Íslenskt táknmál fest í lög
Birtist í Hugrás 01/07/2011
Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði
Tilfinningaþrungið andrúmsloft ríkti í sölum Alþingis föstudaginn 27. maí 2011. Þá gengu alþingismenn til atkvæðagreiðslu um frumvarp menntamálaráðherra um stöðu íslenskrar tungu og íslenskt táknmáls. Sú staðreynd að íslensk tunga hafi ekki verið fest í lög sem opinbert mál á Íslandi fyrr en nú er um margt merkileg en hér verður einblínt á þann hluta frumvarpsins – og nú laganna – sem fjallar um íslenskt táknmál.
Með lögunum sem samþykkt voru þennan umrædda dag er staðfest að íslenskt táknmál verði móðurmál þeirra sem ekki hafa næga heyrn til að tileinka sér íslenska tungu til daglegra samskipta. Eða eins og segir í frumvarpinu: „Íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra og afkomenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta“.
Íslenska verður áfram mikilvæg í lífi þessa fólks, sem þeirra annað mál og það mál sem mest er notað í samfélaginu. Íslenska táknmálið verður hins vegar loksins lögfest sem fyrsta mál þessa hóps sem til margra ára var bannað að nota eina tungumálið sem þeim er fullkomlega tamt. Það á það til að gleymast hvað saga táknmála heimsins er lituð baráttu gegn fordómum og kúgun. Oft er talað um að blómaskeið heyrnarlausra hafi ríkt fyrir árið 1880 því þá hafi heyrnarlausir haft frelsi til að tala táknmál sín á milli. Árið 1880 urðu hins vegar þáttaskil í hinum vestræna heima er þing kennara heyrnarlausra barna sem haldið var í Mílanó ákvað að táknmál skyldu bönnuð og börnum gert að læra raddmál sinnar þjóðar. Í kjölfarið fylgdu erfiðir áratugir þar sem heyrnarlausir einangruðust frá samfélaginu og sjálfsmynd einstaklinganna var brotin niður í baráttunni við að ná tökum á tungumáli og menningarheimi heyrandi. Þeir máttu ekki nota hendur og líkama til tjáningar en var gert að lesa af vörum og tjá sig með hljóðum sem þeir eðli málsins samkvæmt námu ekki. Mikil áhersla var lögð á talkennslu og varalestur í menntun heyrnarlausra en minna fór fyrir kennslu í almennum fögum eins og stærðfræði eða landafræði, hvað þá öðrum tungumálum eins og við sem heyrum nutum.
Með lögum þeim sem nú hafa verið samþykkt á Alþingi Íslendinga og eiga sér sem betur fer fordæmi í nokkrum löndum, er táknmál í fyrsta sinn viðurkennt sem móðurmál heyrnarlausra á Íslandi. Lögin ættu þar með að tryggja bætt aðgengi heyrnarlausra að íslensku samfélagi í gegnum túlkun og táknmálsviðmót, t.d. á heimasíðum og í sjónvarpi. Allar almennar upplýsingar ættu nú loks að verða þessum málminnihlutahópi aðgengilegar auk þess sem réttur málhafanna til túlkunar verður sterkari og tryggir þeim frekara aðgengi að samfélaginu. Það sem skiptir þó ekki síður máli – og það er þess vegna sem greina mátti tár á kinnum nokkra áhorfenda í þingsölum Alþingis þennan dag – er að nú þegar íslenska táknmálið hefur hlotið þessa réttarstöðu eru horfur á að viðhorf til málsins verði jákvæðari. Rannsóknir hafa sýnt að viðhorf til tungumála geta haft margvísleg áhrif, t.d. á tungumálanám, bæði hvað varðar fyrsta mál og annað mál, og á sjálfsmynd einstaklings. Margir heyrnarlausir sem lifað hafa þá tíma þar sem táknmál voru bönnuð og átt að fóta sig í heimi hinna heyrandi þó að hann væri þeim að mörgu leyti lokaður hafa átt í baráttu við sjálfan sig og haft brotna sjálfsmynd. Viðurkenning á máli hópsins, eins og sú sem Alþingi hefur nú lögfest, hefur jákvæð áhrif á sjálfsmyndina og einstaklingarnir fá trú á mál sitt og sig sjálfa. Jafnframt gætu viðhorf heyrnarlausra sjálfra til íslensku breyst á jákvæðan hátt og nú þegar íslenska táknmálið fær sess í lögum við hlið íslenskunnar þá fari óttinn við vald íslenskunnar dvínandi.
Lögin snúast að miklu leyti um mannréttindi en mannréttindi kosta og er ekkert launaungamál að lögin kalla á talsverð fjárútlát. Málfræðingurinn Kenneth Hyltenstam hefur skrifað talsvert um stöðu minnihlutamála í Svíþjóð og m.a. bent á að það endurspegli viðhorf samfélagsins til minnihlutahópa hvort tungumál þeirra eru styrkt með peningaútgjöldum eða ekki og þau tungumál sem eytt er í nái að blómstra.
En lögin ein og sér eru ekki nóg eins og mörg dæmi sanna. Á Íslandi hafa verið byggðar stoðir sem munu styrkjast með þessum lögum, t.d. táknmálsfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskerta sem sér um túlkaþjónustu, rannsóknir á táknmáli og margt fleira. Þessar stofnanir munu eflast við viðurkenningu táknmálsins og fá mörg ný verkefni að auki. Með öflugum rannsóknum og aukinni menntun þeirra sem hafa íslenskt táknmál að móðurmáli gæti útkoman orðið sterkt og öflugt samfélag heyrnarlausra á Íslandi. Samfélag sem mun auðga íslenska menningu og fjölbreytni í tungumálanotkun. Íslensk þjóð hefur með þessari lagasetningu tekið afstöðu með táknmáli og nú verður að fylgja lögunum eftir.