Að fanga listina - Táknmálssöngur frá sjónarhóli flytjandans
B.A. verkefni Ernu Hrannar Ólafsdóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2021
Ritgerðin „Að fanga listina” var unnin með það fyrir augum að varpa ljósi á það einstaka listform sem söngur á táknmáli er. Íslenskt táknmál var skoðað út frá ljóðrænu sjónarhorni og framkvæmd eigindleg rannsókn þar sem reyndur túlkur og döff söngkona voru fengnar til að þýða sama textann af íslensku lagi og flytja á myndbandsupptöku. Lykiláhersla var lögð á að fá að fylgjast með ferlinu til að fá innsýn í nálgun þeirra á viðfangsefninu og í kjölfarið svöruðu þær spurningum um sína upplifun. Sjónarhornið var flytjandinn sem þarf að mörgu að huga og því vert að velta því fyrir sér hvort þurfi að fylgja ákveðnum reglum. Helstu niðurstöður voru þær að listræna táknmálið er mun frjálsara en hið hefðbundna táknmál sem notað er í daglegu tali. Glíman við textann var krefjandi og þurftu þær sjálfar að setja sér mörk í þýðingunum þar sem fáar reglur voru til að styðjast við. Mikilvægast fannst þeim að koma merkingu höfundar til skila og fallegt var að sjá hvernig flytjendurnir túlkuðu listaverkið með ólíkum hætti. Útkoman byggir í grunninn á bakgrunni beggja og skilgreining á hlutverkum getur einnig haft sitt að segja. Þó margt væri svipað kom helst á óvart hversu útkoman var ólík þrátt fyrir líka nálgun á viðfangsefninu. Þýðingin og flutningurinn er persónubundinn út frá eigin hugmyndum og engin ein leið rétt því þær eru allar réttar. Verðmætin felast í fjölbreytileikanum.
Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Að fanga listina - Táknmálssöngur frá sjónarhóli flytjandans