Atvinnuþátttaka döff á Íslandi. Reynsla og upplifun á stöðu döff hérlendis.

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Viktoríu Rós Magnúsdóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2023

Á Íslandi er fjölmenningarlegt samfélag þar sem fólk af mismunandi uppruna og menningu býr saman í einu samfélagi. Mikilvægt er að heildræn stefna ríki um lög og réttindi döff á atvinnumarkaði á Íslandi sem kemur í veg fyrir fordóma og mismunun gagnvart döff einstaklingum. Móðurmál þeirra er íslenskt táknmál og eru þeir því málminnihlutahópur á Íslandi. Táknmál hlaut lagalega stöðu á Íslandi sem fyrsta mál döff einstaklinga með lagasetningu í júní árið 2011 og er þar með jafnrétthátt íslenskri tungu samkvæmt lögum. Tilgangur/markmið rannsóknarinnar er að kanna hver staða þeirra einstaklinga sem tilheyra döff samfélaginu er á íslenskum vinnumarkaði. Staða döff einstaklinga á atvinnumarkaði hefur lítið verið rannsökuð og því er mikilvægt að afla þekkingar á því hér á landi. Leitast var við að svara eftirfarandi spurningu: „Er erfitt fyrir döff einstaklinga með íslenskt táknmál að móðurmáli að fá vinnu á atvinnumarkaði á Íslandi?“ Notast var við eigindlega rannsóknaraðferð og viðtöl tekin við tvo einstaklinga sem tengjast samfélagi döff á Íslandi á mismunandi hátt. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að döff einstaklingar eiga auðveldara með að fá störf á atvinnumarkaði á Íslandi en í Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum. Mikil vöntun er á túlkun í atvinnulífi sem og táknmálsumhverfi á heyrandi vinnustöðum. Mikil framför hefur verið í menntun og atvinnulífi döff á Íslandi og þátttaka döff einstaklinga á atvinnumarkaði er mikil. Þó er enn mikið þekkingarleysi af hálfu heyrandi einstaklinga hvað varðar getu döff á atvinnumarkaði. Erfitt er fyrir döff að fá vinnu miðað við heyrandi en ef miða á við döff erlendis þá eiga döff einstaklingar auðveldara með að fá vinnu hérlendis en erlendis. Tryggja þarf greiðari leiðir fyrir döff gagnvart vinnu og jafnframt að tryggja jafnrétti á vinnumarkaði.

Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Atvinnuþátttaka döff á Íslandi. Reynsla og upplifun á stöðu döff hérlendis.