2021: Skýrsla málnefndar um íslenskt táknmál veturinn 2020-2021

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
Logo Málefndar um ÍTM

STARFSEMI MÁLNEFNDAR UM ÍSLENSKT TÁKNMÁL 2020-2021

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenskt táknmál (MÍT) til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Ráðherra skipar fimm menn til setu í nefndinni til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hagsmunasamtök heyrnarlausra og heyrnarskerta hér á landi og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra velur formann og varaformann.

Hlutverk málnefndar um íslenskt táknmál er að stuðla að eflingu íslensks táknmáls, notkun þess í íslensku þjóðlífi, styrkja stöðu þess og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess. Í þessu felst m.a. að vinna að samræmi í táknanotkun og annarri stöðlun íslensks táknmáls sem tjáningarmiðils eftir því sem eðlilegt þykir og skynsamlegt getur talist. Málnefnd um íslenskt táknmál er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr.

Málnefnd um íslenskt táknmál er þannig skipuð, tímabilið 15. júlí 2020- 14. júlí 2024:

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður

Rannveig Sverrisdóttir, varaformaður

Árni Ingi Jóhannesson

Árný Guðmundsdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Varamenn:

Helga Ingibergsdóttir

Jóhannes Gísli Jónsson

Júlía G. Hreinsdóttir

Sigríður Vala Jóhannsdóttir

Uldis Ozols

Fjármál

Helstu kostnaðarliðir júní 2020 – júní 2021

Seinni hluti árs 2020

Laun starfsmanns (20% starf) 1.146.620

Nefndarlaun 479.698

Launatengd gjöld 85.182

Túlkun (10 tímar) 101.340

Ýmislegt, bankagjöld o.fl 4.842

ALLS GREITT 1.817.682

Framlag ráðuneytis fyrir allt árið 2020 var 3.000.000 kr.

Fyrri hluti árs 2021 (til 01.06.2021)

Laun starfsmanns (10% starf) 407.894

Nefndarlaun 147.618*

Launatengd gjöld 36.429

Túlkun (8 tímar) 81.072

ALLS GREITT 673.013

Framlag ráðuneytis fyrir allt árið 2021 er 3.000.000 kr.

  • Nefndarmenn ákváðu að árið 2021 fengi hver nefndarmaður greiddan 1 tíma fyrir hvern fund en ekki 4 eins og verið hefur, með það að markmiði að vinna upp halla undanfarinna ára.

Fundir og fyrirkomulag:

Á tímabilinu voru haldnir 8 formlegir fundir auk undirbúnings- og vinnufunda með öðrum aðilum. Fundirnir voru ýmist haldnir með fjarfundarbúnaði á netinu vegna samkomutakmarkana, í Félagi heyrnarlausra eða á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH). Fundir eru að alla jafna túlkaðir, en á síðasta fundi starfsársins var enginn túlkur viðstaddur, þar sem allir fundarmenn voru táknmálstalandi. Varamenn eru kallaðir inn eftir þörfum og þess gætt að jafnvægi sé í þátttöku heyrandi og heyrnarlausra fundarmanna, en auk þess voru allir aðal- og aukamenn boðaðir saman á einn fundinn haustið 2020, til þess að allir gætu kynnst starfi nefndarinnar, þar sem um nýja nefndarmenn var að ræða.

Helstu verkefni:

Þau verkefni sem komið hafa á borð nefndarinnar á síðasta starfsári hafa verið margvísleg. Efst á baugi þar var umræða um hvar skrifstofa MÍT ætti að vera skráð. Hún hefur frá upphafi verið á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (SÁM), þrátt fyrir að flestir fundir MÍT hafi verið haldnir á SHH og að m.a. hafi verið haldið utan um fjármál nefndarinnar þar. Dagur íslenska táknmálsins var að vanda mikilvægur í starfi nefndarinnar, auk þess sem aðgengismál af ýmsum toga komu oft upp á borðið. Norræn samvinna var þó nokkur, bæði í sambandi við skýrslu um lagalega stöðu táknmála á Norðurlöndunum og verkefnið TegnTube, sem ætlað er að hvetja döff og heyrnarskert börn og ungmenni á Norðurlöndum fræðast um tungumálin sín.

Þessum verkefnum og fleirum verða gerð betri skil hér á eftir.

Skrifstofa málnefndarinnar

Í lögum nr 61/2011 er tekið fram að skrifstofa málnefndar um íslenskt táknmál sé í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Umræður héldu áfram frá því á síðasta starfsári um hvort skrifstofa MÍT ætti að frekar heima á SHH, þar sem sterk tenging hefur verið við þá stofnun allt frá upphafi. Af því tilefni var forstöðumaður SHH, Kristín Lena Þorvaldsdóttir, boðuð á fund nefndarinnar í nóvember 2020. Hjá henni kom fram að þrátt fyrir að skrifstofa MÍT sé formlega á SÁM þá hafi tengingin milli MÍT og SHH alltaf verið sterk. SHH hefur m.a. alltaf séð um fjármál MÍT, þó það sé ekki í þeirra verkahring og hefur MÍT notað húsakynni SHH og alla aðstöðu þar allt frá upphafi. Auk þess kemur ritari MÍT úr röðum starfsmanna SHH. Einnig var rætt við forstöðumann Stofnun Árna Magnússonar. Þar kom fram að SÁM fær enga fjárstyrki vegna MÍT eða Íslenskrar málnefndar. Enginn samningur er til milli MÍT og SHH, eða milli MÍT og Árnastofnunar.

Litið var svo á að þrjár leiðir væru í boði í sambandi við framtíðar staðsetningu skrifstofu MÍT:

  • ● Færa skrifstofuna á SHH, sem kallar á lagabreytingu.
  • ● Fjárhagur og aðstaða MÍT færist á SÁMÍF.
  • ● SÁMÍF og SHH geri með sér samning, sem ætti að þýða óbreytt ástand fyrir MÍT.

Umræður voru þó nokkrar um málið á nokkrum fundum, um kosti og galla leiðanna þriggja, þ.á.m. um praktísk og fagleg atriði eins og fjármálastjórnun, að starfsmaður málnefndarinnar þurfi að hafa þekkingu á ÍTM, hvað væri í boði á hvorri stofnun fyrir sig og hvort betra væri að dreifa þekkingu á ÍTM á margar stofnanir þjóðfélagsins eða halda henni þétt á færri stöðum. Svo fór að lokum að á fundi MÍT í febrúar voru greidd atkvæði um málið þar sem niðurstaðan var sú að óska eftir því að skrifstofan verði færð á SHH. Eftirfarandi var fært til bókar:

  • „Á fundi Málnefndar um íslenskt táknmál 18. febrúar 2021 var einróma samþykkt að óska eftir því að grein nr. 7 í lögum nr. 61 frá 7. júní 2011 verði breytt, þannig að skrifstofa Málnefndar um íslenskt táknmál verði í Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra.“

Niðurstaðan var send til Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Dagur íslenska táknmálsins

Að vanda stóð MÍT fyrir því að Dagur íslensks táknmáls var í heiðri hafður, en dagurinn var í þetta sinn var litaður af samkomutakmörkunum vegna Covid-19. Ýmsar hugmyndir komu upp um hvernig mætti nýta daginn til að vekja athygli á íslenska táknmálinu, hugmyndir sem nýtast vonandi á næstu árum, en að lokum var ákveðið að biðja málhafa að svara á myndbandi spurningunni „Af hverju nota ég táknmál?“ Alls bárust myndbönd frá 21 málhafa, sem svöruðu spurningunni hver á sinn hátt. Myndböndin voru klippt saman og þýdd og afraksturinn svo birtur á Facebooksíðu MÍT 11. febrúar.

Þrátt fyrir sérstakar aðstæður í þjóðfélaginu tókst að halda Cafe Lingua, þar sem Arnar Ægisson, táknmálskennari á SHH talaði um táknmálskennslu á netinu, en skipulagið var að vanda í höndum Borgarbókasafns.

Dagurinn var mjög sýnilegur á netinu eins og örfá dæmi hér fyrir neðan sýna:

  • - MÍT birti myndbandið „Af hverju nota ég táknmál?“ og stóð fyrir kosningu á tákni ársins 2020 á Facebook, fyrir valinu varð COVID-19.
  • - Birt var viðtal sem formaður MÍT tók við annan höfund bókarinnar „Blokkin á heimsenda“, Arndísi Þórarinsdóttur, auk þess sem birt var grein eftir formanninn á visir.is
  • - SHH birti á heimasíðu sinni fyrirlestra fagstjóra sinna og greinar á SignWiki.
  • - Félag heyrnarlausra birti „Afmælis-Táknmálsstund Félags heyrnarlausra“.
  • - RÚV sinnti deginum á ýmsan hátt: Tekið var viðtal við Önnu Sigríði Þráinsdóttur málfarsráðunaut og umsjónarmann aðgengismála RÚV í morgunútvarpinu. Landinn var með innslag þar sem m.a. voru tekin viðtöl við döff og kvöldfréttir og KrakkaRúv voru túlkuð þennan dag.
  • - Háskóli Íslands vakti einnig athygli á deginum, t.d. á Vísindavefnum og með birtingu VV-sagna nemenda í táknmálsfræði.

Sem fyrr segir var almenn ánægja með sýnileika dagsins, en rætt var að hafa mætti meiri aðdraganda að deginum með birtingu á efni dagana eða vikurnar á undan í stað þess að birta það allt samdægurs.

Til stóð að dreifa bókamerkjum til allra nemenda í 3. bekk á Íslandi, eins og gert hafði verið á síðasta starfsári, en ekki var hægt að fá dreifingu á vegum Menntamálastofnunar á þessum árstíma. Dreifing frá þeim í alla skóla landsins er eingöngu á haustin og því verður bókamerkjunum dreift næsta haust til þeirra sem þá verða í 3. og 4. bekk. Menntamálaráðherra sendi hins vegar bréf að undirlagi MÍT í alla skóla landsins þar sem minnt var á daginn.

Aðgengismál

Málfarsráðunautur RÚV, Anna Sigríður Þráinsdóttir, kom á fund MÍT í mars 2021 til að ræða aðgengismál. Nýr útvarpsstjóri leggur áherslu á að RÚV sé fyrir alla landsmenn og er Anna Sigríður m.a. í vinnuhópi innan RÚV sem vinnur að aðgengisstefnu stofnunarinnar. Stefnuna á að leggja fram í maí, en hún tekur á þremur meginflokkum:

  • a. Aðgengi að miðlum, litið til þess að RÚV gegnir mikilvægu öryggishlutverki.
  • b. Ferlismál
  • c. Sýnileiki, t.d. að táknmál og málhafar séu sýnilegir

Vinnuhópurinn óskaði eftir að MÍT komi með sínar hugmyndir til nefndarinnar og eftir fundinn voru nokkrar athugasemdir sendar. Þær náðu m.a. til táknmálsfrétta og túlkaðra kvöldfrétta og sýnileika ÍTM bæði í útsendingum og í sarpinum.

MÍT var bent á að til er Málræktarsjóður, en megin markmið hans er að beita sér fyrir og styðja hvers konar starfsemi til eflingar íslenskri tungu og varðveislu hennar. Sjóðurinn er því eyrnarmerktur íslensku. Fáir sjóðir eru hins vegar í boði fyrir rannsóknir á ÍTM og enginn sambærilegur við Málræktarsjóðinn. Því var sent bréf til Mennta- og menningarmálaráðherra, þar sem stungið var upp á að annað hvort verði skipulagsskrá Málræktarsjóðs breytt þannig að inn í hana sé einnig bætt íslensku táknmáli, eða að stofnaður verði sérstakur og sambærilegur sjóður fyrir ÍTM. Einnig var bréf sent til Rannís og hvatt til þess að hlutverk sjóðanna þar og reglur þeirra verði skýrðar, á þann hátt að jafnræði eigi sér stað milli íTM og íslensku.

Stór hluti af fjárframlagi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til MÍT fer í að greiða túlkakostnað, bæði á eigin fundum og þegar nefndarmenn hafa sótt fundi og viðburði utan þeirra fyrir hönd nefndarinnar. Þennan kostnað telur málnefndin að hún eigi ekki að þurfa að greiða af föstu framlagi Mennta- og menningarmálaráðuneytisins til nefndarinnar, heldur eigi hann að vera utan þess. Ber málnefndin sig þar saman við Íslenska málnefnd sem ekki þarf að standa straum af sambærilegum kostnaði. Hér er því um að ræða mismunun vegna tungumáls, mismunun sem ætti ekki að eiga sér stað, vegna þess að íslensk táknmál og íslensk tunga eiga að vera jafnrétthá, sbr. lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Málnefndin sendi því bréf til ráðuneytisins þar sem óskað var eftir því að umræddur kostnaður verði greiddur sérstaklega af MMR, en falli ekki undir almenn útgjöld málnefndarinnar.

NTN – Norræn samvinna

Á undanförnu starfsári hafa tvö verkefni verið í gangi á vegum NTN, Nordiska teckenspråksnätverket. Verið er að kanna lagalega stöðu táknmála á Norðurlöndunum. Í því samhengi fékk MÍT sendan langan spurningalista um stöðuna á Íslandi. Ákveðið var að biðja lögfræðing Félags heyrnarlausra að svara honum. Verið er að vinna úr svörum frá öllum löndunum og setja saman í eina skýrslu. Almenn ánægja er innan NTN með að þessi rannsókn sé í gangi og gæti hún nýst vel til framtíðar.

TegnTube er verkefni sem stýrt er af NTN, en markmið þess er að döff og heyrnarskert börn og ungmenni á Norðurlöndum fái tækifæri til að tjá sig og fræðast um tungumálin sín. Þrjú börn frá Íslandi tóku þátt í verkefninu. Haldnar voru vinnustofur, rafrænar vegna aðstæðna, þar sem þátttakendur fengu m.a. innsýn í táknmál á Norðurlöndum, sögu táknmálsins, skólana á Norðurlöndum, döff áhrifavalda, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fleira. Þátttakendur settu efni á eigin táknmáli inn á Instagram og vakti það mikla athygli. Þeir munu svo vinna með sitt eigið táknmál og setja efni um það inn á sérstaka heimasíðu um táknmálin á Norðurlöndunum. Síðan á að fara í loftið í sumar og á vera jafnt fræðandi og til gamans. Eins og svo margt annað litaðist þetta verkefni af Covid-19, en vinnustofurnar gengu vel þrátt fyrir krefjandi aðstæður.

Annað

Athugasemd var send til Menntamálastofnunar þar sem bent var á að í Hæfniramma í íslensku fyrir fjöltyngd börn er hvergi minnst á ÍTM, né þau börn sem það mál tala. Bent á að hægt væri að búa til sambærilegt skjal sem er sérstaklega unnið út frá táknmálstalandi börnum (döff börnum sem eiga heyrandi foreldra eða eru af erlendum uppruna og heyrandi börnum sem eiga íslenska og/eða erlenda táknmálstalandi foreldra), eða bæta við skjalið kafla um ÍTM og láta það heita: Hæfnirammar í íslensku og ÍTM fyrir fjöltyngd börn. Minnt var á að SHH gæti veitt ráðgjöf í þessu máli.

Starfshópur, sem skipaður var sérstaklega af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að skrifa málstefnu ÍTM hefur lokið störfum, en tveir meðlimir hópsins komu úr röðum nefndarmanna MÍT. Vonast er til að málstefnan verði tekin fyrir á haustþingi.

Verið er að vinna upp halla á rekstri síðustu ára og er kostnaður því í lágmarki þetta starfsárið, þ.e. eingöngu þóknun vegna fundasetu, túlkanir á fundum og laun ritara. Nú þegar hefur starfshlutfall ritara verið minnkað niður í 10% þar sem að reynsla undanfarinna starfsára bendir til að það starfshlutfall henti betur. Einnig var samþykkt að árið 2021 mun hver fundur verða metinn hjá nefndarmönnum sem 1 eining í stað 4. Ekki er gert ráð fyrir neinum öðrum útgjöldum árið 2021.

Vorið 2021 eru 10 ár frá því lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls voru samþykkt. Ákveðið var að minnast þess með stuttum pallborðsumræðum á netinu, 27.maí, þar sem áhorfendur fengu tækifæri til að hlýða á sjónarhorn ýmissa hagsmunaaðila ÍTM um hvernig lög nr. 61/2011 hafa reynst. Þátttakendur komu frá SHH, FH og HÍ.

Lokaorð

Nú er góður tími til að líta yfir liðið starfsár Málnefndar um íslenskt táknmál.

Heimsfaraldurinn á liðnu ári og mánuðum hefur verið erfiður og íslenska þjóðfélagið lagði sig fram um að gera sitt besta, ríkisstjórnin og Almannavarnir hafa boðið reglulega til blaða- og upplýsingafunda ásamt því að RÚV hafði um tíma táknmálstúlkaðar kvöldfréttir. Þjóðin fékk að sjá táknmálstúlka á skjánum og hefur það haft góð áhrif á vitundarvakningu um íslenska táknmálið. Í ár fögnum við því að tíu ár séu liðin frá því að Alþingi samþykkti frumvarp til laga nr. 61/2011 og af því tilefni var litið yfir farinn veg frá ýmsum bæjardyrum. Þegar litið er yfir farinn veg má sjá að það er ærin ástæða fyrir stjórnvöld og sveitarfélög að bretta upp ermar og láta verkin tala, lög nr. 61/2011 eru fín í orði en ekki á borði og það hafa síðustu tíu árin sýnt okkur. Nú stendur yfir vinna við að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og er þar ein breytingartillaga um að setja íslenskt táknmál í stjórnarskrána eins og íslenska tungu. Ef það fær góðan meðbyr hjá ríkisvaldinu mun það efla og styrkja stöðu íslenska táknmálsins og er það von mín að þegar núverandi málnefnd lýkur störfum sínum 2024 getum við með stolti sagt að íslenskt táknmál sé í stjórnarskránni ásamt íslenskri tungu.

Reykjavík, 7. júní 2021

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir