Mörk í táknmálstúlkun. Sérstaða grunnskólatúlkunar

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Ingibjargar Gissunnar Jónsdóttur sem útskrifast frá HÍ árið 2017

Í þessari ritgerð er fjallað um mörk táknmálstúlka. Sérstök áhersla er lögð á grunnskólatúlkun þar sem engar tvær aðstæður eru eins.

Hér er reynt að svara spurningunni hvað séu mörk í táknmálstúlkun og hvar þau eigi að liggja. Kynnt eru tvö sjónarhorn sem túlkar geta stuðst við þegar þeir móta mörk sín inni í mismunandi aðstæðum. Einnig er skoðað hvort persónuleiki túlks hafi bæði áhrif á hæfni hans í starfi og túlkunaraðstæðurnar. Auk þess er sérstaða túlkunar í grunnskóla kynnt og hvað þurfi að hafa í huga í slíkum aðstæðum.

Rannsóknin sem hér er birt leitast við að svara því hvað mörk séu og hvort þau séu önnur í grunnskólatúlkun en í annarri túlkun. Túlkunaraðstæður eru afar fjölbreyttar og túlkur þarf ávallt að meta aðstæðurnar sem og hverjir eiga í hlut og má því leiða líkur að því að túlkun í grunnskóla hafi ákveðna sérstöðu.

Til að leita svara við rannsóknarspurningum voru tekin viðtöl við þrjá táknmálstúlka sem valdir voru út frá fyrirfram gefnum forsendum. Túlkarnir sem rætt var við hafa mislangan starfsferil og vinna allir hjá mismunandi stofnunum. Viðtölin eru talin gefa ágæta mynd af mismunandi mörkum túlkanna og staðsetningu þeirra.

Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar á túlkun í íslensku táknmálssamfélagi. Helstu niðurstöður eru að mörk túlka í grunnskólatúlkun eru önnur en alla jafna, en túlkarnir voru ósammála um hversu ólík þau eru í aðstæðunum. Tveir af þremur sögðust hafa orðið ósammála öðrum túlkum hvar mörkin liggja og hversu virkan þátt túlkurinn tæki í kennslustofunni.

Sú staðreynd að fáar sem engar heimildir eru til um hvað mörk séu og hvar þau liggja gefur frekari ástæðu til að rannsaka efnið nánar.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Mörk í táknmálstúlkun. Sérstaða grunnskólatúlkunar