Táknmál - tungumál heyrnarlausra

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
The printable version is no longer supported and may have rendering errors. Please update your browser bookmarks and please use the default browser print function instead.
Rannveig-Sverrisd.jpg

Birtist í Málfríði 21 (1) 2005 bls. 14 - 19

Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði við Háskóla Íslands

Rannveig Sverrisdóttir er lektor í táknmálsfræði við Háskóla Íslands. Í grein sinni fjallar hún stuttlega um grundvallaratriði íslenska táknmálsins og ræðir um íslenska táknmálssamfélagið.


Inngangur — sögulegt samhengi

Á Íslandi búa um 200-300 manns sem tilheyra samfélagi heyrnarlausra. Samfélag þeirra sem tala íslenska táknmálið er þó heldur stærra þar sem fjölmargir heyrandi hafa lært táknmál og margir þeirra nota málið daglega. Samfélagi heyrnarlausra tilheyra þeir sem á einn eða annan hátt telja sig tilheyra menningarheimi heyrnarlausra. Samfélaginu tilheyrir fólk með mjög mismunandi heyrnarskerðingu, bæði er heyrnarskerðingin mismikil og eins er misjafnt hvenær fólk hefur misst heyrnina. Það þýðir þó ekki að um leið og fólk missir heyrn tilheyri það samfélaginu heldur er hér um að ræða að fólk skilgreini sig sjálft sem hluta af samfélagi heyrnarlausra. Stundum er talað um „menningarlegt heyrnarleysi“ og átt við þá sem telja sig tilheyra samfélagi heyrnarlausra óháð því hversu mikil heyrnarskerðing þeirra er. Þannig er það heldur ekki sjálfgefið að þeir sem heyra lítið eða ekkert noti táknmál og telji sig hluta af samfélagi heyrnarlausra (sjá t.d. Lane o.fl 1996 og Bergman 1994:15).

Þó aðstæður heyrnarlausra í hinum vestræna heimi hafi að sjálfsögðu verið mismunandi eftir löndum er saga þeirra svipuð og gætti áhrifa landa á milli. Heyrnarlausir voru gjarnan taldir heimskir eða greindarskertir og lítill skilningur var á mikilvægi táknmálsins. Árið 1880 gerðist sá hræðilegi hlutur á þingi kennara heyrnarlausra sem haldið var í Mílanó að táknmál var bannað. Þetta hafði víðtæk áhrif á líf heyrnarlausra víðast hvar í heiminum, þeir urðu enn kúgaðri og einangraðri en áður hafði verið. Þessi svokallaða talmálsstefna1 taldi að táknmál væri slæmt fyrir heyrnarlaus börn og hindraði málþroska þeirra (Lane o.fl 1996:216). Börnin áttu að læra að tala og lesa af vörum. Þessi aðferð reyndist vægast sagt illa og eru margir heyrnarlausir sem enn þann dag í dag hafa ekki náð að bæta upp þann menntunarskort sem fylgdi þessari stefnu, þar sem öll áhersla var lögð á að kenna heyrnarlausum að tala þjóðtunguna, í stað þess að leyfa þeim að nota táknmál og læra aðrar greinar í gegnum það.

Tímarnir hafa sem betur fer breyst og skilningur fólks á mikilvægi táknmálsins aukist. Í dag er því víðast hvar stefnt að tvítyngi barna, táknmálið er þá þeirra fyrsta mál og raddmálið2 sem þau nota (hér á landi íslenskan) er þeirra annað mál og um leið ritmál. Þessar kenningar haldast auðvitað að einhverju leyti í hendur við þær kenningar sem eru um kennslu innflytjenda eða barna af erlendum uppruna og rétt þeirra til kennslu á móðurmálinu (sjá t.d. Skutnabb-Kangas 1994).

Málfræði í táknmálum

Táknmál er ekki alþjóðlegt heldur á hver þjóð sitt eigið táknmál. Engu að síður eru táknmál heimsins skyld innbyrðis og margt líkt í grundvallarmálfræði þeirra. Táknmálin eru mislík og er t.d. ameríska táknmálið, ASL, miklu skyldara því franska en því breska og á það sér sögulegar skýringar (Lane o.fl. 1996:55-57). Samanburðarrannsóknir á táknmálum heimsins eru því miður mjög litlar enn sem komið er og því erfitt að segja nákvæmlega til um skyldleika og líkindi.

Það er seint á sjötta áratug 20. aldarinnar sem táknmálsrannsóknir hefjast fyrst og þá á ASL, -ameríska táknmálinu. William Stokoe, bandarískur málvísindamaður var fyrstur til að setja fram rannsóknir á ASL (Wilcox 2000:36-37). Fram að þeim tíma (og sérstaklega á meðan talmálsstefnan ríkti) voru þau viðhorf mjög algeng að táknmál væru ekki mál heldur aðeins látbragð eða „myndir í loftinu“. Stokoe benti hins vegar á að í þessu samskiptakerfi væri að finna bæði reglulega þætti og eins óhlutbundin tákn sem ættu ekkert skylt við myndir í loftinu (Battison 1980:231-232).

Grunneiningarnar

Í stuttu máli má segja að hvert tákn sé sett saman úr fimm einingum, handformi, hreyfingu, myndunarstað, afstöðu og munnhreyfingu. Stokoe benti á þær þrjár fyrstu, hinar komu síðar (Sutton-Spence & Woll 1999:155). Allar þessar einingar þurfa að vera til staðar svo út komi heilt tákn. Þessar einingar eru þá um leið minnstu merkingargreinandi einingar táknmálsins. Fjöldi eininganna er takmarkaður en samsetningarnar óendanlega margar (sbr. Valli & Lucas 2000). Stokoe setti fram þessa kenningu og bjó um leið til umritunarkerfi sem hann notaði til að búa til orðabók ASL. Þó umritunarkerfið sé mjög takmarkað og á margan hátt gallað var það bylting í rannsóknum á táknmálum og markaði upphaf þeirra (sjá t.d. Sutton-Spence & Woll 1999, Valli & Lucas 2000).

Þessar einingar táknanna má bera saman við þær hljóðkerfisfræðilegu einingar sem við höfum í raddmálum. Einingarnar hafa sumt sammerkt með fónemum, eins og það að vera minnsta merkingargreinandi eining máls, annað er líkara aðgreinandi þáttum. Ekki verður farið nánar út í það hér hvaða greining á best við heldur einungis undirstrikað að myndun tákns er ekki tilviljanakennd og er háð því að allir þættir séu uppfylltir.

Það er nefnilega svo að þó að auðvelt sé að máta málfræðitæki latínumálfræðinnar á táknmál þá þjónar það ekki alltaf táknmálinu sem slíku. Þessar aðferðir var nauðsynlegt að nota í byrjun þegar sannfæra þurfti málfræðinga sem aðra um það að táknmál væru jafn fullkomin og önnur tungumál. Í dag er sú barátta sem betur fer að baki og því ekki lengur ástæða til þess að fella táknmálsmálfræðina algjörlega inn í ramma latínumálfræðinnar eða þeirrar málfræði sem við þekkjum best. Með það að sjónarmiði verður hér fjallað um beygingar- og orðmyndunarfræði íslenska táknmálsins og þá m.a. þá virkni eða frjósemi sem er í orðmyndun táknmála.

Beygingar — áttbeygingarsagnir

Mynd 1
Mynd 2

Flest þekkjum við það að þurfa að læra beygingar, fallbeygingu nafnorða, persónu- og tíðbeygingu sagna, stigbreytingu lýsingarorða o.s.frv. Táknmál eru sjónræn mál og hafa til að bera allt annan -strúktúr en þau mál sem við (a.m.k. í þessum hluta heimsins) erum vön að fást við. Til dæmis er minna um beygingar orða. Heyrnarlausir, sem til marga ára vöndust því að talað væri um táknmál sem látbragð, litu því gjarnan svo á að táknmálið gæti ekki talist mál - það væri einfaldlega of fátækt af málfræði. En málfræðin er til staðar þó hún sé annars eðlis. Eitt af því er áttbeyging sagna en þar er átt við það að sagnir (sumar hverjar) beygjast í átt að þeim sem á í hlut. Tökum dæmi. Sögnin HEIMSÆKJA3 er dæmi um sögn sem áttbeygist og sýnir um leið vensl við frumlag og andlag. Þegar sögnin er sögð er því ekki nauðsynlegt að geta þess sérstaklega hvert frumlagið eða andlagið er. Sögnin, sem sýnd er á myndum 1 og 2 byrjar hjá frumlagi og endar hjá andlagi, fingur snúa allan tímann að andlagi. Ef merking setningarinnar er „ég heimsæki þig“ snúa fingurgómar frá líkama táknara og hreyfingin er frá líkama táknara (sjá mynd 1)4. Ef merkingin er hins vegar „þú heimsækir mig“ snúa fingurgómar að líkama táknara og hreyfing er í átt til táknara (sjá mynd 2).

Þannig er afstaða handa og hreyfing í rýminu nóg til að gera grein fyrir frumlagi og andlagi setningarinnar. Til þess að beygingin sé málfræðilega rétt þarf sögnin að beygjast í rétta átt. Þetta má útskýra nánar með dæmi. Ef þrjár persónur eru að tala saman, A stendur fyrir miðju, B stendur hægra megin við A og C vinstra megin við A (séð út frá sjónarhóli A) skiptir máli hvort A beygir sögnina til hægri eða vinstri. Ætli A að segja B að hann sé væntanlegur í heimsókn til B verður A að beygja sögnina til hægri svo málfræðireglur séu uppfylltar.

Fjölmargar sagnir eru af þessari gerð í íslenska táknmálinu, sagnir eins og SVARA, ÚTSKÝRA, SENDA o.fl. Sagnirnar eru eins og áður sagði kallaðar áttbeygingarsagnir eða venslasagnir (agreement verbs). Ekki geta allar sagnir beygst á þennan hátt en það sem er athyglisvert við þessa beygingu er þróun hennar. Að sýna vensl eða áttbeygja er nefnilega þróun sem hefur aukist í íslenska táknmálinu á síðustu árum. Eldri kynslóðir beygja því fáar sagnir (en nota þess í stað frumlag og andlag) en yngri kynslóðir beygja sífellt fleiri sagnir. Áttbeyging er því virkt ferli í íslenska táknmálinu5.

Orðmyndun - próformasagnir

Mynd 3
Mynd 4

Orðmyndun í íslensku er gjarnan á þann hátt að við sækjum orðmyndir í orðasafn okkar og leiðum svo af þeim nýjar myndir með viðskeytum eða öðru. Eiríkur Rögnvaldsson (1990:26) talar um lærða orðmyndun annars vegar og virka orðmyndun hins vegar. Lærð orðmyndum er þá þegar ákveðið er fyrir samfélagið hvaða íslenskar samsvaranir erlendra orða eru æskilegar, virk orðmyndun er hins vegar þegar „ …orð sprettur upp vegna þess að þess er þörf á ákveðnum stað og tíma …“ (1990:26). Í táknmálum er stundum talað um að orðasafnið sé tvískipt, annars vegar það sem kallast frosið orðasafn, hins vegar það sem kallað er virkt orðasafn6 (sjá t.d. Brennan 1994, Sutton-Spence & Woll 1999). Tákn úr frosna orðasafninu eru geymd, hvert og eitt, í orðasafninu og grunnmynd þeirra er nokkuð skýr. Þessi tákn er auðvelt að skrá í orðabók (Brennan 1994:371). Virka7 orðasafnið svokallaða á hins vegar miklu stærri hlut í allri orðmyndun táknmála. Virka orðasafnið inniheldur ákveðin mengi þeirra eininga sem þarf til að mynda tákn. Þegar táknara vantar orð getur hann því leitað í þessi mengi (hreyfingu, handform, myndunarstað, afstöðu og munnhreyfingar) og búið til tákn með merkingu sem hann vantar. Þættina í þessum mengjum er hægt að setja saman á ýmsa vegu eins og hentar hverju sinni (Brennan 1994:372). Orðaforðinn verður því mjög oft til „hér og nú“.

Stór hluti af þessum virka eða frjóa orðaforða eru sagnir eða öllu heldur umsagnarliðir sem við köllum próformasagnir eða sagnliði (sjá t.d. Sutton-Spence & Woll 1999, Engberg-Pedersen 1998, Valli & Lucas 2000)8. Handform táknsins er staðgengill nafnorðs (persónu, hlutar, dýrs o.s.frv.) og er valið eftir útliti þess sem talað er um. Handformin á myndum 3 og 4 geta verið hluti af próformasögnum en standa þá fyrir ólíka hluti, á mynd 3 er svokallað B-handform og getur það t.d. staðið fyrir bók eða bíl, á mynd 4 er svokallað vísi-handform og getur það staðið fyrir manneskju eða einhvern hlut sem er langur og mjór. Handformin í þessum sagnliðum kallast próform. Þau vísa nefnilega til einhvers, sem áður hefur verið nefnt, á sama hátt og fornöfn gera (Sutton-Spence & Woll 1999:41). Aðrir hlutir sagnliðarins eru líka valdir að einhverju leyti samkvæmt raunverulegum aðstæðum. Hér er það raunverulegt rými eða þær áttir eða staðsetningar sem raunverulega skipta máli. Þannig sýni ég að bíllinn keyrði upp brekku með því að hreyfa B-handformið áfram og upp á við, að maðurinn stóð við hliðina á bílnum með því að staðsetja vísi-handformið við hlið B-handformsins o.s.frv. Þessir sagnliðir eru mjög algengir í orðanotkun táknmálstalandi fólks og eru mjög algeng leið til orðmyndunar.

Rýmið

Eins og sjá má af umfjölluninni hér að ofan gegnir rýmið mikilvægu hlutverki í táknmálum. Rýmið fyrir framan líkama táknara sem og líkami táknara frá höfði til mittis eru myndunarstaðir tákna. En rýmið getur líka þjónað öðru hlutverki. Raunverulegar áttir og staðsetningar skipta máli þegar talað er og er það málfræðilega rétt að staðsetja hluti miðað við raunverulegar aðstæður. En þetta er ekki alltaf hægt eða nauðsynlegt. Í þannig tilvikum notum við rýmið málfræðilega (Sutton-Spence & Woll 1999: 129-130). Í málfræðilegu rými skipta raunverulegar staðsetningar hluta eða persóna ekki máli heldur hafa þær einungis málfræðilegan tilgang. Til þess að hægt sé að vísa til persónu sem áður hefur verið talað um verður að gefa henni ákveðna staðsetningu í rýminu, eingöngu málfræðinnar vegna. Þessar staðsetningar köllum við hólf.

Orðaröð — setningafræði

Það sem reynist mörgum erfitt, sem læra táknmál sem annað mál, er að slíta sig frá orðaröð eða setningafræði íslenskunnar. Nemendur eru gjarnir á að setja tákn fyrir hvert íslenskt orð og telja sig þar með vera farna að tala íslenskt táknmál. Það er ekki rétt. Uppbygging táknmála er mjög ólík uppbyggingu t.d. íslensku. Smáorð eins og samtengingar og forsetningar eru yfirleitt óþörf í táknmálinu og eru notaðar aðrar leiðir til að gefa merkingu þeirra til kynna (t.d. notkun rýmis og hreyfing líkama). Orðaröðin er líka ólík. Engar rannsóknir hafa verið birtar um orðaröð eða röð tákna í íslenska táknmálinu en líkur má leiða að því að þær séu sambærilegar við reglur í öðrum (vestrænum) táknmálum. Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um orðaröð í táknmálum en þeim ber ekki öllum saman um hver hún er, hins vegar er það almennt álit að notkun rýmisins geri það að verkum að orðaröð í táknmálum sé eða geti verið frjálsari en í raddmálum (Nadeau & Desouvrey 1994:149). Nokkrar „þumalputtareglur“ er þó auðvelt að setja fram og ætti að vera auðvelt að tileinka sér í byrjun málanámsins. Ein reglan er sú að tími er settur fremst í setningu og önnur regla að spurnarfornöfn eða spurnarliðir koma gjarnan aftast. Þannig yrði setningin „ég fer í bíó á morgun“ á íslenska táknmálinu „Á MORGUN ÉG FARA BÍÓ“ og setning eins og „hvernig er peysan á litinn?“ „PEYSA HVERNIG LITUR?“ Hér kemur margt til. Tíminn er settur fremst eins og áður sagði og er aðalástæðan sú að táknmál hafa ekki tíðbeygðar sagnir. Þannig þarf alltaf að gefa upp viðmiðunartíma fremst í setningu og ræðst það sem sagt er út frá þeim tíma. Ef skipt er um tíð þarf að gefa upp nýjan viðmiðunartíma. Í spurningunni „hvernig er peysan á litinn“ sjáum við bæði að forsetningu er sleppt en einnig sögninni „að vera“. Þannig getur umsögn staðið án sagnar. Þriðja þumalputtareglan er sú að þema setningarinnar stendur gjarnan fremst í setningu. Þessar reglur eru þó ekki algildar og verða frekari rannsóknir að skera úr um hvort þær standist.

Látbrigði

Látbrigði gegna mikilvægu hlutverki í táknmálum. Munnhreyfingar eru oftast hluti af tákni og er þá misjafnt hvort þær eru leiddar af íslenskum orðum eða koma úr táknmálinu (sbr. Sutton-Spence & Woll 1999 fyrir BSL). Þannig er munnhreyfingin <bíll> leidd af samsvarandi íslensku orði en munnhreyfingin <loft í kinn>, þar sem lofti er blásið í aðra kinnina hefur ekkert með íslenskuáhrif að gera. Augun og augabrúnir gegna líka veigamiklu hlutverki og eru oft hluti af setningafræðinni (sjá t.d. Valli & Lucas 2000). Þannig felst munurinn á fullyrðingasetningum og spurnarsetningum oft einungis í ólíkum látbrigðum. Setningarnar sem á íslensku útlegðust „þú heitir Jón“ og „heitir þú Jón?“ eru eins á íslenska táknmálinu ef aðeins er litið á táknin og röð þeirra ÞÚ HEITA JÓN. Hins vegar eru látbrigðin sem setningunum fylgja mjög ólík og greina úr um það hvort um spurningu eða fullyrðingu er að ræða. Fullyrðingarsetningu fylgja nokkrar höfuðhreyfingar niður á við („já“) en ef um spurnarsetningu er að ræða er augabrúnum lyft upp. Þetta gildir þó aðeins um já/nei-spurningar því ef um hv-spurningar er að ræða eru augabrúnir hnykklaðar og augu pírð. Látbrigði gegna svipuðu hlutverki í flestum táknmálum heims en þó eru einstök atriði ólík (sjá t.d. Sutton-Spence & Woll 1999 fyrir BSL, Valli & Lucas 2000 fyrir ASL, Engberg-Pedersen 1998 fyrir danska táknmálið).

Málsamfélagið - nándin við íslensku

Eins og sjá má er íslenska táknmálið um margt frábrugðið íslensku, á sama hátt og önnur táknmál eru um margt frábrugðin þeirri þjóðtungu sem þau búa við. Táknmál heimsins eiga margt sameiginlegt án þess að vera alveg eins, táknforðinn eða orðaforðinn (einmitt sá frosni) er oft mjög ólíkur. Þess vegna er það ekki sjálfsagt að heyrnarlausir skilji hver annan ef þeir hafa ólík táknmál að móðurmáli. En það er líka athyglisvert að líta á táknmálin frá félagslegu sjónarhorni. Eins og áður sagði eru um 2-300 Íslendingar sem hafa íslenska táknmálið að móðurmáli. Táknmálssamfélög eru yfirleitt mjög lítil og eru alltaf minnihlutamál í samfélagi þar sem raddmál er stóra málið. Óhjákvæmilega verður táknmálið fyrir talsverðum áhrifum frá raddmálinu/þjóðtungunni. Þessi áhrif má sjá í nýyrðum, lánsorðum eða lánsþýðingum, í setningafræðinni o.fl. Hér má segja að táknmál og raddmál séu í mikilli snertingu hvort við annað. Á mörkum þessara mála verður svo til eitthvert samskiptamál sem hvorki telst íslenskt táknmál né íslenska („contact language“ sbr. Lucas og Valli 1989). Þeir heyrandi sem læra táknmál eiga það til eins og áður var minnst á að setja í fyrstu einungis tákn fyrir hvert íslenskt orð sem þeir vilja segja. Það mál sem þá er talað er ekki íslenskt táknmál heldur kallast það táknuð íslenska. Málfræði íslenskunnar er þá í meginatriðum fylgt en í stað þess að tala með rödd eru orðin borin fram með höndum. En það er til annað afbrigði snertimáls sem er ekki eins bundið íslenskunni. Þetta afbrigði tala þeir sem lengra eru komnir í táknmálsnáminu og heyrnarlausir nota gjarnan þetta mál eða málafbrigði þegar þeir tala við heyrandi. Hér er um að ræða e.k. blöndu af málfræði táknmálsins og íslenskunnar (eða þess raddmáls sem við á). „Snertimál“ eða millimál af þessu tagi hefur líka sést í samskiptum tveggja heyrnarlausra og eru ástæðurnar fyrir því taldar vera félagslegar, að við formlegar aðstæður og þar sem fólk þekkist lítið noti heyrnarlausir stundum þetta millimál (sbr. Lucas og Valli 1989:24). Táknmál þróast mjög hratt og er ein ástæða þess talin vera sú að þau hafa ekki ritmál. Það er þó ekkert sem einkennir einungis táknmál því samkvæmt Dahl (1994:162) er það einungis minnihluti tungmála heims sem hafa ritmál. Af þessum sökum meðal annars er erfitt að staðla táknmálin og þau breytast gjarnan hraðar en raddmál gera yfirleitt. Lítið er um orðabækur um táknmál þó það færist sífellt í aukana að þær séu gefnar út (núorðið oftast á tölvutæku formi) og stutt er síðan málfræðirannsóknir hófust á táknmálum heimsins. Það er því stundum erfitt að segja til um hvað er rétt og hvað er rangt þegar táknmál eru annars vegar, staðlana vantar einfaldlega. Hér verður að treysta skoðun málhafanna (þeirra sem hafa táknmál að fyrsta máli) en hún getur verið mjög ólík frá einum málhafa til annars. Mikill kynslóðamunur er á málhöfum í íslenska táknmálssamfélaginu og bera kynslóðir merki þeirrar stefnu sem ríkti þegar þær gengu í skóla.

Hér hafa aðeins verið viðruð nokkur grundvallaratriði íslenska táknmálsins en þeim engan veginn gerð ítarleg skil. Íslenska táknmálið er lítið rannsakað mál og bíða ógrynni verkefna þeirra sem innan þessara fræða starfa. Hvernig táknmálið mun breytast í framtíðinni mun tíminn leiða í ljós en ljóst er að auknar táknmálsrannsóknir9 og meiri vitund málhafanna mun leiða til mikillar vinnu og umræðu á þessum vettvangi á næstu árum og áratugum.

Heimildir

  • Battion, Robbin. 1980. Signs Have Parts: A Simple Idea. Í C.Baker & R. Battison. Ritstj. Sign Language and the Deaf Community. Silver Spring, MD: National Associaton of the Deaf, 35-51 (endurprentað í Valli og Lucas 2000:231-242).
  • Bergman, Brita. 1994. Signed Languages. Í I. Ahlgren & K. Hyltenstam. Ritstj. Bilingualism in Deaf Education. Hamburg: SIGNUM-Verlag, bls. 15-35.
  • Brennan, Mary. 1994. Pragmatics and Productivity. Í I. Ahlgren, B. Bergman & M. Brennan. Ritstj. Perspectives on Sign Language Usage. Papers from the Fifth International Symposium on Sign Language Research. Vol.2. Durham: The International Sign Linguistics Association, bls. 371-390.
  • Dahl, Östen. 1994. Spoken languages. Í I. Ahlgren & K. Hyltenstam. Ritstj. Bilingualism in Deaf Education. Hamburg: SIGNUM-Verlag, bls. 161-167.
  • Eiríkur Rögnvaldsson. 1990. Íslensk orðhlutafræði. Kennslukver handa nemendum á háskólastigi. Reykjavík: Málvísindastofnun Háskóla Íslands.
  • Engberg-Pedersen, Elisabeth. 1998. Lærebog i dansk tegnsprogs grammatik. Kaupmannahöfn: KC.
  • Lane, Harlan, Robert Hoffmeister, Ben Bahan. 1996. A Journey into the DEAF-WORLD. San Diego, California: Dawn Sign Press.
  • Lucas, Ceil & Clayton Valli. 1989. Language Contact in the American Deaf Community. Í C.Lucas. Ritstj. The Sociolinguistics of the Deaf Community. San Diego: Academic Press, 11-40.
  • Nadeau, Marie & Louis Desouvrey. 1994. Word order in sentences with directional verbs in quebec sign language. Í I. Ahlgren, B. Bergman & M. Brennan. Ritstj. Perspectives on Sign Language Structure. Papers from the Fifth International Symposium on Sign Language Research. Vol.1. Durham: The International Sign Linguistics Association, bls. 149-158.
  • Skutnabb-Kangas. 1994. Linguistic Human Rights. A Prerequisite for Bilingualism. Í I. Ahlgren & K. Hyltenstam. Ritstj. Bilingualism in Deaf Education. Hamburg: SIGNUM-Verlag, bls. 140-159.
  • Sutton-Spence, Rachel & Bencie Woll. 1999. The Linguistics of British Sign Language. An Introduction. Cambridge: University Press.
  • Valli, Clayton & Ceil Lucas. 2000. Linguistics of American Sign Language. An Introduction. Washington D.C.: Clerc Books, Gallaudet University Press.
  • Wilcox, Phyllis Perrin. 2000. Metaphor in American Sign Language. Washington D.C.: Gallaudet University Press.


1 Á ensku „oralism“.

2 Ég nota hugtakið „raddmál“ yfir þau mál sem tjáð eru með rödd og „táknmál“ yfir þau mál sem tjáð eru með höndum. „Tungumál“ nota ég sem yfirheiti yfir bæði raddmál og táknmál. 3 Táknmál hafa ekki ritmál en talað er um glósur þegar íslensk mynd tákna er sett á prent. Tákn eru þá glósuð með hástöfum og er íslenska birtingarmynd þess gjarnan höfð í grunnmynd.

4 Athugið að myndirnar sýna ekki þá hreyfingu sem er í táknunum.

5 Því miður er það eins með þetta og fleiri málfræðiatriði íslenska táknmálsins að fleiri rannsóknir vantar til að geta staðhæft hver raunin er.

6 „The established/frozen and productive lexicons“.

7 Hugsanlega ætti að kalla þetta öðru nafni til að forðast misskilning við lærða og virka orðmyndun eða virkt og óvirkt orðasafn manna. Í staðinn væri hægt að tala um frjóa orðasafnið.

8 Þessi tákn eru yfirleitt kölluð „classifier predicates“ á ensku þó menn deili enn um hvort það sé rétt heiti. Engberg-Pedersen (1998) talar um „proformverber“ í danska táknmálinu.