Án táknmáls er ekkert líf, 2001

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
Júlia G. Hreinsdóttir

Júlía G. Hreinsdóttir

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur nú verið starfrækt í tíu ár [2001]. Í starfi stöðvarinnar hefur táknmálinu verið haldið mjög á lofti. Júlía G. Hreinsdóttir lýsir hér 100 ára einangrun heyrnarlausra og breytingunni við það að táknmálið varð gjaldgengt í samfélaginu. Það er útbreiddur misskilningur að táknmál sé eins alls staðar í heiminum. Þetta er að mörgu leyti skiljanlegt. Það þarf þó ekki nema að hugsa sig stuttlega um til þess að sjá að þetta er ekki rétt. Táknmál þróast í hverju landi fyrir sig með þeirri menningu og siðum sem þar ríkja. Íslenska táknmálið er málið mitt. Það er bara í gegnum táknmál sem ég get tjáð hugsanir mínar og tilfinningar. Leiðin til að eignast þetta mál var þó ekki alveg átakalaus.

Heyrnleysingjaskólinn, vagga menningar heyrnarlausra en ...

Þegar ég var að alast upp á sjöunda og áttunda áratugnum kunnu fjölskyldur okkar barnanna og kennararnir við skólann sem við stunduðum nám í ekkert táknmál og heyrnarlaus börn voru yfirleitt einangruð í fjölskyldum sínum. Enginn viðurkenndi táknmálið og við ólumst upp í því viðhorfi að táknmál væri ekki mál. Samfélag heyrnarlausra var gríðarlega mikilvægt fyrir okkur heyrnarlausu börnin því heyrnarlaus einstaklingur lærir ekki táknmál nema hann eigi dagleg samskipti við aðra heyrnarlausa. Eldri nemendur skólans og fullorðnir heyrnarlausir voru því einu málfyrirmyndir okkar barnanna. Þetta er í raun alveg andstætt því sem við á um heyrandi börn. Heimilið og fjölskyldan er ramminn um máltöku þeirra, þar er hlúð að málþroskanum og þar öðlast börnin orðaforða með beinum og óbeinum samskiptum við jafnaldra og fullorðna.

Heyrnleysingjaskólinn gegndi því mikilvægu hlutverki sem málmiðstöð fyrir heyrnarlaus börn og fullorðna þótt táknmál væri ekki kennt þar. Við vorum saman í skólanum, borðuðum, og lékum okkur á sama svæðinu. Flest barnanna voru í heimavist og sváfu líka í skólanum og hittu fjölskyldu sína aðeins nokkrum sinnum á ári.

Í skólum fyrir heyrnarlausa alls staðar í heiminum og innan félaga heyrnarlausra þróast menning heyrnarlausra og mál við það að fólk deilir reynslu sinni og hugsun í gegnum táknmál. Þegar heyrnarlaus börn eða fullorðið fólk býr saman, vinnur saman, leysir vandamál og leikur sér þróar það málið sitt saman. Í heimavist gamla Heyrnleysingjaskólans gerðist þetta og á milli okkar myndaðist mjög sterk samkennd og menningararfinum var miðlað. Þetta gerðist í kringum táknmálið frá barni til barns en laut einskis manns stjórn. Enginn veit hvaðan íslenska táknmálið kom. Það bara varð til á meðal okkar hér á Íslandi sennilega við það að heyrnarlausir söfnuðust saman þegar fyrsti skólinn fyrir heyrnarlausa var stofnaður. Eina tækifærið sem við höfðum til að eiga hindrunarlaus samskipti var þó okkar á milli. Mikið skorti á að við fengjum kennslu frá uppalendum, fjölskyldu og kennurum. Þeir höfðu ekki vald á málinu. Í skólanum var þetta eðlilega vandamál. Kennararnir gátu ekki kennt okkur íslensku, vegna þess þeir kunnu ekki táknmálið hvorki orðaforðann né málfræðina. Þeir gátu því ekki skýrt fyrir okkur hvaða merkingu íslensku setningarnar höfðu eða hvaða hlutverki málfræðiendingarnar gegndu. Við sem erum fullorðin í dag höfðum því á þessum tíma enga möguleika á að ná góðu valdi á íslensku. Við gátum ekki lært íslensku nema að hún væri skýrð í gegnum táknmálið og á grundvelli þess. Við börðumst öll við íslenskunám í gegnum skólagönguna án þess að eiga nokkurn tímann möguleika á því að ná árangri. Það sem flestir fengu út úr þeirri baráttu var óbeit á íslenskunámi og flestir hafa síðan reynt að forðast það skipbrot sem sú barátta hafði alltaf í för með sér. Íslenskunám er óvinnandi þegar ekki eru gefnar útskýringar á táknmáli.

Á þessum tíma var táknmál ekki viðurkennt, þegar svo er og þeir sem ráða treysta því ekki til að tjá tilfinningar eða miðla þekkingu er málinu sýnd lítilsvirðing. Heyrnarlaust fólk sem elst upp við þetta viðhorf til málsins síns hefur í raun ekki aðgang að neinni annarri skoðun. Þegar litið er niður á málið manns og möguleika til tjáningar er litið niður á mann sjálfan og það veldur eðlilega lélegu sjálfstrausti og aumri sjálfsmynd.

Af hverju var táknmál ekki leyft?

Mörgum heyrandi sem ekki þekkja til aðstæðna heyrnarlausra finnst einkennilegt að heyra að táknmál hafi verið bannað og að það bann hafi verið í gildi víða þar til á síðustu árum. Sums staðar er táknmál meira að segja bannað enn þann dag í dag. Í fyrsta ríkisskólanum fyrir heyrnarlausa í heiminum í Frakklandi var táknmál notað við kennslu og margir skólar víða um Evrópu og í Ameríku fylgdu frönsku aðferðinni. En árið 1880 urðu tímamót í sögu heyrnarlausra sem áttu eftir að valda alvarlegu broti á mannréttindum og möguleikum heyrnarlausra í heiminum. Í Mílanó var haldin alþjóðleg ráðstefna kennara heyrnarlausra þar sem var ákveðið að í framtíðinni skyldu öll heyrnarlaus börn í öllum löndum fá kennslu samkvæmt raddmálsaðferðinni. Það þýddi að talþjálfun og varalestur yrðu mikilvægasti þáttur kennslunnar og að öll heyrnarlaus börn skyldu læra mál og læra að tala með hjálp varaaflesturs. Bannað var að kenna á táknmáli og táknmál skyldi hverfa úr skólum heyrnarlausra. Heyrnarlausir kennarar voru reknir frá skólunum því að þeir gátu ekki kennt börnunum raddmál. Þetta viðhorf eða trú á ágæti raddmálsins fyrir heyrnarlausa breiddist hratt út um Evrópu og Bandaríkin. Skoðunin á táknmáli heyrnarlausra breyttist samfara þessu í grundvallaratriðum. Farið var að líta á og tala um táknmál sem "apamál". Táknmálið var talið ljótt, gróft og óhollt. Áhersla var lögð á að forða bæri heyrnarlausum frá því hvað sem það kostaði. Þá var þeirri skoðun haldið á loft að það væri beinlínis klúrt að nota táknmál á almannafæri. Áður höfðu margir heyrandi verið fylgjandi táknmáli. Nú voru þeir skyndilega mótfallnir því. Þegar táknmál er talað nota menn hendur og líkama. Þetta fannst mönnum minna meira á dýr en menn. Táknmálið var þannig álitið lægra og frumstæðara en raddmálið. Hugsunin væri fólgin í tali. Það varð viðtekin skoðun að þeir sem einungis notuðu tákn væru að hefta þroska hugsunarinnar.

Þessi viðhorfsbreyting varð áhrifarík fyrir heyrnarlausa. Fyrir ráðstefnuna í Mílanó var ekki óalgengt að heyrnarlausir hefðu góða menntun á borð við kennaramenntun, menntun í iðn eða stunduðu störf sem krefðust menntunar svo sem ritstörf. Eftir ráðstefnuna var bannað að nota táknmál alls staðar í heiminum. Menntun heyrnarlausra hrakaði hratt eftir það og verulega dró úr þátttöku þeirra í samfélaginu.

Einangrun í 100 ár

Táknmálsbannið hafði í för með sér að hópurinn einangraðist æ meira í samfélaginu. Heyrnarlausir gátu þrátt fyrir bannið ekki afsalað sér táknmálinu og gátu ekki verið "eðlilegir". Málið var falið eftir þetta og þróun þess heft. Við þetta upphófst nýtt tímabil í menningarsögu heyrnarlausra sem danskur félagsfræðingur Jonna Widell hefur kallað einangrunartímabilið. Það er talið hafa varað í um 100 ár og varir enn í sumum löndum. Á Norðurlöndum var farið að viðurkenna táknmál upp úr 1980. Svíar voru fyrstir með viðurkenningu þingsins árið 1980 en hin löndin sigldu í kjölfarið. Mannréttindabarátta heyrnarlausra á Íslandi

Mannréttindabarátta heyrnarlausra á Íslandi

Félag heyrnarlausa á Íslandi var stofnað hinn 11. febrúar 1960. Viðurkenning á táknmáli hefur alltaf verið helsta baráttumál félagsins. Fyrstu árin eftir að baráttan hófst þokaði málum hægt og þróunin fram á við gekk seint fyrir sig. Stærsti sigurinn í þeirri baráttu sem markaði upphaf nýrra tíma var stofnun Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra hinn 31. desember 1990. Þar varð til vettvangur til rannsókna á táknmáli, kennslu táknmáls og til þess að byggja upp túlkaþjónustu. Höfuðmarkmið Samskiptamiðstöðvar er að stuðla að því að heyrnarlausir fái þjónustu sem víðast í þjóðfélaginu á grundvelli táknmáls. Þarna var komin fyrsta opinbera viðurkenningin á að táknmál væri mál og að heyrnarlausir ættu að fá þjónustu á táknmáli.

Þróunin hefur orðið hröð á þeim áratug sem Samskiptamiðstöðin hefur starfað. Margir mikilvægir áfangar hafa náðst og ótrúlega miklar breytingar hafa orðið. Á árunum 1994-1998 var boðið upp á táknmálsfræði- og túlkanám við Háskóla Íslands. Fjórtán háskólamenntaðir táknmálstúlkar hafa brautskráðst frá Háskólanum og margir aðrir hafa lokið annarri menntun með táknmálsfræði sem auka- eða aðalgrein og komið til starfa innan samfélags heyrnarlausra. Önnur þróun hefur einnig verið jákvæð. Árið 1996 var ráðinn heyrnarlaus skólastjóri að Vesturhlíðarskóla. Árið 1999 komu út nýjar námsskrár fyrir skólastigin þar sem táknmál er sérstök námsgrein og kennslumál heyrnarlausra skólabarna.

Táknmálskennslan á vegum Samskiptamiðstöðvarinnar hefur breytt miklu fyrir heyrnarlausa. Okkur finnst eins og glerið sem einangraði okkur frá öðrum sé að molna niður og við erum farin að blandast hinum heyrandi heimi. Fjölskyldur heyrnarlausra og heyrnarskerta barna læra táknmál og skilja betur menningu okkar og virða. Börnin læra nú á heiminn í gegnum mál sem þau hafa fullan aðgang að en ekki með óljósum skilaboðum í gegnum varalestur af íslensku. Í alls kyns þjónustustörfum erum við farin að mæta fólki sem kann eitthvað í táknmáli og kemur þægilega á óvart. Þetta gerist á bensínstöðvum, hjá vátryggingafyrirtækjum eða í bönkum og boðið er upp á kennslu í táknmáli sem valgrein í mörgum framhaldsskólum. Á síðastliðnum 10 árum hafa tæplega 4.700 manns sótt táknmálsnámskeið Samskiptamiðstöðvarinnar auk þeirra sem hafa sótt námskeið stöðvarinnar til endurhæfingar s.s. þeir sem misst hafa heyrn eru daufblindir eða fjölfatlaðir heyrnarlausir en hafa ekki komist í snertingu við táknmál annars staðar.

Á þessu ári höldum við upp á 10 ára afmæli Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þegar litið er til baka getum við öll verið stolt af þeirri þróun sem hefur orðið á starfstíma stöðvarinnar þar sem táknmálið hefur alltaf verið í brennipunkti. Ég er viss um að sú þróun á eftir að halda áfram.

Því án táknmáls er ekkert líf.

Höfundur er stundakennari við Háskóla Íslands í táknmálsfræðum og ráðgjafi við Samskiptamiðstöð heyrnarlausra. Þessi grein er frumsamin á íslensku táknmáli og þýdd á íslensku.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. september 2001.