Viðhorf almennings til íslenska táknmálsins: Kannað út frá aldri og kyni

Úr SignWiki
Útgáfa frá 21. júní 2021 kl. 09:57 eftir Arny (Spjall | framlög) Útgáfa frá 21. júní 2021 kl. 09:57 eftir Arny (Spjall | framlög) (Ný síða: ''B.A. verkefni Söndru Helgadóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2020'' Rannsókn þessi er framkvæmd til þess að fá innsýn í viðhorf almennings gagnvart íslensku ták...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Núverandi útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Söndru Helgadóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2020

Rannsókn þessi er framkvæmd til þess að fá innsýn í viðhorf almennings gagnvart íslensku táknmáli (ÍTM). Um leið er kannað hvort niðurstöður séu ólíkar eftir kyni eða aldri þátttakenda. Útbúinn var spurningalisti og honum dreift í gegnum samfélagsmiðla. Við gerð könnunarinnar var unnið eftir megindlegum aðferðum og helsta markmiðið að setja fram lýsandi gögn. Rannsókn af þessu tagi, á viðhorfi almennings til táknmálsins, hefur ekki verið framkvæmd hérlendis, svo vitað sé til.

Gögnin leiða í ljós að fólk sé almennt jákvætt í garð ÍTM, sýnileika þess og gagnvart því að táknmálið sé jafngildur tjáningarmáti íslenskunnar. Lítill munur er á niðurstöðum eftir aldri en frekar munur eftir kyni þó hann sé ekki mjög afgerandi. Konur virðast örlítið jákvæðari í garð ÍTM en karlar, en karlar hallast þó einnig í jákvæða átt en segjast í meira mæli vera hlutlausir. Sú vísbending sem þessi rannsókn gefur um að viðhorf almennings til ÍTM sé almennt jákvætt mætti nýta sem lóð á þá vogarskál að ÍTM fái í reynd þá stöðu í íslensku samfélagi sem það hefur fengið í lögum. Móttækileiki samfélagsins virðist vera til staðar þó að viss vanþekking á málefnum táknmálstalandi sé það einnig, og meira mætti því gera til að kynna ÍTM og knýja á um framfarir.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Viðhorf almennings til íslenska táknmálsins: Kannað út frá aldri og kyni