Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér?

Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu

Lokaverkefni til MA-gráðu í almennum málvísindum við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir

Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er að gera grein fyrir myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu (ÍTM) í ljósi fræðilegrar umfjöllunar um hv-spurningar í öðrum táknmálum. Fyrri hluti ritgerðarinnar snýr að myndun slíkra spurninga í öðrum táknmálum en hv-spurningar hafa verið vinsælt rannsóknarefni innan táknmálsfræða síðustu ár og uppskriftin að slíkum spurningum virðist vera í stórum dráttum eins á milli táknmála. Ólíkt hv-spurningum í raddmálum innihalda flestar hv-spurningar í táknmálum ekki einungis spurnartákn, sambærileg spurnarorðum, heldur einnig spurnarlátbrigði, sem koma fram í hreyfingu efri hluta líkama og/eða í andliti. Þó eru spurnarlátbrigðin í einhverjum tilvikum valfrjáls og spurnartáknin í öðrum tilvikum ekki til staðar. Þar sem spurnartákn koma fyrir skiptir staða þeirra líka máli fyrir myndun slíkra spurninga en í öllum rannsökuðum táknmálum virðist algengast að sjá spurnarliðinn á setningamörkum. Í setningafræðilegri greiningu á stöðum spurnarliða hafa fræðimenn greint spurnarliði á grunnmynduðum stað og spurnarliði færða með spurnarfærslu til vinstri eða hægri.

Seinni hluti ritgerðarinnar felst í því að lýsa hv-spurningum í íslenska táknmálinu út frá rannsókn á hv-spurningum sem gerð var. Hv-spurningar í ÍTM virðast vera eins myndaðar og hv-spurningar í öðrum táknmálum. Íslenska táknmálið virðist þó hafa tiltölulega mörg spurnartákn miðað við önnur táknmál en svo virðist sem þau séu að minnsta kosti ellefu talsins. Þau látbrigði sem fylgja hv-spurningum í ÍTM svipar mjög til þeirra sem sjást í öðrum vestrænum táknmálum en táknari merkir slíkar spurningar oftast með því að setja augabrúnir niður á meðan hann táknar slíkar spurningar eða hluta þeirra. Þó kemur einnig fyrir í ÍTM að táknari setji augabrúnirnar upp en í einhverjum tilvikum virðist vera hægt að tengja þau látbrigði frekar við tilfinningar heldur en setningagerðina. Í ÍTM koma spurnarliðir oftast fyrir í upphafi eða enda spurninga þótt dæmi séu um að spurnarliður komi fyrir inn í spurningum eða bæði í upphafi og enda spurningar. Setningafræðileg greining á þessum stöðum sýnir að spurnarliðir í ÍTM geti komið fyrir á grunnmynduðum stað en einnig verið færðir með spurnarfærslu. Í gögnunum fundust bæði dæmi sem benda til þess að færsla sé til vinstri, eins og í flestum raddmálum, og einnig einhver dæmi, þó fá, sem benda til færslu til hægri. Þá fundust dæmi um sögn í öðru sæti (V2) með spurnarfærslu til vinstri en engar heimildir eru um slíka færslu í öðrum táknmálum.

Ritgerðin er aðgengileg í heild sinni hér: Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér