Kuðungsígræðsla. Er hún lausnin

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Heiðu Millýjar Torfadóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2010

Markmið þessarar ritgerðar er að skilja betur heyrnarleysi og þau úrræði sem til eru fyrir þá sem við einhvers konar heyrnarskerðingu búa. Kuðungsígræðsla er tækni sem getur gagnast heyrnarlausu eða verulega heyrnarskertu fólki. Í stuttu máli má segja að kuðungsígræðslutækið samanstandi af tveimur hlutum, einum sem komið er fyrir með skurðaðgerð og öðrum sem er utanáliggjandi. Hljóð er numið með hljóðnema og sent í talgervil þar sem það fer í gegnum flókna rafrás sem kóðar hljóðið yfir í rafræn merki. Hlutverkið er í grundvallaratriðum það að leysa verkefni innra eyrans; breyta hljóðum i rafræn boð sem standa fyrir tíðni, styrk og breytileika í hljóðum sem heilinn skilur (Heyrnarskert börn, 2010:9). Rætt verður um kuðungsígræðslu og hún útskýrð nánar. Ég ræði hvaða upplýsingar foreldrar nýgreindra heyrnarskertra eða heyrnarlausra barna hafa aðgang að til ákvarðanataka fyrir barnið. Það er að segja hvort þeir fái eingöngu upplýsingar um þá tækni sem gæti gagnast barninu en hafi lítinn möguleika á að fræðast um líf heyrnarlausra.

Ég rýni í niðurstöður úr rannsóknum af ýmsu tagi sem gerðar hafa verið eftir kuðungsígræðslu í þeirri von um að þær gefi mér einhverskonar samhljóma niðurstöður um kosti kuðungsígræðslu.

Einnig set ég upp og ræði tölur sem sýna fram á mismunun tengda félagslegri stöðu, fjárhag, kynþætti og annarskonar fötlunum um hvort fólk hafi möguleika á að gangast undir kuðungsígræðslu annarsstaðar í heiminum.

Heyrnarskerðing og heyrnarleysi eru talin áhrifavaldur tengdur félagslegri velferð og sjálfsöryggi barna. Rætt er um hvort kuðungsígræðsla sé lausnin við þess konar vandamálum. Sjálf er ég undrandi á því hversu lítið er talað um hvort táknmál í góðu táknmálsumhverfi gæti gert það sama vegna þessara vandamála. Hugmyndin mín á bakvið þessa ritgerð var að skoða hvort kuðungsígræðsla geti bætt lífsgæði fólks, hvernig hægt sé að mæla slíkt og hver væri þá hæfastur til þess. Flestar kannanir benda til þess að foreldrar, fræðimenn eða kennarar barnarnna séu hæfastir til að mæla hvort hún geti bætt lífsgæði. Niðurstöður frá þeim eru þó ekki nægilega stöðugar til að geta svarað þessari spurningu til fulls. Mikil þörf er á fjölbreyttari rannsóknum tengdum kuðungsígræðslu og þyrftu niðurstöður að vera stöðugri til að hægt sé að taka fyllilega mark á þeim.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Kuðungsígræðsla. Er hún lausnin