Munur á milli breytinga „2020: Samantekt starfstímabilsins 2017-2020“

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
Lína 85: Lína 85:
 
Haustið 2019 lét MÍT hanna og prenta bókamerki með fingrastafrófi íslenska táknmálsins og var því dreift til allra nemenda í 3. bekk í öllum grunnskólum landsins. Bókamerkin eru hluti af því markmiði Málnefndarinnar að auka sýnileika og skilning á tjáningu þeirra sem eru döff. Bókamerki með fingrastafrófi íslenska táknmálsins er einn liður í því að brúa bilið á milli táknmálstalandi einstaklinga og þeirra sem tala íslenskt raddmál. Bókamerkinu var vel tekið og nokkrir skólar á landinu óskuðu eftir fleiri eintökum. Auk þess fengu allir nemendur í 1.-10. bekk Hlíðaskóla bókamerki, en þar er starfrækt táknmálssvið. Ætlunin er að bókamerkjunum verði dreift árlega til allra nemenda í 3. bekk í öllum skólum á Íslandi. Auk þessa hefur MÍT dreift bókamerkjunum t.d. á Táknmáls-Cafe Lingua og öðrum viðburðum þar sem því hefur verið við komið.
 
Haustið 2019 lét MÍT hanna og prenta bókamerki með fingrastafrófi íslenska táknmálsins og var því dreift til allra nemenda í 3. bekk í öllum grunnskólum landsins. Bókamerkin eru hluti af því markmiði Málnefndarinnar að auka sýnileika og skilning á tjáningu þeirra sem eru döff. Bókamerki með fingrastafrófi íslenska táknmálsins er einn liður í því að brúa bilið á milli táknmálstalandi einstaklinga og þeirra sem tala íslenskt raddmál. Bókamerkinu var vel tekið og nokkrir skólar á landinu óskuðu eftir fleiri eintökum. Auk þess fengu allir nemendur í 1.-10. bekk Hlíðaskóla bókamerki, en þar er starfrækt táknmálssvið. Ætlunin er að bókamerkjunum verði dreift árlega til allra nemenda í 3. bekk í öllum skólum á Íslandi. Auk þessa hefur MÍT dreift bókamerkjunum t.d. á Táknmáls-Cafe Lingua og öðrum viðburðum þar sem því hefur verið við komið.
  
==== Samstarf við Norrænar málnefndir um táknmál – NTN ====
+
== Samstarf við Norrænar málnefndir um táknmál – NTN ==
  
 
Fulltrúar MÍT hafa setið fundi NTN á hverju ári frá skipun málnefndarinnar. Árið 2019 fór Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og fylgdi því að Málnefnd um íslenskt táknmál fór með formennsku í NTN á sama tíma. Það ár var haldinn fundur í Reykjavík í samvinnu við Norðurlandaráð heyrnarlausra (Dövas Nordiske Råd).
 
Fulltrúar MÍT hafa setið fundi NTN á hverju ári frá skipun málnefndarinnar. Árið 2019 fór Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og fylgdi því að Málnefnd um íslenskt táknmál fór með formennsku í NTN á sama tíma. Það ár var haldinn fundur í Reykjavík í samvinnu við Norðurlandaráð heyrnarlausra (Dövas Nordiske Råd).

Útgáfa síðunnar 10. júní 2021 kl. 09:24

Logo Málefndar um ÍTM

MÁLNEFND UM ÍSLENSKT TÁKNMÁL (MÍT)

SAMANTEKT STARFSTÍMABILSINS

1. MAÍ 2017 TIL 30. APRÍL 2020:

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenskt táknmál til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Málnefnd um íslenskt táknmál var þannig skipuð, 1. maí 2017 til 30. apríl 2020:

Bryndís Guðmundsdóttir formaður

Sigríður Sigurjónsdóttir varaformaður

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Rannveig Sverrisdóttir

Varamenn voru:

Júlía Guðný Hreinsdóttir

Nedelina Ivanova

Árný Guðmundsdóttir

Helga Ingibergsdóttir

Gunnar Snær Jónsson

Núverandi ritari málnefndarinnar er Hólmfríður Þóroddsdóttir.

Hlutverk málnefndar um íslenskt táknmál er að stuðla að eflingu íslensks táknmáls (ÍTM) og notkun þess í íslensku þjóðlífi, auk þess að styrkja stöðu þess og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess. Nefndinni er m.a. ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvaðeina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál, að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr.

Á skipunartímabilinu hittist nefndin að jafnaði einu sinni í mánuði, tíu mánuði á ári. Einn fundur var haldinn á Stofnun Árna Magnússonar en allir aðrir fundir hafa verið haldnir á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH), auk þess sem aðrar stofnanir sem tengjast hlutverki málnefndarinnar hafa verið heimsóttar. Samkvæmt lögum er skrifstofa MÍT í Stofnun Árna Magnússonar, en lítil sem engin tenging er við þá stofnun. SHH hefur frá upphafi verið meginaðsetur nefndarinnar og fyrir utan fundaraðstöðu hefur skrifstofa SHH séð um fjármál málnefndarinnar. Þá kemur ritari Málnefndarinnar úr röðum starfsmanna SHH, en SHH leggur til starfsmann í 20% starf og greiðir nefndin laun hans til SHH. Vonast MÍT til að þetta samstarf haldi áfram og rætt var um það innan nefndarinnar í lok starfstímabils hennar hvort SHH ætti jafnvel að vera skrifstofa hennar samkvæmt lögum, enda er SHH, auk Háskóla Íslands, miðstöð og rannsóknarstofnun íslenska táknmálsins líkt og Stofnun Árna Magnússonar, auk Háskóla Íslands, er aðalrannsóknarstofnun íslenskunnar. Til að svo yrði þyrfti lagabreytingu. Um þetta mál var ekki einhugur innan MÍT og er þessu málefni því vísað til næstu málnefndar sem skipuð verður.

Málnefndin sem skipuð var 2017 lagði strax frá upphafi áherslu á viðhorfsstýringu og vitundarvakningu um íslenskt táknmál, auk þess að meta umhverfi og aðstæður barna sem hafa íslenska táknmálið að móðurmáli. Sérstök áhersla var lögð á að gera íslenskt táknmál sem sýnilegast í íslensku samfélagi. Hér á eftir verður stiklað á stóru í starfi nefndarinnar yfir starfstímabilið.

Heimsóknir frá aðilum er tengjast máltöku heyrnarlausra barna og táknmáli

Samstarf við þá aðila sem koma að menntun, menningu og íslensku táknmáli var í brennidepli stóran hluta starfstímabilsins. Lögð var áhersla á að fá heimsóknir frá þeim aðilum sem tengjast máltöku heyrnarlausra barna og íslensku táknmáli. Þar gafst færi á að fræðast um áherslur og starf þessara stofnana hvað varðar máltöku og námsumhverfi barna sem tala íslenskt táknmál, auk þess sem möguleiki á samstarfi málnefndarinnar við aðilana var rædd. Um leið varð málnefndin fróðari um þær nýjungar og breytingar á starfi stofnanna, sem orðið hafa hin allra síðustu ár.

Fulltrúar frá Hlíðaskóla, leikskólanum Sólborg, Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða, Skólaog frístundasviði Reykjavíkurborgar, Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntamálastofnun, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra heimsóttu málnefndina. Auk þess var málnefndinni boðið á Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Markmið nefndarinnar með þessum fundum var að þeir aðilar sem koma að menntun og táknmálsnámi barna og unglinga leiti allra þeirra lausna sem leiða til betri stöðu þessa hóps í samfélaginu. Fundirnir voru mjög gagnlegir og lögðu grunn að skilningi á verkefnum og viðhorfum manna og stofnana á milli. Á síðasta heimsóknarfund nefndarinnar kom nýskipaður forstöðumaður SHH, Kristín Lena Þorvaldsdóttir. Hún kom með ýmsar gagnlegar ábendingar er m.a. varða gerð námsefnis á íslensku táknmáli. Sjá nánar í lokakafla ábendingar til Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Dagur íslenska táknmálsins

Dagur íslenska táknmálsins er haldinn hátíðlegur 11. febrúar ár hvert og ýmislegt gert í tilefni hans í samvinnu við Félag heyrnarlausra, SHH og Háskóla Íslands. Hér að neðan er minnst á nokkur atriði og viðburði sem málnefndin stóð fyrir ásamt ofangreindum samstarfsaðilum á skipunartímabilinu, en tekið skal fram að þetta yfirlit er ekki tæmandi:

Árið 2019 stóð MÍT, í samvinnu við Rannsóknastofu í táknmálsfræðum við Háskóla Íslands, fyrir málþingi í Veröld. Yfirskrift málþingsins var „Íslenskt táknmál: Fortíð, nútíð, framtíð“. Markmið þingsins var að huga að uppruna ÍTM, stöðu þess sem minnihlutamáls í tæknivæddum heimi nútímans og framtíð þess. Valgerður Stefánsdóttir flutti fyrirlestur sem bar titilinn „Um uppruna og þróun íslenska táknmálsins“ og Sigríður Sigurjónsdóttir fjallaði um „Börnin og snjalltækin: Íslenska og íslenskt táknmál í ölduróti samtímans“. Málþingið var vel sótt og vakti athygli fjölmiðla.

Síðustu tvö ár hafa verið haldin sérstök Táknmáls-Cafe Lingua í tilefni dagsins, í samstarfi við Borgarbókasafnið. Hefur þetta framtak vakið mikla ánægju og vonandi verður framhald á því á næstu árum í tilefni af 11. febrúar.

Meðlimir nefndarinnar hafa skrifað pistla á Vísindavefinn, þar sem svarað er spurningum sem vefurinn hefur fengið um táknmál, spurningum á borð við „Á hvaða tungumáli hugsa þeir sem tala táknmál?“ og „Eru algengustu orð í íslensku til á táknmáli?“. Pistlarnir hafa verið birtir 11. febrúar, en eru að sjálfsögðu áfram sýnilegir á Vísindavefnum eins og annað efni hans.

Eftir ábendingar MÍT til þáverandi útvarpsstjóra, Magnúsar Geirs Þórðarsonar, og Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV, hefur RÚV sinnt deginum vel. MÍT átti einnig fundi með fulltrúum KrakkaRÚV og kom með ábendingar og tillögur að efni til að sýna á deginum. Síðastliðin tvö ár hefur KrakkaRÚV túlkað Krakkafréttir dagsins og tileinkað Stundina okkar táknmáli í kringum 11. febrúar. Þá var efni á íslensku táknmáli sett inn á menningarvef RÚV og meðlimir málnefndarinnar hafa farið í viðtöl á ýmsum stöðvum RÚV í tilefni dagsins. Þetta er mikilvægt skref í að auka sýnileika íslenska táknmálsins og nauðsynlegt er að þetta samstarf MÍT og RÚV haldi áfram. (Sjá einnig síðar í skýrslunni nánar um samstarf MÍT við KrakkaRÚV og táknmálstúlkun á fréttum, viðburðum og blaðamannafundum.)

Eins og tíðkast hefur frá stofnun málnefndarinnar hefur hún hvatt mennta- og menningarmálaráðherra til að senda bréf í alla leik-, grunn- og framhaldsskóla landsins þar sem kennarar eru minntir á dag íslenska táknmálsins, þeir hvattir til að hafa það sýnilegt, t.d. með fræðslu um íslenskt táknmál og að nýta dag ÍTM í þemastarfi skólanna. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur svarað kalli málnefndarinnar öll árin en það hefur skipt miklu máli fyrir sýnileika íslenska táknmálsins.

Dagur íslenskrar tungu, 16. nóvember, er opinber fánadagur á Íslandi og sem slíkur er hann merktur á öllum dagatölum landsins. Leitað var til ýmissa aðila til að koma degi íslenska táknmálsins inn á dagatöl landsmanna. Þar á meðal var leitað til Almanaks Háskóla Íslands með upplýsingum og rökum sem MÍT taldi styðja málaleitan sína. Þar var nefndinni tjáð að til að dagur íslenska táknmálsins fengi sama sess og dagur íslenskrar tungu, og yrði merktur á íslenskum dagatölum, þyrfti dagurinn að vera tilnefndur sem fánadagur með réttum hætti í gegnum Alþingi. Á fundi með Björk Óttarsdóttur, tengilið MÍT við mennta- og menningarmálaráðuneytið, og Karítas Gunnarsdóttur, skrifstofustjóra menningarmála, haustið 2018 var liðsinnis þeirra leitað í þessu máli. Einnig hefur formaður málnefndarinnar ítrekað erindið skriflega þrívegis til ráðuneytisins en það hefur ekki hlotið brautargengi enn. Tekið skal fram að leitað var til helstu aðila sem prenta dagatöl um að merkja dag íslenska táknmálsins inn á þau og hefur Ísafoldarprentsmiðja sett hann inn í sín dagatöl frá 2018. Þá sendi málnefndin skólum landsins og stofnunum sem tengjast íslenska táknmálinu ábendingu um að skrá daginn inn í sín rafrænu dagatöl. Þar vantaði töluvert upp á og gleðilegt er að víða hefur verið brugðist við og bætt úr.

Á degi íslenska táknmálsins, 11. febrúar 2020, undirritaði forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og ýmsir háttsettir ráðamenn landsins, ásamt m.a. formanni MÍT og formanni Félags heyrnarlausra, Sáttmála Alheimssamtaka heyrnarlausra um rétt allra til táknmáls við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Alheimssamtökin unnu sáttmálann í tilefni af alheimsþingi heyrnarlausra sumarið 2019. Þar er lögð áhersla á ábyrgð og skyldur stjórnvalda og hagsmunaaðila til að tryggja þátttöku heyrnarlausra í samfélaginu, viðurkenna þarfir þeirra, mannlega reisn og mannréttindi, tryggja réttlátt samfélag og jafnt aðgengi að menntun fyrir alla. Fyrstur til að undirrita sáttmálann var eins og áður segir Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, en þar á eftir fylgdu, auk Bryndísar Guðmundsdóttur, formanns MÍT, frú Vigdís Finnbogadóttir, verndari táknmála á Norðurlöndum, mennta- og menningarmálaráðherra, formaður Félags heyrnarlausra, forstöðumaður SHH, rektor HÍ, skólastjóri Hlíðaskóla, skólastjóri leikskólans Sólborgar, formaður Foreldra- og styrktarfélags heyrnadaufra og fulltrúar frá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Menntamálastofnun. Síðar skrifuðu barna- og félagsmálaráðherra og heilbrigðisráðherra undir sáttmálann, en þau gátu ekki mætt við athöfnina á Bessastöðum. Ísland var fyrsta landið þar sem fulltrúar stjórnvalda undirrituðu sáttmálann og var eftir því tekið innanlands sem utan, en sáttmálinn og undirritun hans fékk mikla athygli á netmiðlum, m.a. á vef Háskóla Íslands.

Rétt er einnig að nefna að fjöldi stofnana sem vinna með íslenska táknmálið birti tengla um íslenska táknmálið á heimasíðum sínum þann 11. febrúar eftir ábendingu frá málnefndinni. Má þar nefna sem dæmi að Uglan á heimasíðu Háskóla Íslands talaði táknmál þennan dag.

KrakkaRÚV – Stórhættulega stafrófið

Í september 2017 átti formaður MÍT fund með Sindra Bergmann Þórarinssyni, þáverandi umsjónarmanni KrakkaRÚV, þar sem formlega var leitað eftir samstarfi við þau. Í kjölfar þessa fundar voru nokkrir fundir haldnir með Sindra og Sigyn Blöndal á RÚV. Aðalumræðuefnið var áhugi MÍT á að búa til sígilt efni á íslensku táknmáli fyrir öll íslensk börn sem hægt væri að nota aftur og aftur til fræðslu og ánægju. Málnefndin bauðst til að leggja í verkefnið 1,5 milljónir á árinu 2018 og auk þess hálfa milljón frá Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, sem hefur mikinn áhuga á verkefninu og veitti því þennan stuðning eftir að málnefndin leitaði til félagsins. Fulltrúar KrakkaRÚV lýstu yfir ánægju með þetta frumkvæði málnefndarinnar og töldu mikilvægt að fulltrúar hennar og Félags heyrnarlausra væru til ráðgjafar með sérþekkingu sína. Svo fór að Menntamálstofnun kom einnig inn í verkefnið.

Verkefnið var í þróun árið 2019 en komst svo á flug snemma árs 2020. Þá komu inn í samstarfið Ævar Þór Benediktsson (títtnefndur Ævar vísindamaður) og Bergrún Íris Sævarsdóttir rithöfundur sem áður höfðu gefið út barnabókina Stórhættulega stafrófið. Mun sá heimur, sem þar varð til, verða notaður í nýjum sjónvarpsþáttum sem kenna íslensku bókstafina og íslenska fingrastafrófið á sama tíma. Auk þess verður kappkostað að hafa íslenska táknmálið sýnilegt í þáttunum. Þann 11. febrúar 2020 var efnið kynnt með stuttu myndbandi í KrakkaRÚV þar sem aðalpersónur þáttanna Fjóla, heyrandi stelpa sem er að læra að lesa, og vinur hennar, Valgeir Stefán sem er döff (nefndur eftir Valgerði Stefánsdóttur fyrsta forstöðumanni SHH), voru kynntar til sögunnar.

Bókamerki

Haustið 2019 lét MÍT hanna og prenta bókamerki með fingrastafrófi íslenska táknmálsins og var því dreift til allra nemenda í 3. bekk í öllum grunnskólum landsins. Bókamerkin eru hluti af því markmiði Málnefndarinnar að auka sýnileika og skilning á tjáningu þeirra sem eru döff. Bókamerki með fingrastafrófi íslenska táknmálsins er einn liður í því að brúa bilið á milli táknmálstalandi einstaklinga og þeirra sem tala íslenskt raddmál. Bókamerkinu var vel tekið og nokkrir skólar á landinu óskuðu eftir fleiri eintökum. Auk þess fengu allir nemendur í 1.-10. bekk Hlíðaskóla bókamerki, en þar er starfrækt táknmálssvið. Ætlunin er að bókamerkjunum verði dreift árlega til allra nemenda í 3. bekk í öllum skólum á Íslandi. Auk þessa hefur MÍT dreift bókamerkjunum t.d. á Táknmáls-Cafe Lingua og öðrum viðburðum þar sem því hefur verið við komið.

Samstarf við Norrænar málnefndir um táknmál – NTN

Fulltrúar MÍT hafa setið fundi NTN á hverju ári frá skipun málnefndarinnar. Árið 2019 fór Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og fylgdi því að Málnefnd um íslenskt táknmál fór með formennsku í NTN á sama tíma. Það ár var haldinn fundur í Reykjavík í samvinnu við Norðurlandaráð heyrnarlausra (Dövas Nordiske Råd).

Túlkun á blaðamannafundum og fréttatímum RÚV

Samskipti MÍT við RÚV hafa verið talsverð á tímabilinu, m.a. við útvarpsstjóra, forstöðumenn KrakkaRÚV og menningarsviðs RÚV, auk samskipta við Önnu Sigríði Þráinsdóttur málfarsráðunaut, sem einnig sér um aðgengismál stofnunarinnar. Auk þess hefur formaður Málnefndarinnar sent reglulega ábendingar til útvarpsstjóra, dagskrárstjóra og málfarsráðunauts um mikilvægi táknmálstúlkunar í kringum jól og áramót, Eurovision, stóra viðburði eins og landsleiki, aðsteðjandi vá o.fl.

Leiða má líkum að því að þessar ábendingar og önnur samskipti á tímabilinu, ásamt ýmsu öðru, hafi átt þátt í því að frá því í lok febrúar 2020, þegar Kórónuveiran greindist fyrst á Íslandi, hefur aðalfréttatími RÚV í sjónvarpinu verið táknmálstúlkaður í beinni útsendingu. Á sama tíma hafa daglegir upplýsingafundir almannavarna og landlæknis einnig verið táknmálstúlkaðir að beiðni Ríkislögreglustjóra. Þá hafa blaðamannafundir á vegum ráðherra og ríkisstjórnar verið túlkaðir, en RÚV hefur séð um að panta og greiða fyrir túlkun á þeim ef stjórnvöld hafa ekki gert það. Túlkunin á fundunum hefur bæði verið sýnd á RÚV og visir.is. Þetta er stórt skref í rétta átt hvað varðar táknmálstúlkun á fréttum í þjóðfélaginu.

Einnig má nefna að ábending barst til málnefndarinnar frá málfarsráðunauti RÚV, sem tæknimaður RÚV á staðnum hafði samband við, að þess hefði ekki verið gætt að fyrsti COVID-19 aðgerðafundur ríkistjórnarinnar væri táknmálstúlkaður og RÚV greip strax til sinna ráða. Þetta varð til þess að formaður MÍT sendi áminningu til allra ráðuneyta og Stjórnarráðsins að þess yrði ætíð gætt í framtíðinni að opinberir viðburðir væru táknmálstúlkaðir.

Annað

Á Degi íslenska táknmálsins 2019 var nýtt lógó málnefndarinnar kynnt. Fyrir valinu varð merki sem sýnir með sjónrænum hætti að málnefndin hefur það meginmarkmið að halda utan um og vernda ÍTM, en ÍTM stendur fyrir íslenskt táknmál.

Í janúar 2019 sendi málnefndin umsögn um þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis. Þar voru gerðar athugasemdir við nokkra liði tillögunnar, þar sem einna helst var reynt að gæta þess að íslenskt táknmál væri nefnt þar sem við á og einnig lögð áhersla á að hafa þyrfti í huga kennslu í íslensku táknmáli fyrir heyrnarlaus og heyrnarskert börn. Þá var lögð áhersla á að opinberar heimasíður stuðli að sýnileika ÍTM og að táknmálstúlkun yrði viðtekin við allar opinberar athafnir.

Ýmis bréf og erindi voru send til stofnana þar sem hvatt var til sýnileika og notkunar íslenska táknmálsins þar sem við á og þurfa þykir. Má þar m.a. nefna bréf til stóru atvinnuleikhúsanna, þar sem þau voru hvött til að hafa a.m.k. eina sýningu á ári túlkaða á íslenskt táknmál. Borgarleikhúsið hefur þegar sett málið í ferli og er að skoða möguleika á samstarfi við KrakkaRÚV í gegnum leiklistarskóla Borgarleikhússins fyrir börn. Verkefnið „Krakkar skrifa" er þegar í gangi á milli þessara stofnana og skoða á snertifleti við fingrastafrófið og táknmál. Brynhildur Guðjónsdóttir leikhússtjóri taldi að unnt væri að táknmálstúlka hluta af barnasýningu í kringum 11. febrúar og jafnvel skoða túlkun á „Kvöldstund með listamanni". Þá var t.d. einnig erindi sent til Viðskiptaráðs Íslands um að veita fyrirtækjum sérstaka athygli sem hlúa vel að táknmálstalandi starfmönnum sínum, t.d. með því að greiða túlkaþjónustu þar sem við á, hafa upplýsingar á táknmáli o.s.frv. Í þessu sambandi var sérstaklega bent á Dag íslenska táknmálsins. Kjörið væri að taka við tilnefningum og/eða skrá fyrirtæki sem „vini íslenska táknmálsins" sem yrði viðurkennt með sýnilegum hætti. Bent var á Málnefnd um íslenskt táknmál, Félag heyrnarlausra, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og Foreldra- og styrktarfélag heyrnarlausra, sem mögulega samstarfsaðila í verkefni sem þessu. Þessum jákvæðu málum er vísað til næstu Málnefndar um íslenskt táknmál sem ráðherra skipar.

Nú árið 2020 hófst vinna við málstefnu íslenska táknmálsins og á MÍT fulltrúa í þeirri nefnd. Hér er um mikilvægt framfaraskref að ræða þar sem ekki hefur verið sett fram málstefna fyrir íslenskt táknmál fyrr.

Að lokum má nefna að í upphafi skipunartíma síns kannaði málnefndin möguleika á því að hafa sérstaka heimasíðu fyrir sig en kostnaður þótti of mikill. Hins vegar er málnefndin svo heppin að eiga „stóru systur“, sem er Íslensk málnefnd, og sem sannri stóru systur sæmir veitti Íslensk málnefnd Málnefnd um íslenskt táknmál aðgengi að heimasíðu sinni undir flipanum „Íslenskt táknmál“: https://islenskan.is/islenskt-taknmal

Fésbókarsíða MÍT leit dagsins ljós haustið 2017: https://www.facebook.com/malnefndumislenskttaknmal/

Ábendingar til Mennta- og menningarmálaráðuneytis:

Dagur íslenska táknmálsins, 11. febrúar.

Málnefnd um íslenskt táknmál fer þess á leit við Mennta- og menningarmálaráðherra að Dagur íslenska táknmálsins fái formlegan lögbundinn sess, m.a. með því að hann verði gerður að almennum íslenskum fánadegi og verði þar með merktur sem slíkur á dagatölum landsmanna.

Táknmálstúlkun viðburða er varða almannahagsmuni.

Málnefnd um íslenskt táknmál bendir á að færa þurfi með skýrari hætti í lög að opinberir viðburðir er varða almannahagsmuni, velferð eða vá verði ætíð táknmálstúlkaðir í opinberum fjölmiðlum og í opinberri stjórnsýslu.

  • Í 30. grein fjölmiðlalaga segir:
  • „Þær fjölmiðlaveitur sem miðla myndefni skulu eins og kostur er leitast við að gera þjónustu sína aðgengilega sjón- og heyrnarskertum... Úrræði til að tryggja aðgengi eru m.a. táknmál, textun og hljóðlýsing”.
  • Í 31. gr. sömu laga (um skyldur vegna almannaheilla) kemur fram:
  • „Fjölmiðlaveitu er, ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst, skylt að miðla endurgjaldslaust tilkynningum frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og rjúfa línulega dagskrá ef þörf krefur.”

Þetta hefur sjaldan verið jafn viðeigandi og nú á fyrri hluta ársins 2020, en það hefur verið afar mikilvægt í COVID-19 heimsvánni að táknmálstúlkun hefur verið til staðar á fundum almannavarna og stjórnarráðs.

Táknmálstúlkun MÍT og aðgengismál.

Málnefnd um íslenskt táknmál fær 3 milljónir króna í framlag á hverju ári og þar af er greitt fyrir starfsmann í 20% starfi með launum og launatengdum gjöldum. Bent er á að þar að auki er greitt fyrir táknmálstúlkun á fundum Málnefndarinnar af sama fjárframlagi. Kostnaður við túlkun á fundum á skipunartímabili þessarar nefndar var sem hér segir:

2017: 233.082 (23 tímar - starf lá niðri fram í maí 2017)

2018: 349.623 (35 tímar)

2019: 440.829 (43,5 tímar)

2020: 121.608 (12 tímar, 1. jan – 30. apríl 2020)

Ljóst er að þegar svo stór hluti framlags Málnefndar um íslenskt táknmál er notaður í túlkun á fundum og öðrum viðburðum nefndarinnar, þá skerðir það möguleika nefndarinnar til að vinna að því hlutverki sínu að stuðla að eflingu og notkun íslensks táknmáls í samfélaginu.

Málnefndin beinir þeim tilmælum til mennta- menningarmálaráðherra að endurskoða framlag til Málnefndar um íslenskt táknmál með ofangreint í huga.

Þetta fyrirkomulag er ekki einsdæmi, en víða í samfélaginu, bæði í einkarekstri fyrirtækja og hjá opinberum aðilum, er ekki gert ráð fyrir greiðslu fyrir túlkun í atvinnulífinu, þegar táknmálstalandi einstaklingur situr t.d. í nefnd eða sækir ýmsa þjónustu. Til að tryggja jafnt aðgengi og mannréttindi einstaklinga óháð tungumáli telur Málnefndin brýnt að ráðstafanir séu gerðar til að hvetja fyrirtæki og stofnanir til að gæta að jafnræðisreglu hvað táknmálstúlkun varðar. Sem fyrr segir sendi Málnefndin umsögn til Allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis um þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Í umsögninni var ábending um að á opinberum heimasíðum ættu grunnupplýsingar á íslensku táknmáli að vera til staðar. Á þeim vettvangi mætti hvetja stofnanir og fyrirtæki til að nýta túlkaþjónustu og benda á tengla þar að lútandi.

Námsefni á íslensku táknmáli.

Frá upphafi skipunartímabils nefndarinnar hefur nokkur umræða verið um námsefni á íslensku táknmáli, sem mikill skortur er á. Menntamálastofnun (MMS) gerði samning við SHH um vinnslu á námsefni fyrir heyrnarlausa nemendur í framhaldi af framsettri stefnu stjórnvalda fyrir árin 2019 – 2023 (málefnasvið 22). Stefnan var að auka „framboð af tilbúnum titlum til notkunar í skólum fyrir nemendur sem nota táknmál”. Markmiðið í þessari stefnumörkun var að 49 titlar yrðu tilbúnir fyrir árið 2023. Viðmið fyrir árið 2019 voru 28 titlar. Í annarri tillögu til þingsályktunar um tölur í fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 kemur fram annar fjöldi titla. Þar segir að þeir hafi verið 8 árið 2018, eigi að vera 11 árið 2020 en alls 24 árið 2024. SHH var hins vegar einungis beðin um að þýða og vinna 14 titla að ósk MMS á árunum 2017-2019, þar af hafa 9 verið birtir á heimasíðu MMS. SHH hefur ekki fengið neina beiðni frá MMS um að þýða bækur árið 2020.

Málnefnd um íslenskt táknmál hvetur mennta- og menningarmálaráðherra til að fylgja fast eftir þeirri stefnu að námsefni á íslensku táknmáli sé gefið út, en það er mikilvægt fyrir framtíðarnám barna með íslenskt táknmál sem fyrsta mál og því þarf að halda vel utan um þessi mál.

Skýrsla vegna frumkvæðisúttektar á námi táknmálstalandi nemenda.

Málnefnd um íslenskt táknmál fór yfir skýrslu vegna frumkvæðisúttektar sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lét gera í desember 2018 og janúar 2019 á námi táknmálstalandi nemenda. Í skýrslunni má sjá að námsumhverfi þeirra barna sem reiða sig á ÍTM til tjáningar og samskipta þarfnast úrbóta. Málnefndin hvetur ráðuneytið til að fylgja skýrslunni eftir og gera þær ráðstafanir og úrbætur sem bent er á til að tryggja gæði náms hjá táknmálstalandi nemendum.

Brýnt er að næsta málnefnd sem skipuð verður leggi því máli einnig lið.

Fjármál síðasta starfsárs

Málnefnd um íslenskt táknmál hefur skilað inn uppgjöri og yfirliti yfir helstu kostnaðarliði og verkefni á hverju starfsári. Meðfylgjandi er uppgjör fyrir starfstímabilið 1. september 2019 – 30. apríl 2020:

Seinni hluti árs 2019

Laun starfsmanns (með launatengdum gjöldum o.s.frv.) 886.666

Nefndarlaun (148 einingar) 348.392

Veitingar o.fl. 3.489

Túlkun 21 tímar 212.814

Bókamerki, prentun og hönnun 160.450

ALLS GREITT 1.611.486

(Framlag ráðuneytis fyrir allt árið 2019 var 3.000.000 kr.)

Fyrri hluti árs 2020

Laun starfsmanns (með launatengdum gjöldum o.s.frv.) 496.305

Nefndarlaun (166,5 einingar) 391.941

Túlkun 12 tímar 121.608

Húsaleiga og gjöld því tengd til SHH 115.599

Bankagjöld 1.500

ALLS GREITT 1.126.953