2022: Skýrsla málnefndar um íslenskt táknmál veturinn 2021-2022

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
Logo Málefndar um ÍTM

Starfsemi málnefndar um íslenskt táknmál 2021-2022

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar Málnefnd um íslenskt táknmál (MÍT) til fjögurra ára í senn í samræmi við 7. gr. laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Ráðherra skipar fimm menn til setu í nefndinni til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Við skipun nefndarinnar skal haft samráð við Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, hagsmunasamtök heyrnarlausra og heyrnarskerta hér á landi og Samband íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra velur formann og varaformann.

Hlutverk Málnefndar um íslenskt táknmál er að stuðla að eflingu íslensks táknmáls, notkun þess í íslensku þjóðlífi, styrkja stöðu þess og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess. Í þessu felst m.a. að vinna að samræmi í táknanotkun og annarri stöðlun íslensks táknmáls sem tjáningarmiðils eftir því sem eðlilegt þykir og skynsamlegt getur talist. Málnefnd um íslenskt táknmál er ætlað að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál, til að mynda skal leita umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við málnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr.

Málnefnd um íslenskt táknmál er þannig skipuð, tímabilið 15. júlí 2020- 14. júlí 2024:

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, formaður

Rannveig Sverrisdóttir, varaformaður

Árni Ingi Jóhannesson

Árný Guðmundsdóttir

Hjördís Anna Haraldsdóttir

Varamenn:

Helga Ingibergsdóttir

Jóhannes Gísli Jónsson

Júlía G. Hreinsdóttir

Sigríður Vala Jóhannsdóttir

Uldis Ozols


Fundir og fyrirkomulag

Á tímabilinu voru haldnir 7 formlegir fundir auk undirbúnings- og vinnufunda með öðrum aðilum. Fundirnir voru ýmist haldnir með fjarfundarbúnaði á netinu vegna samkomutakmarkana eða á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH). Allir fundir ársins voru túlkaðir af tveimur túlkum, fyrir utan seinasta fund vorannar sem var túlkalaus. Varamenn voru kallaðir inn eftir þörfum og reynt var að gæta þess að jafnvægi sé í þátttöku heyrandi og heyrnarlausra fundarmanna, í byrjun vorannar bað einn nefndarmanna um frí frá störfum málnefndarinnar vegna anna. Það gekk erfiðlega að finna heyrandi varamann í hennar stað og á tveimur seinustu fundum nefndarinnar voru döff í meirihluta, en það hafði aldrei gerst áður.

Undir lok vorannar 2021 baðst Hólmfríður Þóroddsdóttir lausnar frá sínum hlutverki sem ritari nefndarinnar. Í hennar stað komu Sigurður Jóel Vigfússon og Steinunn Birna Jónsdóttir, til vara, úr röðum SHH og hófu störf eftir sumarfrí nefndarinnar. Málnefnd um íslenskt táknmál þakkar Fríðu fyrir vel unnin störf síðastliðin þrjú ár.


Helstu verkefni

Dagur íslenska táknmálsins skipaði stóran sess í störfum málnefndarinnar að vanda og var ýmislegt á dagskrá. Heimsfaraldur setti þó sinn svip á daginn sem og á störf málnefndar almennt, en reglur um samkomutakmarkanir voru hertar umtalsvert í byrjun árs. Það stóð til að halda röð málstofa og var ýmsum hugmyndum velt upp um möguleg umræðuefni, t.d. um framtíð íslenska táknmálsins og eflingu táknmálsumhverfa. Fundaröðinni þurfti því miður að fresta þangað til í haust vegna aðstæðna.

Norræn samvinna var töluverð á árinu. NTN (Nordiska teckenspråks nätverket) samanstendur af táknmálsnefndum Norðurlandanna og heyrir undir Norrænu ráðherranefndina. Tvö verkefni voru í gangi þetta árið, skýrsla um lagalega stöðu táknmála á Norðurlöndum og TegnTube. Þessum verkefnum og fleirum verða gerð betri skil hér á eftir.

Dagur íslenska táknmálsins

Líkt og hefð er fyrir þann 11. febrúar var Dagur íslenska táknmálsins haldinn hátíðlegur. Dagurinn litaðist þó af aðstæðum í þjóðfélaginu, erfitt reyndist að skipuleggja daginn vegna samkomutakmarkanna, en reglur voru hertar umtalsvert í byrjun ársins. Það náðist þó að halda Café Lingua viðburð í samstarfi við Borgarbókasafnið í Grófinni þann 10. febrúar. Uldis Ozols, táknmálskennari, sagði frá frásagnarhefðinni sem er svo rík í táknmálum og flutti þar sögur af hákörlum, mörgæsum og fuglum á íslensku táknmáli og var almenn ánægja með daginn.

Samtökin ’78 og Málnefnd um íslenskt táknmál tóku saman höndum og stóðu fyrir keppni í táknasmíð fyrir fjögur hinsegin hugtök. Hýryrði hefur verið reglulegur viðburður hjá Samtökunum ’78 þar sem keppst er um að búa til íslensk orð yfir ýmis hinsegin hugtök. Þetta árið var í fyrsta skipti haldið nýyrðasamkeppnin Hýr tákn og var döff samfélagið beðið um að senda inn tillögur að táknum fyrir: Eikynhneigð, kvár, stálp og kynsegin. Táknin og táknasmiðir voru kynnt þann 17. febrúar og fjölluðu fréttamiðlar, t.d. Morgunblaðið, um niðurstöðurnar. Málnefnd stóð fyrir kosningu á tákni ársins 2021. Fimm tillögur bárust nefndinni en ótvíræður sigurvegari var táknið FRAMLÍNUSTARFSFÓLK. Málnefnd tilkynnti það á Facebook síðu sinni á Degi íslenska táknmálsins.

Til stóð að halda röð málstofa í tengslum við daginn til að ræða framtíð íslenska táknmálsins. Aðstæður eru báglegar og tilefni til að hafa áhyggjur, t.d. hvað varðar smæð samfélagsins og málefni heyrnarlausra barna. Markmiðið er að styðja og styrkja ÍTM samfélagið og hvetja alla aðila til að taka ábyrgð. Uppi voru áform um að hafa endurtekna viðburði, e.t.v. einu sinni í mánuði og að byrja í kringum 11. febrúar. Vegna hertra samkomutakmarkanna sem skullu á í ársbyrjun var ákveðið að fresta fundunum þangað til í haust og verður þráðurinn tekinn upp aftur þegar fundir hefjast á ný eftir sumarið.

Síðastliðið haust var bókamerkjum með stafrófi íslenska táknmálsins dreift til nemenda í 3. bekk í öllum grunnskólum landsins eins og hefð hefur verið fyrir, en það verkefni hófst árið 2019. Þá kláraðist lagerinn okkar af bókamerkjum, sem þýðir að málnefndin hefur dreift tæplega 20.000 bókamerkjum til barna landsins.

Málnefnd sendi bréf á ráðuneytin til þess að vekja athygli á degi íslenska táknmálsins í grunnskólum landsins.

Aðgengismál

Túlkun á kvöldfréttum og krakkafréttum RÚV hófst 1. september og almenn ánægja er í samfélaginu. Túlkaðar fréttir, eða aðrar túlkaðar útsendingar, eru þó ekki alltaf í forgangi og hafa ekki verið nægilega sýnilegar inni á heimasíðu RÚV. Bréf þess efnis hefur verið sent á aðgengisfulltrúa RÚV. Við lögðum til að á forsíðu vefs RÚV verði settur hnappur sem beinir heyrnarlausum notendum beint inn á túlkaðar útsendingar og að settur verði upp eins konar táknmáls-sarpur, þar sem má nálgast túlkað efni.

Hæfnirammi fjöltyngdra barna: Nefndinni barst ábending þess efnis að í hæfniramma í íslensku fyrir fjöltyngd börn er ekkert minnst á ÍTM. Málnefnd gerði kröfu til Menntamálastofnunar um að þetta verði lagfært. Í byrjun árs 2022 var fulltrúa nefndarinnar boðið sæti í starfshópi um hæfnirammann. Málnefnd barst erindi þar sem bent var á, að þrátt fyrir að í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011, er eingöngu til sjóður sem ætlað er að efla íslenskar bókmenntir og bókaútgáfu, en ekki sambærilegur sjóður fyrir útgáfu efnis á íslensku táknmáli. Málnefnd sendi Mennta- og menningarmálaráðherra bréf og gerir kröfu um úrbætur, t.d. að stofna sérstakan og sambærilegan sjóð fyrir íslenskt táknmál. Í svari ráðherra segir að skoðað verði hvernig efla megi útgáfu á íslensku táknmálsefni þegar málstefna og aðgerðaráætlun um íslenskt táknmál liggur fyrir.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið skipaði starfshóp árið 2020 til að vinna að málstefnu um íslenskt táknmál. Hópurinn afhenti Lilju Dögg Alfreðsdóttir ráðherra málstefnuna í mars 2021 og í framhaldi af því átti að setja stefnuna í samráðsgátt. Íslenska málnefndin hefur nú birt málstefnuna á heimasíðu sinni og Málnefnd um íslenskt táknmál sendi fyrirspurn til Menningar- og viðskiptaráðuneytis hvort eitthvað sé til fyrirstöðu um að Málnefnd um íslenskt táknmál geri hið sama. Í svari tengiliðs okkar við ráðuneytið kom í ljós að við breytingar á skipulagi ráðuneytanna hafi hægst á sumum málum en að málstefnan væri væntanleg í samráðsgátt sem varð svo úr í lok maí.

Vegna skipulagsbreytinga í Stjórnarráði Íslands síðastliðið haust var óljóst undir hvaða ráðuneyti MÍT tilheyrði. Samkvæmt Forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 125/2021 og Forsetaúrskurði um skiptingu starfa ráðherra nr. 126/2021 áttu SHH og MÍT að heyra undir sitthvoru ráðuneyti. Formaður MÍT og forstöðumaður SHH sendu sameiginlega umsögn þess efnis að málefni SHH, MÍT og íslenska táknmálsins eigi að vera undir sama ráðuneyti. Það fór svo að MÍT, SHH og íslenskt táknmál tilheyra nú menningar- og viðskiptaráðuneyti.

NTN - Norræn samvinna

Norræn málráðstefna var haldin 16. september og var streymt vegna aðstæðna. Formaður sótti viðburðinn. Leena Savolainen kynnti TegnTube verkefnið við góðar viðtökur. Á fundinum kom fram að það sér fram á niðurskurði á sviðum mála og menningar, vegna aukinnar áherslu á loftlagsmál. Rætt var um að tími væri kominn til að endurskoða Norræna tungumálastefnu, en nú eru um 15 ár síðan hún var opinberuð. Táknmálsnefndir Norðurlandanna eru með tengilið inn í Norrænu tungumálastefnuna til þess að gæta hagsmuna táknmálanna. MÍT sendi ásamt málnefndum táknmála á Norðurlöndum umsögn við Norræna tungumálastefnu sem stendur til að gera breytingar á.

Tegntube verkefnið, er vettvangur þar sem norræn börn og ungmenni tala um táknmálin sín, en þau eru mismunandi á milli Norðurlanda. Verkefnið var styrkt af Nordplus og hófst vorið 2021 og lýkur formlega haustið 2022. Á heimasíðunni er hægt að fræðast um táknmálin á Norðurlöndum, kynnast börnum og ungmennum sem segja frá sínu tungumáli. Skolen i Norden höfðu samband og óskuðu eftir að fá að fjalla um TegnTube á heimasíðu sinni þar sem þau telja þetta gott fræðsluefni fyrir grunn- og framhaldsskóla. Hægt er að sjá meira um verkefnið á www.tegntube.com.

NTN skipulagði málþing á netinu um stöðu barna sem reiða sig á táknmál. Samkvæmt Norrænu ráðherranefndinni eiga Norðurlöndin að vera besti staður í heimi fyrir börn en skýrsla NTN sem OsloMet gaf út nýlega sýnir að það er ekki veruleiki döff barna. Til að börnin geti fengið tækifæri til að njóta menntunar og náð félagslegum þroska til jafns við önnur börn þá er mikilvægt að táknmálið sé ríkulegt í umhverfi þeirra. Skóli án aðgreiningar er ekki að vinna með táknmálinu í almenna skólaumhverfinu. Skýrslan sýnir að það þarf að breyta um aðferðir til að tryggja að börnin hafi aðgang að táknmálinu í sínu daglega umhverfi.

NTN var með tvo fundi á tímabilinu, 9.-10. desember á netinu og síðan 18.-20. maí í Osló. Farið var yfir stöðu málnefnda táknmála á Norðurlöndum, unnið með Tegntube og rætt um verkefnaáætlun næstu árin ásamt skýrsluvinnu Richard Sahlin um rétt barna til táknmáls og skýrslu OsloMet um stöðu döff barna á Norðurlöndum. Hægt er að lesa skýrslurnar á heimasíðu NTN nefndarinnar https://nordiskateckensprak.wordpress.com/

Annað

Í ársbyrjun 2018 hófst undirbúningsvinna fyrir teiknimyndaþættina Stórhættulega stafrófið í samstarfi við RÚV. MÍT lagði til 1.5 milljón kr. á móti Foreldra- og styrktarfélagi heyrnardaufra sem lögðu til hálfa milljón kr. Ekkert hefur heyrst af verkefninu og MÍT sendi bréf á RÚV þar sem óskað var upplýsinga stöðu verkefnisins sem átti að ráðast í ársbyrjun 2021.

MÍT hefur lengi barist fyrir því að fá auka fjármagn en nefndin hefur þurft að standa straum af túlkakostnaði á fundum og öðrum viðburðum sem nefndarmenn hafa sótt, en íslensk málnefnd hefur ekki þurft greiða sambærilegan kostnað úr eigin vasa. Hér er því um mismunum að ræða samkvæmt lögum nr. 61/2011. Í september bárust þær fregnir frá menningar- og viðskiptaráðuneyti að auka fjármagn upp á 1 milljón kr. verði veitt fyrir árið 2021 til að kosta túlkun á viðburðum og fundum. MÍT hefur óskað eftir því að auka fjármagn þetta verði áfram veitt.

Á fundi málnefndar 28. apríl var borin upp sú tillaga um að taka lög nr. 61/2011 upp á íslensku táknmáli. Tillagan var samþykkt einróma.

Lokaorð

Starfsárið hjá Málnefnd um íslenskt táknmál hefur verið viðburðaríkt og hafa fulltrúar nefndarinnar lagt sig fram við að rétta úr rekstri málnefndar sem gekk eftir. Skýrslan um aðgengi barna að táknmáli sem unnin var af Richard Sahlin sýnir að aðgengi er mjög mis-jafnt eftir löndum og við eigum enn langt í land til að tryggja aðgengi barna að táknmáli í sínu landi. Skýrslan um stöðu barna og ungmenna á Norðurlöndum gefur okkur líka skýra mynd af því að ríki og sveitarfélög þurfa að breyta um stefnu og aðgerðir til að tryggja að börn njóti menntunnar og nái félagslegum þroska til jafns við jafnaldra sína. Þátttaka MÍT að verkefninu TegnTube hefur verið tímafrekt þar sem málnefndin hefur ekki fastan starfs-mann í fullu starfi eins og tíðkast í málnefndum á hinum Norðurlöndum en mikill sigur er unninn með þátttöku Íslands í þessu verkefni. Heimasíðan mun nýtast vel í fræðslu fyrir börn og ungmenni um táknmálin á Norðurlöndum. Málnefndin fagnar að málstefna íslenska táknmálsins er komin aftur á skrið og vonar nefndin að málstefnan fái góðan stuðn-ing eins og skýrslur sem nefndar hafa verið sýna fram á að grettistak þurfi til að tryggja börnum og ungmennum fullt aðgengi að íslenska táknmálinu.


Reykjavík, 7. júní 2022

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir


Fjármál

Helstu kostnaðarliðir júní 2020 – júní 2021

Seinni hluti árs 2021

Laun starfsmanns (20% starf) 1.064.070

Nefndarlaun 152.633

Launatengd gjöld 26.847

Túlkun (6 tímar) 141.876

Ýmislegt, bankagjöld o.fl 27.235

Skuld 1.141.214

ALLS GREITT 2.553.875

Framlag ráðuneytis fyrir allt árið 2021 var 4.000.000 kr.

Fyrri hluti árs 2022 (til 01.06.2022)

Laun starfsmanns (10% starf) 445.896

Nefndarlaun 432.029

Launatengd gjöld 77.260

Túlkun (6 tímar) 101.340

Ýmislegt, bankagjöld o.fl. 129.355

ALLS GREITT 1.185.880

Framlag ráðuneytis fyrir allt árið 2021 er 3.000.000 kr.

  • Árið 2021 var ákveðið að hver nefndarmaður fengi greiddan einn tíma fyrir hvern fund en ekki fjóra eins og verið hefur, með það að markmiði að vinna upp halla undanfarinna ára. Í byrjun 2022 var málnefndin sammála um það að fjárhagurinn væri betri og væri því rétt að breyta greiðslu eininga aftur úr einni í fjórar.