Munur á milli breytinga „2018: Greinargerð Starfsemi Málnefndar um íslenskt táknmál veturinn 2017-2018“

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
 
(Enginn munur)

Núverandi breyting frá og með 10. júní 2021 kl. 09:29

SAMANTEKT VEGNA STARFSÁRSINS 2017 - 2018

Málnefnd um íslenskt táknmál hvetur ríki og sveitarfélög til að tryggja heyrnarlausum börnum á Íslandi jafnrétti til náms með námsefni við hæfi og táknmálstúlkun á öllum skólastigum. Mikilvægt er að þeir aðilar er koma að menntun og táknmálsnámi heyrnarlausra leitI allra leiða til lausna er leiða til góðs fyrir nám og framtíðarmöguleika heyrnarlausra í samfélaginu.

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenska táknmálið til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Málnefnd um íslenskt táknmál er m.a. ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr.

Málnefnd um íslenska táknmálið er þannig skipuð, tímabilið 1. maí 2017 til 30. apríl 2020:

Bryndís Guðmundsdóttir formaður

Sigríður Sigurjónsdóttir varaformaður

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Rannveig Sverrisdóttir


Verkefni nefndarinnar, síðasta starfsár, hafa helst beinst að því að benda stjórnvöldum á þegar lög nr. 61/2011 sýna sig ekki í framkvæmd, sérstaklega m.t.t. máluppeldis barna. Á síðastliðnum vetri hefur verið lögð áhersla á viðhorfastýringu og vitundarvakningu um íslenskt táknmál, auk þess að meta umhverfi og aðstæður barna sem hafa íslenska táknmálið að móðurmáli. Á sama tíma að stuðla að auknu samstarfi við þá aðila er koma að menntun, menningu og táknmáli heyrnarlausra. Framlag mennta- og menningarmálaráðuneytis var aukið til nefndarinnar árið 2017 til samræmis við framlag til íslenskrar málnefndar. Því var unnt að fastráða starfsmann í 20% hlutastarf sem vann með nefndinni. Tveir fulltrúar málnefndarinnar sóttu fund norrænna málnefnda en þema fundar norrænu málnefndanna að þessu sinni var ráðgjöf og upplýsingar, þ.m.t. málfarsráðgjöf.

Vakin var athygli á íslenska táknmálinu með ýmsum hætti í tengslum við dag íslenska táknmálsins þann 11. febrúar m.a. með samstarfi við RÚV. Samstarfið við RÚV var mikilvægt skref að því markmiði að auka sýnileika íslenska táknmálsins og er nauðsynlegt að á því verði framhald. Næsta vetur verður haldið áfram að óska eftir heimsóknum til málnefndarinnar af aðilum sem stýra námsframboði, túlkaþjónustu og námsefni fyrir heyrnarlausa. Markmið nefndarinnar er að þeir aðilar sem koma að menntun og táknmálsnámi heyrnarlausra leiti allra leiða til lausna sem leiða til góðs fyrir stöðu heyrnarlausra í samfélaginu. Það verði betur gert með samstarfi allra hlutaðeigandi, þrátt fyrir að stöðugt þurfi að vera á varðbergi fyrir því að íslenska táknmálið fái þann sess sem því ber í íslensku þjóðfélagi.


STARFSEMI MÁLNEFNDAR UM ÍSLENSKT TÁKNMÁL 2017 – 2018

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenska táknmálið til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Ráðherra skipar fimm menn til setu í nefndinni til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við hugvísindasvið Háskóla Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hagsmunasamtök heyrnarlausra og heyrnarskerta hér á landi og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra velur formann og varaformann.

Hlutverk málnefndar um íslenska táknmálið er að stuðla að eflingu íslensks táknmáls, notkun þess í íslensku þjóðlífi, styrkja stöðu þess og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess. Í þessu felst m.a. að vinna að samræmi í táknanotkun og annarri stöðlun íslensks táknmáls sem tjáningarmiðils eftir því sem eðlilegt þykir og skynsamlegt getur talist.

Málnefnd um íslenskt táknmál er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr.

Málnefnd um íslenskt táknmál hefur hist á Samskiptamiðstöð heyrnarskertra og heyrnarlausra og á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en þar er skrifstofa málnefndar skráð. Ráðherra setur reglugerð um nánari starfsemi málnefndar um íslenskt táknmál.


Málnefnd um íslenska táknmálið er þannig skipuð, tímabilið 1. maí 2017 til 30. apríl 2020:

Bryndís Guðmundsdóttir formaður

Sigríður Sigurjónsdóttir varaformaður

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Rannveig Sverrisdóttir

Varamenn

Júlía Guðný Hreinsdóttir

Nedelina Ivanova

Árný Guðmundsdóttir

Helga Ingibergsdóttir

Gunnar Snær Jónsson


Starfsemin 2017 – 2018

Frá stofnun málnefndarinnar árið 2011 hefur nefndin lagt mesta áherslu á máltöku- og viðhorfastýringu í starfi sínu. Nefndin hefur ekki haft tök á að sinna formstýringu eða stöðustýringu þrátt fyrir mikla þörf á því sviði. Verkefni nefndarinnar hafa helst beinst að því að benda stjórnvöldum á þegar lög nr. 61/2011 sýna sig ekki í framkvæmd, sérstaklega m.t.t. máluppeldis barna. Málnefndin sem skipuð var vorið 2017 lagði strax áherslu á að veturinn 2017 – 2018 yrði áfram lögð áhersla á viðhorfastýringu og vitundarvakningu um íslenskt táknmál, auk þess sem áhersla yrði lögð á að fá heimsóknir frá hlutaðeigandi aðilum er tengjast máltöku heyrnarlausra barna og táknmáli. Þar gæfist færi á að fræðast um áherslur og framkvæmd þessara stofnana er varðaði máltöku og námsumhverfi auk þess sem möguleiki á samstarfi málnefndarinnar við þá aðila væri ræddur. Um leið yrði málnefndin fróðari um nýjungar og breytingar í starfi sem hafa orðið hin allra síðustu ár. Þessar heimsóknir hafa tekist vel og málnefndin mun halda áfram að kalla inn hlutaðeigandi stofnanir haustið 2018.


Fjármál

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) hefur umsjón með fjárveitingu til nefndarinnar og sér um greiðslur skv. reikningum hennar. Á árunum 2014 – 2016 fékk málnefndin eina milljón króna til starfsemi sinnar á ári frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Sú upphæð var notuð til að greiða þóknun vegna starfa nefndarinnar s.s. bréfaskriftir, skýrsluskrif, táknmálstúlkun á fundum og að hluta kostnað við hátíðarhöld á degi íslensks táknmáls auk ferða vegna samstarfs norrænna málnefnda. Árið 2016 var kostnaður umtalsvert meiri vegna starfa nefndarinnar eða 2.256.342 kr. eins og fram kom í skýrslu nefndarinnar vegna ársins 2016. Kostnaður Samskiptamiðstöðvar af rekstri Málnefndar um íslenskt táknmál var því langt umfram fjármagn sem henni var ætlað.

Í desember 2016 sendi málnefndin erindi til mennta – og menningarmálaráðherra þar sem óskað var eftir frekari fjárveitingum til starfa nefndarinnar. Rökstuðningur var m.a. færður fyrir því að málnefndin þyrfti að hafa launaðan starfsmann í hlutastarfi og að jafnræðis væri gætt í fjárveitingum til Íslenskrar málnefndar og Málnefndar um íslenskt táknmál. Erindi nefndarinnar var samþykkt í mars og í apríl 2017 óskaði varaformaður málnefndarinnar, Sigríður Sigurjónsdóttir, eftir því við SHH að starfsmaður nefndarinnar kæmi þaðan. Kostnaður nefndarinnar vegna starfsársins 2017 – 2018 var því vegna starfsmanns í 20% starfi, launa nefndarmanna fyrir störf sín, táknmálstúlkunar á fundum, kaffiveitinga á fundum, kostnaðar við hátíðarhöld á degi íslensks táknmáls auk ferðar vegna samstarfs norrænna málnefnda.


Helstu kostnaðarliðir vor 2017 – júní 2018

Árið 2017

Laun starfsmanns 500.000

Ferðakostnaður 107.530

Veitingar 7.849

Túlkun 23 tímar 233.082

Nefndarlaun 255 einingar 2017 575.790

ALLS GREITT 1.424.191

  • Framlag ráðuneytis 3.000.000
  • minni starfsemi tímabundið árið 2017 en ný nefnd tók ekki við fyrr en í maí 2017. Fjármagn færist yfir á næsta starfsár vegna áformaðra verkefna.


Árið 2018

Laun starfsmanns jan – maí 2018

152 klst 470.536

Veitingar 9.391

Túlkun 15 tímar 212.814

Nefndarlaun jan – júní 2018 800.000

275 einingar + varamenn

Ógr. merki málnefndar (Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson) 100.000 kr

Ýmis verkefni og laun ógr út starfsárið 2018, ráðstefnukostnaður og fl.


Fundir og fyrirkomulag:

Á tímabilinu hafa verið haldnir 12 formlegir fundir auk fleiri undirbúningsfunda formanns, varaformanns og starfsmanns með öðrum aðilum. Fundir voru haldnir í húsnæði SHH, einn fundur á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ) og einn fundur sem haldinn var á vordögum 2018 á Árnastofnun með leiðsögn um starfið þar. Starfsmaður nefndarinnar undirbjó fundina í samráði við formann nefndarinnar. Á fundum eru ætíð táknmálstúlkar. Varamenn eru kallaðir inn eftir þörfum og þess gætt að jafnvægi sé í þátttöku heyrandi og heyrnarlausra fundarmanna.


Helstu verkefni:

Tveir fulltrúar málnefndarinnar sóttu fund norrænna málnefnda, þær Rannveig Sverrisdóttir og Heiðdís Dögg Eiríksdóttir. Þema fundar norrænu málnefndanna að þessu sinni var ráðgjöf og upplýsingar, þ.m.t. málfarsráðgjöf. Á fundinum kom í ljós að málnefndirnar hafa ólíku hlutverki að gegna og veita ólíka ráðgjöf. Sumar vinna meira að málpólitík en aðrar, ef þær gera það ekki þá er yfirleitt annar vettvangur í samfélaginu sem notaður er til þess. Misjafnt er hvort málnefndirnar veita ráðgjöf varðandi notkun tákna og um leið málfræðilegar upplýsingar. Málnefndirnar allar deila þeim áhyggjum að túlkun í atvinnulífi döff sé ekki nægileg en staðan er þó misjöfn eftir löndum.

Fulltrúar frá Hlíðaskóla, leikskólanum Sólborg, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar heimsóttu málnefndina. Auk þess var málnefndinni boðið á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands þar sem aðstæður voru skoðaðar og framkvæmdastjóri hélt kynningu með starfsfólki stöðvarinnar. (Sjá nánari umfjöllun um heimsóknir í seinni hluta skýrslu þessarar).

Fésbókarsíða málnefndarinnar leit dagsins ljós haustið 2017. Samkeppni um hugmynd og teikningu að merki (lógó) málnefndar um íslenskt táknmál var auglýst án árangurs. Því var leitað til Vilhjálms G. Vilhjálmssonar um að teikna lógó og hefur hann sent málnefndinni tillögur. Málið er í vinnslu. Á haustdögum 2017 var strax farið að undirbúa dag íslenska táknmálsins, 11. febrúar 2018, í samstarfi við Félag heyrnarlausra, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og RÚV þar sem áherslu skyldi leggja á miðla og íslenskt táknmál í víðri merkingu (sjá í sérkafla).

Í framhaldi af degi íslenskrar tungu kom hugmynd að senda ábendingu á þá aðila sem gera dagatöl að þessi dagur væri tilgreindur rétt eins og dagur íslenskrar tungu. Formaður sendi bréf víða á sveitarfélög og stofnanir auk prentsmiðja sem prenta dagatöl fyrir ýmsa aðila. Beiðninni var alls staðar vel tekið til undirbúnings prentuðum dagatölum, netdagatölum skóla o.s.frv. Hins vegar hafði Almanak HÍ þetta ekki á opinberum lista sínum. Þorsteinn Sæmundsson hjá Almanaki HÍ spurði sérstaklega um opinbera ákvörðun stjórnvalda og kvaðst þurfa staðfestingu á þessum degi áður en hann færi áfram með málið og setti þetta á þeirra lista sem opinberan dag. Formaður hefur verið í sambandi við Björk Óttarsdóttur fulltrúa nefndarinnar hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu og gögn hafa þegar verið send málinu til staðfestingar til Almanaks HÍ.


Dagur íslenska táknmálsins 11. febrúar 2081

Menntamálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, sendi út tilkynningu um Dag íslenska táknmálsins í alla skóla á landinu með beiðni um að íslensku táknmáli yrði gefinn sérstakur gaumur af þessu tilefni. Beiðni þessa efnis og tillaga að bréfi til skóla barst ráðuneytinu frá málnefnd íslenska táknmálsins.

Haustið 2017 átti Bryndís Guðmundsdóttir formaður nefndarinnar og Vilborg starfsmaður fund með Sindra Bergmann Þórarinssyni hjá Krakkaefni RÚV. Tilgangurinn var að hvetja til og fá samstarf um kynningu á íslenska táknmálinu með sýningum á efni fyrir börn á íslensku táknmáli, sem kenndi fingrastafróf o.fl. Þegar til kom á degi íslenska táknmálsins var KrakkaRÚV tilbúið í slaginn með nefndinni og Stundin okkar var túlkuð á íslenskt táknmál, auk þess sem fleira efni var sýnt á íslensku táknmáli á sunnudeginum 11. febrúar. Þá voru Krakkafréttir með túlkaðar fréttir og sérstaka frétt tengda íslensku táknmáli þann 12. febrúar.

Íslenska táknmálið er samofið menningu heyrnarlausra á Íslandi og því fór formaður málnefndar um íslenskt táknmál þess á leit við Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóra að Menningarvefur RÚV byði upp á svipuð viðtöl og umfjöllun og gert var með Raddir íslenskunnar fyrir dag íslenskrar tungu 16. nóvember. Samstarf RÚV, Félags heyrnarlausra, Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og skertra og málnefndar um íslenskt táknmál var m.a. fólgið í þeirri aðkomu af hálfu RÚV, auk umfjöllunar í KrakkaRÚV sem við höfðum þegar lagt grunn að. Félag heyrnarlausra undirbjó upptökur og viðtöl með svipuðum hætti og gert var fyrir íslenska tungu fyrir 16. nóvember síðastliðinn (Raddir íslenskunnar). Það átti að auðvelda ferlið að hafa tilbúin viðtöl að mestu leyti.

Þá höfðu Félag heyrnarlausra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, fundið eldra efni í sínum fórum sem hægt var að sýna á RÚV vefnum og í sjónvarpi allra landsmanna. Tilgangurinn var að miðla efni sem getur kveikt áhuga og skilning þeirra sem heyra, á táknmáli, menningu og húmor heyrnarlausra. Ýmislegt fleira fréttnæmt var á döfinni tengt deginum sem Félag heyrnarlausra skipulagði. Málnefndin kom því til leiðar að tekið var viðtal við Leah Katzh sem starfaði áður sem móttökustjóri í tíð Obama Bandaríkjaforseta en hún kom og hélt erindi á málþingi Félagi heyrnarlausra.


Heimsóknir

Heimsókn frá Hlíðaskóla og Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða 23. nóvember 2017

Arna Björk Birgisdóttir sálfræðingur og deildarstjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og þær Kristrún Guðmundsdóttir skjólastjóri Hlíðaskóla og Kolbrún Bergmann starfsmaður á táknmálssviði Hlíðaskóla komu á fund Málnefndar um íslenskt táknmál (ÍTM).

Rætt var um táknmálssvið Hlíðaskóla og kennsluhætti þar. Þennan vetur voru 12 nemendur skráðir á táknmálssvið skólans; heyrnarlaus, börn með kuðungsígræðslu og börn sem nýta sér heyrnartæki. Markmið skólans er að skapa aðstæður þar sem döff börn geta talað saman á íslensku táknmáli. Öll börn skólans í 1-7. bekk fá táknmálskennslu einu sinni í viku, börn sem eru skráð á táknmálssvið fá aukalega kennslu sniðna að þörfum hvers og eins, nokkur barnanna fá einn tíma á viku, örfá fá tvo tíma á viku og einn nemandi fær fjóra tíma á viku. Þess á milli er miðað við að kennslumálið sé ÍTM. Það hefur einnig sýnt sig að döff börn eiga lítil samskipti við jafnaldra en miðað er við að þegar börnin eru í skólanum sé alltaf táknmálstalandi einstaklingur nærri þeim, starfsmaður, kennari eða túlkur. Í matartímum er boðið upp á táknmálsborð og einu sinni í viku fara börnin í Gaman saman á SHH. Byrjandalæsi hefur verið þróað af döff kennurum og aðlagað að kennslu döff barna og reynst vel, notuð er mjög sjónræn aðferð.

Það nokkuð ljóst að ÍTM kennsla er ekki í samræmi við væntingar málnefndar en kennslugögn á ÍTM vantar, sérstaklega fyrir mið- og unglingastig, þrátt fyrir að skólinn hafi reglulega rætt við Námsgagnastofnun í gegnum árin – en það vantar fjármagn í þá vinnu. Það gæti einnig komið til greina að endurhugsa kennsluefni og fara af stað með vendikennslu, þá hugmynd þyrfti að skoða og útfæra og gæti einnig nýst fleirum en bara Hlíðaskóla.

Það vantar fjármagn til að hægt sé að gera táknmálsmat fyrir börn á táknmálssviði að minnsta kosti þrisvar sinnum á skólagöngu hvers barns, án þessa mats hefur skólinn fá tæki til að mæla hvort hann sé að standa sig nægilega vel með döff nemendur. Hlíðaskóli hefur óskað eftir fjármagni frá Reykjavíkurborg en ekki fengið, þrátt fyrir að borgin hafi tekið vel í aðrar úrbætur líkt og smarttöflur og bætta hljóðvist hér áður fyrr.

Einnig var rætt um hvernig Þjónustmiðstöð gæti komið að málum döff barna til dæmi með sálfræðiþjónustu, en Hlíðaskóli hefur áhyggjur af sjálfsmynd döff barna, sér í lagi á unglingastigi, þá þyrftu börnin ekki að sækja þjónustuna út í bæ. Oft er það þannig að aðstæður barnanna heima fyrir eru þær að þar er íslenskan framar ÍTM þar sem foreldrar eru heyrandi en ef ÍTM fengi hærra undir höfði myndu börnin fá jákvæðara viðhorf sem leiðir til jákvæðari sjálfsmyndar. Auka þarf vitund foreldra og ýta undir betri samvinnu milli heimilis og skóla.


Heimsókn á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands (HTÍ), 18. janúar 2018

Málnefndin fór á fund HTÍ. Fundinn sátu auk málnefndarinnar þau Kristján Sverrisson forstjóri, Kristín Þórarinsdóttir frá talmeinasviði, Bryndís Guðmundsdóttir frá heyrnarsviði og Eva Albrechtsen háls-, nef- og eyrnalæknir.

Málnefndin fékk kynningu á HTÍ og sögu stöðvarinnar sem var stofnuð með lögum 1978 en fyrstu heyrnarmælingar hófust árið 1962 og markar það upphaf HTÍ. Stofnunin er miðstöð sérþekkingar og heyrir undir heilbrigðismálaráðuneytið. Skyldur stofnunarinnar eru greining og meðferð heyrnarskertra og heyrnarlausra og einstaklinga með radd- og talmein. Þar að auki er hlutverk HTÍ söfnun tölfræði um heyrnar- og talmein, rannsóknir, fræðsla auk þes að sinna kennslu háskólanema og umönnunarstétta. Starfsemin hefur verið til húsa á sama stað í 34 ár en er einnig með útibú á Akureyri, Sauðárkróki og Blöndósi. Þar að auki fer ferðastöð frá HTÍ um landið tvisvar sinnum á ári. HTÍ vonast til að komast í stærra og betra húsnæði og í framtíðinni að þróa þjónustu sína á öllum sviðum frekar í átt að tækninni. Kristján hnykkti á því að gæðastaðlar og eftirlit væri mikilvægur þáttur í að efla gæði þjónustunnar sem HTÍ og einkaaðilar veita. Þar sem HTÍ heyrir undir heilbrigðismálaráðuneytið sinnir stofnunin ekki málefnum sem heyra undir önnur ráðuneyti og því er samvinna við aðrar stofnanir oft erfiðari en lýsir ekki endilega viðhorfi stofnunarinnar gagnvart þeim málefnum. SHH og HTÍ og fleiri hafa verið að vinna að SKI-HI verkefninu sem er aðferðafræði frá USA og byggir á snemmtækri íhlutun. Eitt af því sem HTÍ sinnir ekki er þjálfun döff, þ.e. kennslu í varalestri og þjálfun í raddmyndun án hljóðsvörunar.

Nefndarmenn komu með nokkrar tillögur fyrir HTÍ m.a. að vera með táknmálsviðmót á heimasíðu stofnunarinnar, vera með tengil eða flipa þar sem fjallað er um ÍTM, vera með tengil á SHH og þannig að gera ÍTM sýnilegra. Kristján tók vel í þessar tillögur og tók fram að HTÍ vildi gjarnan meiri samvinnu við aðrar stofnanir.


Heimsókn frá leikskólanum Sólborg 8. febrúar 2018

Á fundinn mættu ásamt málnefndinni þær Ragnheiður Þóra Kolbeins og Regína Rögnvaldsdóttir fyrir hönd Sólborgar.

Þegar Sólborg hóf starfsemi sína þá voru döff börn aðeins hluta af degi á leikskólanum. Frá árinu 1996 hafa þau hins vegar sótt leikskólann jafnt á við heyrandi börn, en í fyrstu var það þróunarverkefni. Fjöldi barna með heyrnarskerðingu sem sótt hafa leikskólann hefur verið frá fjórum til sjö í senn en síðustu ár hafa döff börn erlendra foreldra bæst í hópinn og auðgað þannig táknmálsumhverfi Sólborgar. Börnin hafa ýmist verið öll saman á einni deild eða verið deilt niður á eldri og yngri deildir leikskólans.

Í dag er starfandi táknmálstúlkur á Sólborg og eru allar fréttir leikskólans túlkaðar á ÍTM og settar á heimasíðu skólans. Einnig eru túlkaðar skipulagðar stundir auk þess sem túlkað er inni á deild barnanna á milli. Leikskólinn er ráðgefandi skóli hvað varðar heyrnarleysi og heyrnarskerðingu í leikskólastarfi. Sólborg vill vinna gæðastarf og gerir sitt besta til að starfsfólk staðni ekki í starfi. Vonir leikskólans eru að fá annan táknmálstúlk og döff með lekskólakennaramenntun til starfa. Biðlar Sólborg til málnefndar að hvetja döff til slíkrar menntunar. Einnig telur leikskólinn að hvetja þurfi betur fjölskyldur döff barna að búa þeim gott málumhverfi heima og í nærumhverfi þeirra því leikskólinn getur ekki verið eina málumhverfi barnanna.

Þær Ragnheiður og Regína benda á að talmeinafræðingur fylgir börnunum eftir hvað íslensku og talkennslu varðar en enginn slíkur aðili fylgir táknmáli barnanna eftir. Leikskólinn Sólborg hefur verið að þróa gæðaviðmið og óskar eftir að málnefnd um íslenskt táknmál skoði þau og komi með athugasemdir.


Heimsókn frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar 12. apríl 2018

Á fundinn mætti ásamt málnefndinni Hrund Logadóttir frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Hlutverk sviðsins er stefnumótun og eftirlit. Síðasta aðkoma þeirra að táknmálsviði Hlíðaskóla var ytra mat árið 2016. Hrund hefur komið á fundi og rætt inntöku nýrra nemenda og hvað sé fyrirhugað á komandi vetri. Nefndarmenn nefndu að kanna þyrfti betur hvort það væri virkt tvítyngi í skólanum, hvort nemendur njóti táknmálskennslu, hver félagsleg staða nemenda er o.fl. Þá þykir nauðsynlegt að eyrnarmerkja táknmálssviðið í innra matinu þannig að það fáist betri heildarmynd af sérkennslunemendum og þeim fáu nemendum sem þar eru.

Einnig minnast nefndarmenn á að í Evrópu sé verið að skoða skóla án aðgreiningar fyrir döff börn og ítrekar nefndin að slíkt henti ekki döff börnum. Félag heyrnarlausra hefur þegar sent Skóla-og frístundasviði og Mennta- og menningarmálaráðuneytinu bréf þess efnis. Einnig er minnst á að eigi skóli að svara spurningum varðandi þetta efni þá eigi að ræða við kennarana sem starfi með börnunum, þ.e. starfsmenn táknmálsviðsins en ekki einungis stjórnendur skólans, þar sem táknmálsdeildin er lítil eining innan skólans. Þannig fengist rétt mynd af stöðunni. Nefndin hefur áhyggjur af því að samskipti döff barna við önnur börn séu lítil sem engin og skólinn virðist ekki geta tekið á því, það þurfi ytra stjórnsýslulag að koma að málunum.

Málnefndin hefur miklar áhyggjur af því að döff börn fái litla kennslu í ÍTM og alist upp móðurmálslaus, máltakan verði ófullkomin. Þess vegna vill málnefndin efla samstarf við alla í samfélaginu, það er mjög alvarlegt ef barn hefur ekki móðurmál því það hefur áhrif á vitsmunaþroska þess. Hrund tekur undir mikilvægi samvinnu og ítrekar hversu erfitt reynist að hlúa að félagslegum þroska barnanna vegna þess hve fá þau eru.

Í Hlíðaskóla ætti að huga betur að ytra gæðaeftirliti. Það vantar yfirstjórn til að ýta við fólki hvað varðar móðurmálskennslu á ÍTM. Það ættu til að mynda að vera jafn margar kennslustundir í ÍTM og í íslensku, börn fá 2 tíma í táknmálskennslu á viku en 9 tíma á viku í íslenskunámi frá heyrnarlausum kennara. Einnig væri gott ef hægt væri að hafa samræmt táknmálsmat þrisvar sinnum á skólagöngu hvers nemanda (sbr. samræmd próf) en ekki er til fjármagn í skólanum til þess. Nauðsynlegt þykir að þeir aðilar sem vinna að þessum málum hittist og vinni saman, þannig náist frekari ávinningur, skólamálin verður að vinna saman.

Í stefnu Hlíðaskóla segir að hann sé tvítyngdur en töluvert vantar þar uppá. Nefndarmenn hafa verið að fylgjast með þróun mála á Norðurlöndunum og sú þróun þykir almennt neikvæð. Hér þurfi almennt að vera meira og betra eftirlit og tekur Hrund undir það og bendir á að það sé gloppa í sérfræðiráðgjöfinni, hún sé í raun engin á þessu sviði. Það flækir oft málefni heyrnarlausra að ÍTM sé ekki innan velferðarmála. Oft stranda því málefni döff á því hver eigi að borga. Enn vantar kennsluráðgjafa í Hlíðaskóla og sé það álitamál hvort ríkið eða Skóla- og frístundasvið eigi að borga þá stöðu. Hrund mun kanna hvort fjármagn til ráðgjafa hafi verið skilgreint sérstaklega á einhverjum tíma og ef svo sé hvort það sé sami hátturinn á ennþá.

Að lokum var rætt um vöntun náms- og kennslugagna, sér í lagi fyrir mið- og unglingastig fyrir döff börn. Málnefndin á eftir að hitta Menntamálastofnun til að ræða þessi mál frekar. Fundarmenn voru sammála um að með góðu samstarfi og reglulegu samtali aðila af öllum sviðum til að ræða íslenskt táknmál og skólamál sé hægt að bæta úr mörgu hvað döff börn varðar.


Lokaorð:

Á síðastliðnum vetri hefur verið lögð áhersla á að meta umhverfi og aðstæður barna sem hafa íslenska táknmálið að móðurmáli. Á sama tíma að stuðla að auknu samstarfi við þá aðila er koma að menntun, menningu og táknmáli heyrnarlausra. Vakin var athygli á íslenska táknmálinu með ýmsum hætti í tengslum við dag íslenska táknmálsins þann 11. febrúar m.a. með samstarfi við RÚV. Samstarfið við RÚV var mikilvægt skref að því markmiði að auka sýnileika íslenska táknmálsins og er nauðsynlegt að á því verði framhald. Næsta vetur verður haldið áfram að óska eftir heimsóknum til málnefndarinnar af aðilum sem stýra námsframboði, túlkaþjónustu og námsefni fyrir heyrnarlausa. Markmið nefndarinnar er að þeir aðilar sem koma að menntun og táknmálsnámi heyrnarlausra leiti allra leiða til lausna sem leiða til góðs fyrir stöðu heyrnarlausra í samfélaginu. Það verði betur gert með samstarfi allra hlutaðeigandi, þrátt fyrir að stöðugt þurfi að vera á varðbergi fyrir því að íslenska táknmálið fái þann sess sem því ber í íslensku þjóðfélagi.