Forstöðumaður kveður

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður

Valgerður Stefánsdóttir

„Það tekur að meðaltali þrjátíu ár að slá í gegn,“ er eitt þeirra 511 ráða sem gefið er í bókinni Life’s Little Instruction Book. Nú eftir 28 ár á Samskiptamiðstöð hef ég ákveðið að stíga til hliðar og þakka fyrir mig. Við svona tímamót hugsar maður auðvitað til þess hvort einhver árangur hafi náðst. Höfum við slegið í gegn eða er þetta alveg að koma?

Þegar Samskiptamiðstöðin var stofnuð var vitneskja um starfsemi hennar takmörkuð og þjónusta við ÍTM samfélagið lítil. Þekkingin var fyrst og fremst hjá þeim sem töluðu táknmál en lítil utan samfélags þeirra. Það var því af nógu að taka þegar uppbyggingin hófst. Fræðslu, þekkingu og menntun skorti fyrir táknmálskennara og táknmálstúlka, fyrir kennara Heyrnleysingjaskólans og allt annað starfsfólk sem tengdist börnum og fullorðnum sem töluðu ÍTM.

Það var algjör tilviljun að ég kynntist döff samfélagi og fór að vinna á þessum vettvangi. Þegar ég útskrifaðist úr Kennaraháskólanum vorið 1977 hafði ég, held ég, aldrei hitt döff manneskju. Aðdragandinn var sá að þegar ég fór að leita að vinnu sá ég tvær hlutastöður auglýstar á töflu í skólanum og nokkrar 100% stöður við Heyrnleysingjaskólann. Ég var að leita að fullri vinnu og sótti því um vinnu þar ásamt fjórum öðrum nýútskrifuðum kennurum.

Á þessum tíma byggði kennslan í Heyrnleysingjaskólanum á oralisma og Brandur Jónsson skólastjóri sagði okkur nýju kennurunum að við ættum að einbeita okkur að því að kenna nemendunum íslensku, ekkert annað skipti máli. Ef þeir lærðu íslensku gætu þeir tileinkað sér alla aðra þekkingu í gegnum texta, heyrnartæki og varalestur.

Stafsetningu kenndum við með því að hafa blað fyrir munninum þegar við lásum upp æfingarnar. Líklega hef ég aldrei verið leiðitöm en mér fannst asnalegt að geta ekki átt eðlileg samskipti við nemendur mína og fyrstu árin hafa líklega farið meira í að þeir kenndu mér táknmál en ég kenndi þeim að skrifa íslensku eftir upplestri.

Norræn menningarhátíð, sem haldin var hér á landi árið 1986 varð vendipunktur í málefnum heyrnarlausra á Íslandi. Fyrir hátíðina þurfti Félag heyrnarlausra að kröfu DNR að bjóða fram sjö táknmálstúlka til að vinna á hátíðinni en á þeim tíma voru engir táknmálstúlkar til á landinu og því þurfti að spýta í lófana.

Við Þórey Torfadóttir vorum meðal þeirra sem boðaðar voru í túlkanám félagsins. Á þessum tíma vissi enginn að í íslenska táknmálinu leyndist málfræði hvorki nemendur né kennarar en þarna byrjaði grunur um það að gera vart við sig. Við Þórey komumst yfir málfræði danska táknmálsins eftir Elisabeth Engberg-Pedersen og fórum að reyna að skilja hvað þar stóð meðal annars hugtak eins og „lokalisation“ eða staðsetningar. Þetta námsefni þræluðum við okkur í gegnum með aðstoð Júlíu Hreinsdóttur og Eyrúnar Ólafsdóttur. Ég man hvað það var mikil upplifun að sjá Júlíu fyllast stolti þegar hún gerði sér grein fyrir að í íslensku táknmál væri málfræði.

Við lærðum mikið á menningarhátíðinni og fengum þar skýra vissu um að táknmálsfólk væri bara venjulegt fólk sem talaði annað mál og væri nánast réttlaust og vanvirt í samfélaginu. Upp frá því varð eiginlega ekki aftur snúið.

Ég var ráðin til þess að undirbúa stofnun Samskiptamiðstöðvar þann 1. nóvember 1990 og var í fyrstu eini starfsmaður hennar. Svo voru lög um Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra samþykkt 31.12.1990 og stofnunin tók formlega til starfa. Smám saman bættust fleiri við í hóp starfsmanna. Fyrst voru það táknmálskennararnir Júlía G. Hreinsdóttir í mars og Berglind Stefánsdóttir vorið 1991 og um haustið sama ár kom Þórey Torfadóttir til starfa sem túlkur.

Við fengum 4,5 milljónir til rekstrar fyrir fyrsta árið og vorum til húsa í þrem kennslustofum í Vesturhlíðarskóla. Berglind Stefánsdóttir hefur lýst lífi í döff samfélagi, á þeim tíma sem við vorum að hefja starf, þannig að það væri eins og það ætti sér stað innilokað í glerkúlu. Fólkið sæi það sem fram færi en vissi ekki hvað væri að gerast eða hvers vegna. Hlutverk Samskiptamiðstöðvar ætti að vera að brjóta sprungur í glerið þar til það á endanum molnaði niður.

Ekkert sérfræðinám gat undirbúið starfsmenn fyrir vinnu á stofnuninni. Það þýddi að til hennar réðst bæði fólk með reynslu og kunnáttu á ákveðnu sviði en litla menntun og einnig fólk með menntun en ef til vill ekki með mikla kunnáttu og reynslu. Starfsfólkið þurfti því frá upphafi að vinna náið saman og styðja hvert annað. ÍTM fólk naut aðstoðar íslenskufólks og það naut á móti aðstoðar ÍTM fólks. Vinnan á Samskiptamiðstöð hefur alla tíð snúist um að byggja upp þekkingu og reynslu og gerir ennþá. Starfsfólkið hefur unnið að hagnýtum og fræðilegum rannsóknum, sjálfsnámi, formlegu námi og stöðugu samtali við fólkið sem við þjónum, samstarfi við Félag heyrnarlausra, við Háskóla Íslands og við aðra innlenda og erlenda aðila. Þannig hafa rannsóknir, nám og starfsþróun alla tíð fléttast inn í starfsemi stofnunarinnar og þannig hefur þekking starfsfólks og stofnunar aukist stöðugt.

Verkefni okkar hafa ráðist af þörfum döff hverju sinni en oft líka af styrkleika einstakra starfsmanna. Þarfir ÍTM fólks og þeirra sem við þjónum eru breytilegar því hefur sveigjanleiki og aðlögun að nýjum verkefnum einkennt starfsemina. Þessi veruleiki hefur ásamt öðru mótað Samskiptamiðstöðina.

Skipulagið hefur verið opið og lífrænt og þekking og vald verið dreift um stofnunina. Allir þurfa að vera sveigjanlegir, með sterk tengsl í ýmsar áttir til að vinna að nýjum og fjölbreyttum verkefnum, oft með skömmum fyrirvara. Til þess að vita hvað þarf að gera og hvernig á að nálgast verkefni verður Samskiptamiðstöðin að vera í stöðugu samtali við döff fólk og hlusta. Hún þarf líka að vera í stöðugu samtali við heyrandi fólk og miðla.

Nýskipan í ríkisrekstri sem var í tísku á 20. ártugnum átti illa við okkur þegar við vorum að verða til – stjórnskipan sem einkenndist af reglum, ferlum, stöðlum og mælikvörðum. Á þessum tíma upplifði ég sem stjórnandi þau skilaboð að ríkisstofnanir væru léleg fyrirtæki, ríkisstarfsmenn væru áskrifendur að laununum sínum en einkafyrirtækin væru góð. Við ættum að taka þau okkur til fyrirmyndar. Það gekk hins vegar engan veginn að aðlaga stjórnskipun sem hentar verksmiðjum að þekkingarstofnun þar sem verið er að skapa nýja þekkingu, leyfa henni að blómstra og miðla henni út í samfélagið.

Samskiptamiðstöðin hefur alltaf verið í stöðugri nýsköpun. Hún hefur til dæmis tvisvar fengið verðlaun á því sviði fyrir verkefni sem fólust í því að vinna með einstaklingum utan stofnunarinnar að þróun á hugbúnaði sem hefur verið í fremstu röð í heiminum og verið seldur til annarra landa. Við höfum einnig verið í fararbroddi hvað varðar þjónustu við samfélag ÍTM. Við erum virt fyrir störf okkar langt út fyrir landsteinana og erum eftirsóttir samstarfaðilar í evrópskum og alþjóðlegum verkefnum. Starfið sem við höfum unnið er allt annars eðlis en viðskipti. Auðurinn sem við sköpum og og varðveitum er líka mikilvægari en peningalegur hagnaður.

Gildin okkar virðing, samvinna og frumkvæði eru einkennandi fyrir starf okkar og áhersla okkar er og á að vera á heildarhagsmuni döff fólks í íslensku samfélagi og eflingu þekkingar og reynslu. Allir starfsmenn eru tilbúnir að virða aðra, vinna með þeim og styðja enda vita þeir að þeir þurfa að leita til þeirra síðar. Í stofnuninni er áhugi, kraftur og þor til þess að finna lausnir og stuðla að nýjum leiðum.

Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að vinna með samfélagi fólks sem talar íslenskt táknmál og fá að taka þátt í að opna á milli heima ÍTM og íslensku. Það hefur verið spennandi verkefni og ég hef eignast marga góða vini og samstarfsfélaga á þessum tíma. Það er líka góð tilfinning, nú þegar ég hætti sem forstöðumaður, að vita af öllu því góða fólki sem starfar núna á Samskiptamiðstöð.

Frá því Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra var stofnuð fyrir 28 árum hefur sérhæfð þekking orðið til innan hennar, þjónusta hefur þróast, námsefni orðið til og rannsóknir eru stundaðar. Stofnunin er í nánum tengslum við háskólann og tekur þátt í að mennta sérfræðinga. Nú eru til menntaðir og hæfir málfræðingar, kennarar, túlkar og ráðgjafar. Það þarf að halda áfram á þessu sviði og mennta fleiri kennara, túlka, ráðgjafa og fræðimenn svo hægt sé að efla íslenskt táknmálssamfélag og þjónustu við ÍTM börn og fullorðna.

Hópur sérfræðinga starfar nú á Samskiptamiðstöð af heilindum og eldmóði, einbeittur í því að leysa verkefni stofnunarinnar vel úr hendi. Ef Samskiptamiðstöð á eftir að takast að slá í gegn á næstu árum verður það ykkar verk og byggist á að standa saman vörð um íslenskt tákmál og menningu döff með Félagi heyrnarlausra.

Í sjónmáli eru ótal verkefni og margir færir vegir.

Takk fyrir samveru og samvinnu undanfarin ár og megi framtíðin vera björt.

Vala