdur. Það er hefur fleiri en eitt móðurmál. Samfélag heyrnarlausra er lítið en samheldið.

Á hverju ári fæðast að meðaltali tvö börn með mikla heyrnarskerðingu en staðreyndin er sú að 9 af hverjum 10 börnum sem fæðast heyrnarlaus eiga heyrandi foreldra sem hafa oft litla sem enga þekkingu á samfélagi heyrnarlausra. Því bíða mörg verkefni þessara foreldra og verða þau reifuð í þessari ritgerð. Í dag er farið með flest börn sem fæðast heyrnarlaus í kuðungsígræðslu en það er aðgerð þar sem kubbi er komið fyrir undir húð við eyra og vír þræddur í kuðung. Utan á liggjandi er svo heyrnartæki sem tengist þessum kubbi. Þetta veitir barninu heyrn, en þó ekki fulla heyrn en með aukinni tækniframförum minnkar bilið stöðugt.

Máltaka barna er flókið fyrirbæri en um leið ósjálfrátt. Hún byrjar í móðurkviði og heldur áfram fram til kynþroskaaldurs. Þetta er næmasta skeiðið þar sem allar helstu framfarir verða hjá barninu. Mikilvægt er að nýta þetta næmasta skeið til þess að kenna barninu. Á þessu skeiði lærir barnið tungumálið af umhverfinu sínu og á auðvelt með að læra ný tungumál hvort sem það er eitt eða fleiri. Jafnvel mjög ung börn eiga í engum vandræðum með að skipta á milli tungumála. Því er óhætt að segja að spurningunni, sem sett var fram í upphafi, um hvort tvítyngi raddmáls og táknmáls sé rétta leiðin fyrir heyrnarlaus börn með kuðungsígræðslu, megi svara játandi. Gefa eigi börnunum strax í upphafi öll þau verkfæri sem í boði eru, þau ráða svo sjálf hvort þau nýta sér þau eða ekki í framtíðinni.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, TÁKNMÁL AF HVERJU? Er tvítyngi raddmáls og táknmáls besta leiðin fyrir heyrnarlaus börn með kuðungsígræðslu?