2019: Árleg skýrsla málnefndar um íslenskt táknmál veturinn 2018-2019

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
Logo Málefndar um ÍTM

SAMANTEKT STARFSÁRSINS 2018-2019

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenska táknmálið til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls.

Málnefnd um íslenskt táknmál er m.a. ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr.

Málnefnd um íslenska táknmálið er þannig skipuð, tímabilið 1. maí 2017 til 30. apríl 2020:

Bryndís Guðmundsdóttir formaður

Sigríður Sigurjónsdóttir varaformaður

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Rannveig Sverrisdóttir


Verkefni nefndarinnar síðustu tveggja ára hafa helst beinst að því að boða til sín aðila sem stýra námsframboði, túlkaþjónustu og námsefni fyrir þá sem reiða sig á notkun ÍTM til samskipta. Segja má að hringnum hafi verið lokað í þessu tveggja ára ferli með fundum með fulltrúum Menntamálastofnunar, Mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Markmið nefndarinnar með þessum fundum er að þeir aðilar sem koma að menntun og táknmálsnámi þessara einstaklinga leiti allra lausna sem leiða til betri stöðu þessa hóps í samfélaginu. Það verður best gert með samstarfi allra hlutaðeigandi. Nefndin hefur hugsað sér að fylgja þessu samstarfi eftir á komandi vetri. Stöðugt þarf að gæta þess að ÍTM verði ekki útundan í íslensku þjóðfélagi og að íslenska táknmálið fái þann sess sem því ber í íslensku þjóðfélagi, ekki síst í menntamálum.

Á mikilvægum fundi sem haldinn var með fulltrúum Mennta- og menningarmálaráðuneytis var m.a. rætt um stöðu Málnefndarinnar, ráðningu forstöðumanns SHH og ekki síst um málstefnu íslensks táknmáls, sem litið er á sem heildarstefnu um táknmálið. Þar kom fram ósk um að Málnefndin kæmi inn í það samstarf.

Vakin var athygli á íslenska táknmálinu með ýmsum hætti í tengslum við dag íslenska táknmálsins þann 11. febrúar sl. m.a. með málþingi í Veröld og samstarfi við Café Lingua og RÚV. Samstarfið við RÚV er mikilvægt skref að því markmiði að auka sýnileika íslenska táknmálsins og er nauðsynlegt að á því verði framhald. Næsta vetur verður því vonandi enn meira samstarf við RÚV og ekki síður KrakkaRÚV á döfinni, en þar fór á stað verkefni að frumkvæði Málnefndar sem snýr að því að búa til klassískt efni á táknmáli sem hægt væri að nota aftur og aftur til fræðslu og ánægju.

Nordisk tegnsprog netværk (NTN) er samstarfsvettvangur norrænu táknmálsnefndanna. Árið 2019 gegnir Ísland formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og um leið fer Málnefnd um íslenskt táknmál með formennsku í NTN. Aðaláherslan í þessu norræna samstarfi undanfarið ár hefur verið á aðgengi barna og unglinga að táknmáli. Fundur var haldinn á Íslandi í febrúar og um leið voru haldnir samráðsfundir með DNR (Dövas nordiska råd) um stöðu táknmálsins á Norðurlöndum. Patrik Kermit frá Oslo Metropolitan University hélt fyrirlestur, ásamt Stefan Hardonk frá Háskóla Íslands, um stöðu heyrnarlausra barna í skólakerfinu, en hann mun stýra verkefni á vegum NTN sem ber yfirstkriftina “Hvað segja rannsóknir um stöðu táknmálsins meðal Norðulandaþjóða”.

Á Degi íslenska táknmálsins var nýtt lógó Málnefndarinnar kynnt. Fyrir valinu varð merki þar sem sýnt er á sjónrænan hátt að Málnefndin hefur að markmiði að halda utan um og vernda ÍTM, en ÍTM stendur fyrir íslenskt táknmál. Stafirnir ÍTM eru gerðir með íslenska fingrastafrófinu.


STARFSEMI MÁLNEFNDAR UM ÍSLENSKT TÁKNMÁL 2018 – 2019

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenskt táknmál til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Ráðherra skipar fimm menn til setu í nefndinni til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hagsmunasamtök heyrnarlausra og heyrnarskerta hér á landi og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra velur formann og varaformann.

Hlutverk málnefndar um íslenska táknmálið er að stuðla að eflingu íslensks táknmáls, notkun þess í íslensku þjóðlífi, styrkja stöðu þess og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess. Í þessu felst m.a. að vinna að samræmi í táknanotkun og annarri stöðlun íslensks táknmáls sem tjáningarmiðils eftir því sem eðlilegt þykir og skynsamlegt getur talist. Málnefnd um íslenskt táknmál er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr.

Málnefnd um íslenska táknmálið er þannig skipuð, tímabilið 1. maí 2017 til 30. apríl 2020:

Bryndís Guðmundsdóttir formaður

Sigríður Sigurjónsdóttir varaformaður

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Rannveig Sverrisdóttir

Varamenn:

Júlía Guðný Hreinsdóttir

Nedelina Ivanova

Árný Guðmundsdóttir

Helga Ingibergsdóttir

Gunnar Snær Jónsson


Fjármál

Helstu kostnaðarliðir vor 2018 – júní 2019

Seinni hluti árs 2018 (Árið í heild)

Laun starfsmanns 427.008 (732,013)

Nefndarlaun (250 einingar) 588.500 (1.164.290)

Veitingar 6.890 (14.739)

Túlkun 10 tímar 116.541 (349.623)

Samstarfsverkefni með KrakkaRúv 1.500.000 (1.500.000)

ALLS GREITT 2.638.939 (3.760.665)

Framlag ráðuneytis fyrir allt árið 2018 var 3.000.000 kr.

Þar sem minni starfsemi var árið 2017 var til fjármagn frá því ári upp á 1.575.809 kr.

Fyrri hluti árs 2019

Laun starfsmanns 439.882

Málþing í Veröld 68.932

Túlkun 27,5 tímar 278.685

Nefndarlaun (214,5) 504.933

Veitingar 4.898

ALLS GREITT 1.297.330

Framlag ráðuneytis fyrir allt árið 2019 er 3.000.000 kr.

  • Verkefni framundan
  • Greitt með fulltrúa vegna formennsku MÍT í norrænu samstarfi.
  • Útgáfa bókamerkis.
  • Aukaverkefni vegna samstarfs við KrakkaRúv og Menntamálastofnunar.
  • Samstarf við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Fundir og fyrirkomulag:

Á tímabilinu voru haldnir 11 formlegir fundir auk undirbúnings- og vinnufunda með öðrum aðilum. Fundirnir voru allir haldnir í húsnæði SHH fyrir utan einn sem var haldinn í Menntamálaráðuneytinu. Starfsmaður nefndarinnar undirbjó fundina í samráði við formann. Á fundum eru ætíð táknmálstúlkar. Varamenn eru kallaðir inn eftir þörfum og þess gætt að jafnvægi sé í þátttöku heyrandi og heyrnarlausra fundarmanna.

Helstu verkefni:

Verkefni nefndarinnar síðasta starfsár hafa m.a. beinst að því að taka á móti aðilum sem boðaðir voru í heimsókn til málnefndarinnar, þ.e. þeim sem stýra námsframboði, túlkaþjónustu og námsefni fyrir þá sem reiða sig á notkun ÍTM til samskipta, eins og gert var síðasta starfsár. Segja má að vorið 2019 hafi hringnum verið lokað í þessu tveggja ára ferli, en þetta starfsár fundaði Málnefndin með fulltrúum Mennta- og menningarmálaráðuneytisins, Menntamálastofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Markmið nefndarinnar með þessum fundum er að þeir aðilar sem koma að menntun og táknmálsnámi þessara einstaklinga leiti allra lausna sem leiða til betri stöðu þessa hóps í samfélaginu. Það verður best gert með samstarfi allra hlutaðeigandi. Nefndin hefur hugsað sér að fylgja þessu samstarfi eftir á komandi vetri. Stöðugt þarf að gæta þess að ÍTM verði ekki útundan í íslensku þjóðfélagi og að íslenska táknmálið fái þann sess sem því ber í íslensku þjóðfélagi, ekki síst í menntamálum.

Vakin var athygli á íslenska táknmálinu með ýmsum hætti í tengslum við dag íslenska táknmálsins þann 11. febrúar sl. m.a. með málþingi í Veröld og samstarfi við Café Lingua og RÚV. Samstarfið við RÚV er mikilvægt skref að því markmiði að auka sýnileika íslenska táknmálsins og er nauðsynlegt að á því verði framhald. Næsta vetur verður því vonandi enn meira samstarf við RÚV og ekki síður KrakkaRÚV á döfinni.

Á Degi íslenska táknmálsins var nýtt lógó Málnefndarinnar kynnt. Fyrir valinu varð merki þar sem sýnt er á sjónrænan hátt að Málnefndin hefur að markmiði að halda utan um og vernda ÍTM, en ÍTM stendur fyrir íslenskt táknmál. Stafirnir ÍTM eru gerðir með íslenska fingrastafrófinu. Er nú einnig unnið að hönnun bókamerkis með fingrastafrófinu og nokkrum táknum.

Árið 2019 fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og fylgir því að Málnefndin fer með formennsku í norrænu samstarfsneti um táknmál.

Þessum verkefnum og fleirum verða gerð betri skil hér á eftir.

Heimsóknir

Fundur með Mennta- og menningarmálaráðuneytinu

Haustið 2018 óskaði Málnefndin eftir fundi með tengilið sínum hjá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu (MMR) og svo fór að öll málnefndin var boðuð á fund þangað í október með Björk Óttarsdóttur og Karítas Gunnarsdóttur „um þau málefni sem snúa að íslensku táknmáli s.s. stefna um íslenskt táknmál, úttekt á táknmálskennslu í grunnskólum og breytingar á lögum um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra” eins og nefnt var í fundarboðinu.

Þar var m.a. rætt um mótun málstefnu íslensks táknmáls, sem litið er á sem heildarstefnu um táknmálið og óskað eftir að Málnefndin kæmi inn í það samstarf. Tók málnefndin því boði fagnandi. Rætt var hverja fleiri ætti að fá til þess samstarfs og stungið var m.a. upp á Hugvísindasviði HÍ, Félagi heyrnarlausra, Hlíðaskóla og táknmálssviði SHH. Á þessum tíma var í gangi þingsályktunartillaga um íslenskt mál í alls 22 liðum sem nær yfir vítt svið, skóla, söfn o.fl. og gæti hún sennilega verið góð leiðsögn í þessari vinnu.

Einnig var rætt um túlkun í sjónvarpi og sýnileika táknmálsins þar. Málnefndin lagði m.a. áherslu á að aðgengi að barnaefni á táknmáli sé mikilvægt og einnig að táknmálið ætti að vera sýnilegt. Myndi það hafa jákvæð áhrif á viðhorf til táknmálsins almennt ef það sæist meira í sjónvarpi. Hins vegar væri mikilvægt að aðgreina táknmál og túlkun, annars vegar er tungumálið og hins vegar brúin yfir til heyrandi. Fulltrúar MMR tóku vel í þessi mál og segjast munu taka þau upp við RÚV á samráðsfundum þessara stofnanna.

Rætt var um Dag íslenska táknmálsins og lýstu fulltrúar MMR sig tilbúna til að reyna að aðstoða við að festa þann dag í sessi, fulltrúum málnefndar til mikillar ánægju. Rætt var um mikilvægi þess að reyna að koma m.a. deginum inn í almenn og opinber dagatöl og kom fram að oft geti ráðuneytið hjálpað til við að koma þess háttar af stað. Fulltrúar MMR sögðust til í að nýta þekkingu og reynslu innanhúss í þessu máli.

Stjórn málnefndarinnar var ánægð með fundinn með fulltrúum MMR og vonast eftir að vinna um mótun málstefnu íslenska táknmálsins komist af stað sem fyrst. Það sem eftir lifði vetrar reyndi formaður málnefndar nokkrum sinnum að athuga með stöðuna á því verkefni og reka á eftir því, en þegar þessi skýrsla er skrifuð hefur málnefndin ekki verið boðuð á aðra fundi um það mál.

Fundur með Menntamálastofnun

Fulltrúar Menntamálstofnunar, Óskar H. Níelsson og Erling R. Erlingsson, komu á fund með Málnefndinni í mars 2019. Þar kom fram að MMS hefur gefið út efni á táknmáli í mörg ár, en að lítið hefði verið gert í að bæta við efnið undanfarið, þar til SHH fór að vinna að þýðingum nýlega. Fyrsta útgáfa nýs viðmóts kemur út fljótlega, en þar eru tengdir saman textar og myndbönd svo efnið verði þægilegt aflestrar. Efnið verður opið öllum, enda unnið fyrir almannafé. Málnefndin fékk að sjá hið nýja viðmót: https://mms.is/namsefni?title=&level=All&category=All&type=924&year=All&sort_by=title&view_as=on. Þessu verkefni fylgir ekki sérstakt fjármagn frá ráðuneytinu.

Einnig var rætt um eldra efni á táknmáli sem margt er óvirkt í dag og tengist það því að við uppsetningu þess var notað forrit sem er úrelt í dag. Var þetta haft í huga við hönnun þessa nýja viðmóts og lögð áhersla á að afurðin, þ.e. bókin, geti fylgt tækniframförum. Einnig var rætt um fleira eldra efni sem Námsgagnastofnun gaf út fyrr á árum, þar á meðal námsbók um menningu og sögu heyrnarlausra, Daufir duga. Fulltrúar MMS fengu strax eftir fundinn sendar nánari upplýsingar um þessa bók frá Málnefndinni og var hún komin inn á vef stofnunarinnar örstuttu síðar sem rafbók: https://vefir.mms.is/flettibaekur/namsefni/daufir_duga/.

Nefndarmenn voru ánægðir með fundinn með MMS og viðbrögð við honum.

Fundur með Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Guðjón Bragason og Svandís Ingimundarsdóttir, komu á fund Málnefndarinnar í júníbyrjun. Farið var yfir ýmis mál er varðar táknmál, skólagöngu, aðgengi heyrnarlausra og heyrnarskertra barna að þjónustu, reglugerðir, lagasetningar er tengjast málaflokknum og fleira. Til undirbúnings fundinum hafði Málnefndin leitað til Hlíðaskóla, Sólborgar og SHH með ábendingar til að koma á framfæri. Þar komu m.a. fram punktar um skólagöngu barna sem nýta sér ÍTM almennt, skort á táknmálstalandi kennurum, námsefni o.fl. Var fulltrúum SÍS m.a. bent á að hér á árum áður, þegar Heyrnleysingjaskólinn var í Leynimýri, var skólaskylda fyrir þennan hóp frá 4 ára aldri til að veita þeim forskot á ýmsa þætti m.a. læsi. Nú er skólaskyldan frá 6 ára aldri. Rætt var um tilurð þessarar breytingar sem fulltrúar SÍS höfðu ekki gert sér grein fyrir áður. Rætt var um hlutverk Hlíðaskóla sem ráðgjafaskóla á landsvísu fyrir þennan hóp, en fram kom að í framhaldi af því að starfsmaður í Hlíðaskóla sem sinnti þeim málum hætti störfum vegna aldurs hafði Hlíðaskóli ekki fjármagn til að halda því stöðugildi úti lengur. Fram kom að það mætti m.a. rekja til þess að ekki er samstaða um hver á að borga það stöðugildi.

Skýrsla framkvæmdanefndar um málefni heyrnarlausra frá 2009 var rædd og voru allir fundarmenn sammála um að nú væri tími til kominn til að draga hana fram á ný. Frá þeim tíma sem undirbúningshópur vann skýrsluna er búið að samþykkja ÍTM sem fyrsta mál þeirra sem það nýta til náms og daglegra samskipta. Í þessu samhengi kom skýrt fram þörfin á að búin sé til heildarstefna fyrir þennan hóp nemenda á landsvísu. Fulltrúar SÍS ítrekuðu að þau geti lagt lið á því sviði auk þess sem þau lögðu áherslu á samstarf við Málnefndina um að skoða lagasetningu um viðurkenningu íslenska táknmálsins og fjármunum sem hefðu verið eyrnarmerktir í kostnaðar- framkvæmdaáætlun til að hrinda lagasetningunni í framkvæmd. Hvöttu fulltrúar SÍS til samvinnu ráðuneyta og stofnanna hvað þetta varðar.

Nefndarmenn voru mjög ánægðir með þennan fund og munu leggja kapp á að fylgja málum frekar eftir næsta haust.

Dagur íslenska táknmálsins

Málþing:

Í tilefni af degi íslenska táknmálsins, 11. febrúar 2019, stóð málnefnd um íslenskt táknmál að málþingi í samvinnu við Rannsóknarstofu í táknmálsfræðum við Háskóla Íslands. Yfirskrift málþingsins var „Íslenskt táknmál: Fortíð, nútíð, framtíð“. Markmiðið var að huga að uppruna ÍTM, stöðu þess sem minnihlutamáls í breyttum heimi og því hver framtíð þess verður. Málþingið fór fram í Veröld – húsi Vigdísar Finnbogadóttur kl. 16:30-18:00. Valgerður Stefánsdóttir fyrrum forstöðumaður SHH og Dr. Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor í íslensku við HÍ héldu erindi. Valgerður fjallaði um uppruna málsamfélas ÍTM og sagði frá viðtölum sem hún hefur tekið við fólk af eldri kynslóðum. Sigríður fjallaði um íslensku og íslenskt táknmál í ölduróti samtímans, um áhrif snjalltækjanotkunar á máltöku barna, áhrif ensku á málnotkun barna og rannsóknir sínar þar að lútandi.

Forseti Íslands brást vel við beiðni málnefndarinnar um að setja málþingið og flutti hann opnunarávarp sem má finna hér: https://www.forseti.is/media/4619/2019_02_11_islenskt_taknmal.pdf. Boð var sent til frú Vigdísar Finnbogadóttur, sem heiðraði athöfnina með nærveru sinni, allra ráðherra og alþingismanna og auk þess á þær stofnanir sem Málnefndin hefur verið í samstarfi við eins og Menntamálstofnun og RÚV. Fjöldi manns sótti málþingið og má áætla að gestir hafi verið á bilinu 80-90.

Málþingið fór fram á íslensku táknmáli og íslensku og var túlkað milli þessara tveggja mála. Kallað var eftir innslögum úr samfélagi döff og bárust þrjú, frá leikskólanum Sólborg, Félagi heyrnarlausra og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Formaður málnefndarinnar, fór með hugleiðingu í lok þings og kynnti nýtt logo málnefndarinnar áður en hún sleit þinginu. Að þingi loknu bauð málnefndin upp á kaffiveitingar í opnu rými í Veröld. (Dagskrá málþingsins má sjá í viðauka.)

Á Málþinginu var nýtt lógó Málnefndarinnar kynnt. Fyrir valinu varð merki þar sem sýnt er á sjónrænan hátt að Málnefndin hefur að markmiði að halda utan um og vernda ÍTM, en ÍTM stendur fyrir íslenskt táknmál. Stafirnir ÍTM eru gerðir með íslenska fingrastafrófinu. Er nú einnig unnið að hönnun bókamerkis með fingrastafrófinu og nokkrum táknum.

Aðrir dagskrárliðir tengdir 11. febrúar:

Það var ánægjulegt hversu dagurinn var áberandi og honum vel tekið í þjóðfélaginu. Fjölmiðlaumfjöllun var þó nokkur og má þar á meðal nefna aðkomu RÚV sem, eins og útvarpsstjóri orðaði það sjálfur, gaf íslenska táknmálinu 360° athygli þennan dag. Sem dæmi má nefna að nokkur viðtöl voru við meðlimi málnefndarinnar í sjónvarpi og á báðum rásum útvarpsins, KrakkaRúv var með túlkaða þætti, auk þess sem frétta- og Facebooksíður RÚV birtu pistla og upplýsingar um táknmál.

Ýmsar aðrar stofnanir minntust dagsins á sinn hátt. Sem dæmi má nefna að Þjóðskjalasafn Íslands staðfesti móttöku fyrsta hluta vörsluútgáfu Myndbandasafns SHH þennan dag og tilkynnti það á Facebooksíðu sinni undir yfirskriftinni „Til hamingju með Dag íslenska táknmálsins!“ Þar kom einnig fram að myndböndin „eru heimild um íslenska táknmálið og eru þess vegna mikilvæg menningarverðmæti“. Gerðarsafn bauð einnig upp á leiðsögn á táknmáli um sýninguna Ó, hve hljótt. Í samvinnu við Vísindavef HÍ voru tvö ný svör birt á vefnum þennan dag, sjá https://www.visindavefur.is/svar.php?id=77123 og https://www.visindavefur.is/svar.php?id=77098. Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, heimsótti SHH þann 11. febrúar og voru fulltrúar Málnefndarinnar boðaðir á SHH af því tilefni.

Í samstarfi við Café Lingua var boðað til „táknmálskaffis“ þann 7. febrúar í Borgarbókasafni Grófinni þar sem Elsa G. Björnsdóttir fjallaði um íslenskt táknmál. Viðburðurinn var mjög vel sóttur og lýstu forsvarsmenn Café Lingua yfir áhuga á að halda þessu samstarfi áfram. Sjá má auglýsingu fyrir viðburðinn hér: https://www.borgarbokasafn.is/vidburdir/fraedsla-spjall-og-umraedur-welcome/cafe-linguataknmal-thu-hefur-thad-i-hendi-ther.

Málnefndin hefur lengi reynt að koma deginum 11. febrúar inn á almenn og opinber dagatöl og var fyrsta skrefið tekið í þá átt þar sem Ísafold hefur nú merkt daginn á þeim dagatölum sem þeir gefa út.

NTN

Nordisk tegnsprog netværk (NTN) er samstarfsvettvangur norrænna málnefnda um táknmál, rekinn undir Norrænu ráðherranefndinni. Þar er skipst á upplýsingum, verkefni hverrar nefndar eru kynnt og staða málnefndanna og táknmáls í hverju landi rædd. Grænland og Færeyjar eru einnig með í samstarfinu þótt þar séu ekki starfandi málnefndir. Finnar skera sig úr hópum vegna þess að þar eru tvö táknmál, finnsk-sænskt táknmál og finnskt táknmál. Árið 2019 gegnir Ísland formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og um leið fer Málnefnd um íslenskt táknmál með formennsku í NTN.

Á þessu starsfsári voru þrír fundir haldinn, í Færeyjum í ágúst 2018, Svíþjóð í desember 2018 og í Reykjavík í febrúar 2019. Aðaláherslan var lögð á aðgengi barna og unglinga að táknmáli, bæði hvað varðar lög og reglugerðir, en einnig framkvæmd þeirra. Síðasta haust fékk NTN góðan styrk fyrir næstu 3 starfsár og vilyrði fyrir tveimur árum í viðbót. Vinnufundur var haldinn í Stokkhólmi sem snerist fyrst og fremst um hvernig NTN ætti að nýta styrkinn. Ákveðið var að tengja hann aðgengi barna og unglinga að táknmáli og ræði við fræðimann frá Oslo Metropolitan University, Patrick Kermit, um það málefni. Hann hafði þá nýlega lokið við rannsókn á stöðu heyrnarskerta nemenda í almennum skólum.

Á fundinum sem var haldinn á Íslandi í febrúar var þetta mál rætt enn frekar, en um leið voru haldnir samráðsfundir með DNR (Dövas nordiska råd) um stöðu táknmálsins á Norðurlöndum og hvernig kortleggja mætti betur hlutverk NTN og DNR. Patrik Kermit hélt þar fyrirlestur, ásamt Stefan Hardonk frá Háskóla Íslands, um stöðu heyrnarlausra barna í skólakerfinu. Að þessum fundum loknum var ákveðið að ræða við Patrik um hugsanleg rannsóknarefni og niðurstaða var að hann mun stýra verkefninu: “Hvað segja rannsóknir um stöðu táknmálsins meðal Norðulandaþjóða”. Auk Patricks koma fleiri kollegar hans að verkefninu og mun þessi vinna að öllum líkindum taka allt að 18 mánuði og mun því ljúka með útgáfu á skýrslu og kynningu á henni.

Næsti fundur NTN er áætlaður í Ósló í haust.

KrakkaRúv

Í október 2018 var formlega leitað til RÚV um samstarf við KrakkaRúv. Í kjölfar þess var haldinn fundur með Sindra Þórarinssyni og Sigyn Blöndal á RÚV. Rætt var um hvort hægt væri að búa til klassískt efni á táknmáli sem lifir og hægt væri að nota aftur og aftur til fræðslu og ánægju. Málnefnd bauð fram í verkefnið 1,5 millj og auk þess hálfa milljón frá Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra, sem hefur mikinn áhuga á verkefninu og veitti því þennan stuðning eftir að Málnefndin leitaði til félagsins. Félag heyrnarlausra á nú þegar myndefni sem fulltrúi þeirra bauð einnig fram í verkefnið. Fulltrúar KrakkaRúv sögðu stofnunina til í verkefnið, en segja að verkefni sem þetta séu tímafrek. Þeir lýstu yfir ánægju með frumkvæði Málnefndarinnar og að fulltrúar hennar og Félags heyrnarlausra geti verið til ráðgjafar með sérþekkingu sína. Svo fór að Menntamálstofnun kom einnig inn í verkefnið, þáttakendum til mikillar ánægju.

Undirbúningur þessa verkefnis er þegar þessi skýrsla er skrifuð á lokametrunum, en í ágúst 2019 mun það fara formlega af stað. Þá munu fulltrúar Málnefndarinnar og Menntamálastofnunar hittast og leggja lokahönd á undirbúninginn og svo mun KrakkaRúv taka við boltanum og hefja framleiðslu. Miklar væntingar eru til þessa verkefnis af meðlimum Málnefndarinnar.

Annað

Óvissa var með hlutverk ritara málnefndar í upphafi tímabilsins ekki síst þar sem ritari fyrra starfsárs fór í veikindaleyfi og nefndin var ekki með starfsmann um tíma. Í kjölfarið var búin til starfslýsing af Bryndísi Guðmundsdóttur formanni í samráði við Valgerði Stefánsdóttur fyrrverandi formann nefndarinnar. Meðal annars ber ritara MÍT að sjá um fundi, skrá fundargerð, halda utan um öll skjöl og gæta að þau séu vel flokkuð og aðgengileg. Ritari skal sjá um sérverkefni hvers starfstímabils svo sem bréfaskriftir, fundarboð, samskipti SHH, FH og fjölmiðla. Þá ber ritara að sjá um Facebook-síðu MÍT, hafa umsjón með reikningum og fjármálum nefndarinnar og sjá til þess að greiðslur fari fram. Einnig skal hann hafa umsjón með einingum nefndarmanna sem þeir senda inn tvisvar sinnum á ári. Þá er einnig hlutverk ritara að undirbúa með nefndinni 11. febrúar í hvert sinn og vinna að skýrslu MÍT ásamt formanni við lok hvers starfsárs og senda hana á fjölmiðla, opinbera aðila og stofnanir.

Málnefndin kannaði möguleika á því að hafa sérstaka heimasíðu, en kostnaður þótti of mikill. Hins vegar er Málnefndin svo heppin að eiga „stóru systur“, sem er Íslensk málnefnd og sem sannri stóru systur sæmir veitti Íslensk málnefnd Málnefndinni aðgengi að heimasíðu sinni, undir flipanum „Íslenskt táknmál“: https://islenskan.is/islenskt-taknmal. Þar má nú sjá almennar upplýsingar um MÍT og skýrslur nefndarinnar.

Greinargerð um kostnað Málnefndarinnar og fyrirhuguð verkefni var send til Menntaog menningarmálaráðuneytisins að beiðni þeirra. Í fjárhagsáætluninni var sérstaklega rætt um túlkakostnaðinn sem fellur á nefndina. Þá er ljóst að ef fulltrúi/ar frá Málnefnd um íslenskt táknmál koma að því að undirbúa málstefnu um íslenskt táknmál þá er nefndin ekki í stakk búin til að koma að greiðslum fyrir þá vinnu.

Í janúar 2019 sendi Málnefndin inn til Allsherjar- og menntamálanefndar umsögn um þingsályktunartillögu um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Þar voru gerðar athugasemdir við nokkra liði tillögunnar, þar sem einna helst var reynt að gæta þess að táknmálið væri nefnt þar sem við á og einnig að líta þyrfti til kennslu í íslensku táknmáli fyrir heyrnarlaus börn. Þá var lögð áhersla á að opinberar heimasíður stuðli að sýnileika ÍTM og að táknmálstúlkun yrði viðtekin við allar opinberar athafnir. Ritari fór fyrir hönd Málnefndarinnar á fund Allsherjar- og menntamálanefndar og rökstuddi athugasemdirnar.

Málnefndin sendi frá sér fyrirspurn vegna ráðningar forstöðumanns SHH í janúar 2019, þar sem bent var á mikilvægi þess að nýr forstöðumaður hefði kunnáttu í og þekkingu á íslenska táknmálinu og sögu þess. Fulltrúi nefndarinnar var boðaður á fund með ráðherra ásamt fleiri hagsmunaaðilum til að ræða þessi mál.

Málnefnd um íslenskt táknmál barst ábending frá Félagi heyrnarlausra um táknmálsfréttir. Haft var samband við Önnu Þráinsdóttur, málfarsráðunaut RÚV og rætt við hana um Táknmálsfréttirnar á RÚV. Rætt var um að þeir sem fréttirnar flytji þyrftu að hafa stuðning við flutning þeirra. Málnefndin telur málið vera mikilvægt þar sem það snýst um aðgengi og sé því réttindamál. Stendur til að reyna að fá Önnu Þráinsdóttur á fund nefndarinnar.

Haft var samband við Mjólkursamsöluna, MS og rætt hvort hægt væri að koma fyrir táknmáli á mjólkurfernum í febrúarmánuði, í sambandi við Dag íslenska táknmálsins. Af því varð ekki í þetta sinn.

Lokaorð

Á þessu starfsári var sérstaklega ánægjulegt að sjá þá viðamiklu umfjöllun og athygli sem dagur íslenska táknmálsins þann 11. febrúar fékk í íslensku samfélagi. Með góðu samstarfi aðila og þeira jákvæðu samskipta sem Málnefndin hefur átt við þær stofnanir og skóla sem hafa heimsótt nefndina síðustu starfsár, auk RÚV, má vænta áframhaldandi stuðnings og athygli. Stöðugt fleiri stofnanir og félagasamtök fá táknmálstúlka til að túlka viðburði og er það vel. Markmiðið er að táknmálið verði stöðugt sýnilegra og að viðhorf samfélagsins sé með þeim hætti að litið sé á táknmálið sem eðlilegan hluta af íslensku málsamfélagi.

Á næsta starfsári verður málum fylgt eftir frá síðasta starfsvetri auk þess sem ný verkefni munu líta dagsins ljós. Í undirbúningi er m.a. að vinna að málstefnu fyrir íslenskt táknmál og munu fulltrúar Málnefndarinnar vafalítið koma að þeirri vinnu.

Reykjavík, júní 2019. Bryndís Guðmundsdóttir

Dagskrá Málþingsins:

ÍSLENSKT TÁKNMÁL: FORTÍÐ, NÚTÍÐ, FRAMTÍÐ

Málþing á degi íslenska táknmálsins 11. febrúar 2019 á vegum Málnefndar um íslenskt táknmál og Rannsóknastofu í táknmálsfræðum við HÍ, haldið í stofu 023 (fyrirlestrarsal) í Veröld, Háskóla Íslands kl. 16:30-18:00. Dagskráin fer fram á íslensku og íslensku táknmáli.

Dagskrá:

Setning: Forseti Íslands, herra Guðni Th. Jóhannesson setur málþingið

Um uppruna og þróun íslenska táknmálsins / Valgerður Stefánsdóttir fyrrum forstöðukona Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra

Börnin og snjalltækin: Íslenska og íslenskt táknmál í ölduróti samtímans / Sigríður Sigurjónsdóttir prófessor í íslensku við Háskóla Íslands

Þinglok: Bryndís Guðmundsdóttir formaður Málnefndar um íslenskt táknmál varpar hulunni af logoi málnefndarinnar og slítur þinginu

Á milli erinda verða sýnd innslög frá samfélagi döff.

Að dagskrá lokinni verður tími fyrir spurningar og samræður yfir kaffiveitingum í boði Málnefndar um íslenskt táknmál.