Greining á munnhreyfingum í táknmálum og tillaga að lýsandi skráningarkerfi.

Úr SignWiki
Útgáfa frá 21. júní 2021 kl. 08:51 eftir Arny (Spjall | framlög) Útgáfa frá 21. júní 2021 kl. 08:51 eftir Arny (Spjall | framlög)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Núverandi útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Esterar Rósar Björnsdóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2015

Ritgerð þessi er til BA-prófs í táknmálsfræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin fjallar um hvort hægt sé að þróa skrásetningarkerfi fyrir munnhreyfingar í táknmálum, sem myndi henta veforðabók á borð við SignWiki. Forsendur eru kannaðar fyrir slíku kerfi og lögð er áhersla á að þróa grunn að kerfi sem er einfalt og aðgengilegt bæði fyrir þá sem kunna ekkert í íslensku táknmáli og þá sem hafa það að sínu móðurmáli.

Munnhreyfingar eru hluti af táknamyndun í táknmálum. Þá hreyfir táknari varirnar á sama tíma og hann myndar tákn. Algengast er að flokka munnhreyfingar í táknmálum í tvo flokka, raddmálsmunnhreyfingar og táknmálsmunnhreyfingar. Í fyrrnefnda flokknum eru munnhreyfingar sem vísa í nágrannaraddmál, þ.e. það raddmál sem stendur hverju táknmáli næst, og eru „bornar fram“ hljóðlaust en eru samt sem áður aðlagaðar og oftast taldar hluti af málkerfi táknmálsins. Seinni flokkurinn inniheldur munnhreyfingar sem ekki er hægt að rekja til raddaðs máls en eru nokkurs konar myndrænar athafnir myndaðar af munni.

Í ritgerðinni er ítarlega fjallað um málfræðileg atriði og reynt er að flokka og greina munnhreyfingarnar í von um að skráning og lýsing þeirra verði auðveldari í kjölfarið. Einnig eru skoðuð þrjú skrásetningarkerfi og fjallað um kosti þeirra og galla. Að lokum er sett fram einföld hugmynd að skrásetningarkerfi sem skráir bæði raddmálsmunnhreyfingar og táknmálsmunnhreyfingar. Kerfið er tvíþætt, það er hefur málfræðilega skráningu á munnhreyfingunni sem og lýsandi skráningu að leiðarljósi.

Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Greining á munnhreyfingum í táknmálum og tillaga að lýsandi skráningarkerfi.