Norræn táknmál

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Höfundar: Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og ritari Málnefndar um íslenskt táknmál og Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, málfræðingur og leiðbeinandi á leikskólanum Sólborg. 2014.[1]

Óheimilt að afrita greinina, að hluta til eða í heild, án þess að vitna til þess hvaðan textinn kemur upphaflega. Í heimildaskrá verka skal vitna á eftirfarandi hátt:

Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir. 2014. Norræn táknmál. SignWiki. Sótt [dagur. mánuður ár] af http://signwiki.is/index.php/Norræn_táknmál


Inngangur

Á Norðurlöndunum (Danmörk, Finnland, Ísland, Noregur og Svíþjóð, auk sjálfstjórnarsvæðanna Grænlands, Færeyja og Álandseyja) eru töluð ýmis tungumál, bæði raddmál og táknmál. Talsverð líkindi má finna á milli raddmálanna sem töluð eru á Norðurlöndunum. Norrænu málin danska, færeyska, íslenska, norska og sænska eru öll af norðurgrein frumgermanskra mála og hafa sömu móðurtungu, frumnorrænu. Finnska og grænlenska eru annarra ætta en þó finnast í þeim tökuorð úr frumgermönsku og frumnorrænu auk tökuorða úr Norðurlandamálunum (sjá t.d. Baldur Ragnarsson 1992).

Það eru einnig talsverð líkindi milli táknmála Norðurlandanna en þau eiga annars konar uppruna. Helst ber þar að nefna samgang þjóðanna í tengslum við menntun heyrnarlausra barna á 19. og 20. öldinni en einnig öflugt Norðurlandasamstarf heyrnarlausra allt til dagsins í dag, t.d. í gegnum Norðurlandaráð heyrnarlausra (Dövas Nordiska Råd). Ekki er hægt að rekja málsögu allra táknmála Norðurlandanna til einnar norrænnar móðurtungu, sbr. frumnorrænu, og er skyldleiki norrænu táknmálanna ekki sá sami og skyldleiki norrænu raddmálanna. Líkindi milli norrænna táknmála geta einnig verið af öðrum toga en líkindi finnast milli óskyldra táknmála í heiminum sökum þess að myndun tákna vísar til einhvers sem sést í raunveruleikanum (e. iconicity) (sjá t.d. Rannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir 2014).

Hér að neðan verður fjallað um upphaf kennslu heyrnarlausra barna á Norðurlöndum, uppruna hvers táknmáls Norðurlandanna fyrir sig og stuttlega gerð grein fyrir skyldleika þeirra við önnur norræn táknmál.

Danmörk

Döff málhafar danska táknmálsins eru 4-5.000 (Danske døves landsforbud 2014). Málið hefur ekki fengið lagalega viðurkenningu sem minnihlutamál í Danmörku en þann 1. janúar 2015 taka í gildi lög þar sem kveðið er á um skipun málnefndar fyrir danskt táknmál. Með þeim lögum fær danskt táknmál sömu lagalegu stöðu og danska (Lovtidende A nr. 517/2014). Danskt táknmál er skráð á lista iSLanDS Centre við háskólann í Central Lanchashire yfir táknmál í útrýmingarhættu (International Institute for Sign Languages & Deaf Studies 2014).

Fyrsti kennari heyrnarlausra í Danmörku var Peter Atke Castberg og var fyrsti skólinn stofnaður árið 1807. Uppruni danska táknmálsins er óljós og lítið er vitað um táknmál í Danmörku fyrir stofnun skólans. Bergman og Engberg-Pedersen (2010:76) telja, út frá skrifum Castbergs, að a.m.k. sumir nemenda hans hafi notað einhvers konar kerfi heimatákna, hugsanlega táknmál, áður en þeir komu í skólann. Franski málvísindamaðurinn Henri Wittman (1991) setur danskt táknmál í flokk þeirra mála sem sprottin eru af frönsku táknmáli [2]. Castberg sótti nám í Þýskalandi og Frakklandi til að læra kennsluaðferðir fyrir heyrnarlaus börn og dvaldi hann lengst af í París (Bergman og Engberg-Pedersen 2010:75-76). Vera hans í Frakklandi gæti hafa haft áhrif á það mál sem hann notaði við kennslu í Danmörku en líkindi eru milli orðaforða danska táknmálsins og þess franska í dag (Lewis o.fl. 2014).

Færeyjar og Grænland

Döff málhafar eru á bilinu 30-50 í Færeyjum og um 20 á Grænlandi (Hoyer 2008, Mathæussen og Petrussen 2012 og Dövas Nordiska Råd 2014). Döff börn voru send frá Færeyjum og Grænlandi til náms í Danmörku fram á seinni hluta 20. aldarinnar. Færeysk börn voru send til Danmerkur fram til ársins 1962 en síðan þá hafa börnin fengið menntun í Þórshöfn. Grænlensk börn voru send til Danmerkur til náms á árunum 1957 til 1978 en árið 1978 var fyrsti skóli fyrir heyrnarlaus börn stofnaður í Sisimiut á Grænlandi (Bergman og Engberg-Pedersen 2010:82).

Danskt táknmál er sagt hafa haft mikil áhrif á táknmálin sem töluð eru bæði í Færeyjum og á Grænlandi en að málin hafi þó þróað eigin orðaforða (Bergman og Engberg-Pedersen 2010:82 og Mathæussen og Petrussen 2012). Engin rannsókn hefur verið gerð á skyldleika eða líkindum þessara táknmála en einhverjir málhafar táknmála Færeyja og Grænlands telja málin sjálfstæð.

Noregur

Norskt táknmál hefur ekki fengið lagalega viðurkenningu sem minnihlutamál í Noregi. Árið 2009 samþykkti Stórþingið málstefnu norskra stjórnvalda frá árinu 2008 og þar er lagt til að minnihlutamál í Noregi, þ.m.t. norskt táknmál, verði viðurkennd í norskum lögum. Döff málhafar norska táknmálsins eru um 5.000 talsins (St. meld. nr. 35/2007-2008 og Dagsorden nr. 74/2009). Frá árinu 2011 hefur einn nefndarmanna norsku málnefndarinnar verið til ráðgjafar um norskt táknmál (Språkrådet 2012).

Döff maður að nafni Andreas Christian Møller stofnaði fyrsta skóla fyrir heyrnarlausa í Noregi í Þrándheimi árið 1825. Møller hafði lært hjá Castberg í Danmörku. Í samantekt sinni á sögu norska táknmálsins telur Odd-Inge Schröder (1993) málið eiga sér þrenns konar rætur. Í fyrsta lagi hafi döff Norðmenn átt í samskiptum með táknum fyrir stofnun skólans, í öðru lagi hafi danskt táknmál haft áhrif á málið þegar það var í mótun fyrir tilstuðlan Møllers og í þriðja lagi hafi sænskt táknmál haft áhrif á málið fyrir tilstuðlan sænsks döff kennara við skólann. Wittman (1991) telur norskt táknmál skylt dönsku táknmáli og því setur hann það í flokk þeirra mála sem sprottin eru af frönsku táknmáli.

Svíþjóð

Stærsti hópur döff á öllum Norðurlöndunum býr í Svíþjóð. Döff málhafar sænska táknmálsins eru á bilinu 8.000 til 10.000 talsins (Institutet för språk och folkminnen 2014a). Í lögum nr. 600/2009 er fjallað um minnihlutamál í Svíþjóð en sænskt táknmál er ekki þeirra á meðal. Hins vegar er kveðið á um að stjórnvöldum beri að vernda og efla sænskt táknmál (Språklag nr. 600/2009, 9. gr.). Öll mál sem töluð eru í Svíþjóð eru viðfangsefni sænskrar málnefndar. Þrír nefndarmanna eru til ráðgjafar um sænskt táknmál og sjá um verndun þess og eflingu (Institutet för språk och folkminnen 2014b).

Per Aron Borg stofnaði fyrsta skóla fyrir heyrnarlausa í Svíþjóð í Stokkhólmi árið 1809 og kenndi við skólann. Skólinn er vel þekktur enn í dag undir nafninu Manilla skólinn. Heimildir eru um notkun táknmáls í Svíþjóð frá því um miðja 17. öld en lítið er vitað um uppruna þess. Bergman og Engberg-Pedersen (2010:87) telja, út frá einu óbirtra handrita Borgs, að döff í Svíþjóð hafi átt í samskiptum á táknmáli fyrir stofnun skólans. Wittman (1991) setur sænskt táknmál í flokk þeirra mála sem sprottin eru af bresku táknmáli en óljóst er á hvaða rökum sú flokkun er reist.

Finnland

Döff málhafar finnska táknmálsins eru um 5.000 talsins (Hoyer 2008:5). Döff málhafar Finnlands-sænska táknmálsins eru um 150 og búa þeir meðfram ströndum Finnlands (Finlands Dövas Förbund rf og Forskningscentralen för de inhemska språken 2010). Rétturinn til notkunar táknmáls hefur verið í stjórnarskrá Finnlands síðan árið 1995 (sjá ákvæði um táknmál í Stjórnarskrá Finnlands nr. 731/1999). Nefnd um táknmál í Finnlandi hefur starfað síðan árið 1997 og eru bæði táknmálin sem töluð eru í Finnlandi viðfangsefni þeirrar nefndar. Finnlands-sænska táknmálinu stendur töluverð ógn af finnsku táknmáli og smæð málsamfélagsins. Finnlands-sænska táknmálið er skráð á lista iSLanDS Centre við háskólann í Central Lanchashire yfir táknmál í útrýmingarhættu (International Institute for Sign Languages & Deaf Studies 2014).

Fyrsti kennari heyrnarlausra í Finnlandi var Carl Oscar Malm. Hann sótti Manilla skólann í Svíþjóð ásamt fleiri finnskum börnum og lærði sænskt táknmál. Þegar Malm snéri aftur til Finnlands árið 1846 stofnaði hann fyrsta skóla fyrir heyrnarlausa í Finnlandi í Provoo (Bergman og Engberg-Pedersen 2010:83). Rainò (2004) telur, út frá skrifum Malms og verkum nemanda hans Fritz Hirn, að finnskt táknmál hafi þróast út frá sænska táknmálinu, sem Malm notaði í skólanum. Það eru ekki til nein gögn sem benda til þess að nokkuð annað táknmál eða kerfi heimatákna hafi haft áhrif á táknmálið sem notað var í skólanum. Samanburðarrannsókn Mesch (2006) á orðaforða nútíma sænsks táknmáls og finnsks táknmáls bendir til töluverðra líkinda milli orðasafna málanna en Mesch telur þó skyldleika málanna vera í formi tökutákna fremur en að sænskt táknmál sé móðurtunga finnsks táknmáls. Wittman (1991) telur finnskt táknmál skylt sænsku táknmáli og því setur hann það því í flokk þeirra mála sem sprottin eru af bresku táknmáli. Finnlands-sænskt táknmál er talið skylt bæði finnsku og sænsku táknmáli (sjá t.d. Londen 2004).

Ísland

Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi og hlaut það lagalega viðurkenningu sem minnihlutamál árið 2011 (Lög nr. 61/2011). Döff málhafar eru um 250-300 talsins (Mennta- og menningarmálaráðuneytið 2010) og kveða lögin á um að „íslenskt táknmál [sé] fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra“ (Lög nr. 61/2011, 3. gr.). Í lögunum er einnig kveðið á um skipun Málnefndar um íslenskt táknmál og hefur hún starfað síðan í nóvember 2011. Málnefnd um íslenskt táknmál er óháð Íslenskri málnefnd og í henni sitja fimm aðalmenn og jafnmargir til vara. Helsta hlutverk málnefndarinnar er að „vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi (2. mgr., 7gr.). Frekari upplýsingar um Málnefnd um íslenskt táknmál má finna í greininni Málstýring íslenska táknmálsins. Um hlutverk Málnefndar um íslenskt táknmál og málsamfélags ÍTM hér á SignWiki.

Þar sem Ísland tilheyrði Danmörku fram á miðja 20. öld voru börn send þangað til náms líkt og færeysk og grænlensk börn. Fyrsti skóli fyrir heyrnarlausa á Íslandi var þó stofnaður árið 1867. Stofandi skólans var séra Páll Pálsson. Hann var eitt þeirra barna sem fór til Danmerkur til náms eftir að hann missti heyrnina. Líklegt er að Páll hafi notað tákn úr dönsku táknmáli á fyrstu árum skólans og að íslenskt táknmál hafi sprottið upp í samskiptum hans við nemendur og á milli nemenda. Fram til ársins 1980 höfðu allir skólastjórar skóla fyrir heyrnarlausa á Íslandi numið kennslufræði í Danmörku. Þær kennsluaðferðir sem notaðar voru í Danmörku höfðu því áhrif á þær aðferðir sem notaðar voru við kennslu heyrnarlausra barna á Íslandi. Bæði samanburðarrannsókn Rannveigar Sverrisdóttur og Kristínar Lenu Þorvaldsdóttur (2014) og Aldersson og McEntee-Atalianis (2007) á orðaforða í íslensku táknmáli og dönsku táknmáli sýnir áberandi líkindi milli orðasafna málanna tveggja. Íslenskt táknmál er ekki með í flokkun Wittmann (1991) en þar sem Wittmann setur danskt táknmál í flokk þeirra mála sem sprottin eru af frönsku táknmáli má leiða að því líkur að íslenska táknmálið sé það einnig. Íslenskt táknmál bætist fljótlega á lista iSLanDS Centre við háskólann í Central Lanchashire yfir táknmál í útrýmingarhættu (International Institute for Sign Languages & Deaf Studies 2014).

Samantekt

Táknmál Norðurlandanna eru sex til átta talsins. Þar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á skyldleika færeyska og grænlenska táknmálsins er ekki hægt að skera úr um það hvort þau eru sjálfstæð mál eða mállýskur danska táknmálsins. Ef miðað er við flokkun Wittman (1991) skiptast táknmál Norðurlandanna í tvo flokka, mál sem eiga uppruna sinn að rekja til fransks táknmáls annars vegar og bresks táknmáls hins vegar. Samanburðarrannsóknir norrænna fræðimanna á orðasöfnum Norðurlandatáknmála sýna mikil líkindi milli málanna. Þau líkindi má í öllum tilvikum rekja til áhrifa frá samskiptum þjóðanna vegna kennslu heyrnarlausra barna, ýmist vegna þess að börn voru send til náms á hinum Norðurlöndunum eða vegna þess að kennarar barnanna sóttu sjálfir nám í kennslu heyrnarlausra barna á hinum Norðurlöndunum. Frekari rannsókna á skyldleika táknmála Norðurlandanna er þörf, t.a.m. á orðmyndun, setningargerð og setningarlegu hlutverki látbrigða.


[1] Höfundar vilja koma á framfæri þökkum til Rannveigar Sverrisdóttur, lektors í táknmálsfræði við Háskóla Íslands, fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.

[2] Wittmann (1991) skipaði táknmálum á ákveðin þrep í stigveldi eftir uppruna þeirra út frá málfræðilegum eiginleikum þeirra. Greining Wittmann byggir þó á mismiklum rannsóknum á hverju máli og í tilviki norrænna táknmála getur því verið vafasamt að fullyrða um uppruna þeirra.


Heimildaskrá

Aldersson, Russell R. og Lisa J. McEntee-Atalianis. 2007. A Lexical Comparison of Icelandic Sign Language and Danish Sign Language. BISAL 2:123–158.

Baldur Ragnarsson. 1992. Mál og málsaga. Reykjavík: Mál og menning.

Bergman, Brita og Elisabeth Engberg-Pedersen. 2010. Transmission of sign languages in the Nordic countries. Í Diane Brentari (ritstj.). Sign Languages, 74-94. Cambridge: Cambridge Univeristy Press.

Dagsordern nr. 74/2009, 28. apríl. Sótt þann 15. október 2014 af https://www.stortinget.no/Global/pdf/Referater/Stortinget/2008-2009/s090428.pdf.

Danske døves landsforbud. 2014. Cataloguing Endangered Sign Languages. Preston: International Institute for Sign Languages & Deaf Studies (iSLanDS Centre), University of Central Lancashire. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.uclan.ac.uk/research/explore/projects/sign_languages_in_unesco_atlas_of_world_languages_in_danger.php.

Dövas Nordiska Råd. 2014. Fareo Islands. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.dnr.fi/index.php?id=12.

Finlands Dövas Förbund rf og Forskningscentralen för de inhemska språken. 2010. Språkpolitiskt program för teckenspråken i Finland. Helsinki: Finlands Dövas Förbund rf. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.kl-deaf.fi/File/e64b9e57-040f-4c5a-947b-311855ed854f/Spr%C3%A5kpolitiskt%20program%20f%C3%B6r%20teckenspr%C3%A5ken%20i%20Finland.pdf.

Hoyer, Karin and Kaisa Alanne. 2008. Teckenspråkens och teckenspråkigas ställning i Norden. Sótt þann 15. október 2014 af: http://www.dnr.fi/uploads/files/Teckensprakens_och_teckensprakigas_stallning_i_Norden_1_.pdf.

Lewis, M. Paul, Gary F. Simon og Charles D. Fennig (ritstj.). 2014. Ethnologue: Languages of the World, 17. útg. Dallas, Texas: SIL International. Rafræn útgáfa sótt þann 16. október 2014 á http://www.ethnologue.com/.

Londen, Monica. 2004. Communicational and educational choices for minorities within minorities. The case of the Finland-Swedish Deaf. Rannsóknarskýrsla 193, Háskólinn í Helsinki. Sótt þann 27. október 2014 af: http://www.cultura-sorda.eu/resources/Londen_Communicational_educational_minorities_case_Finland_Swedich_deaf_2004.pdf

Institutet för språk och folkminnen. 2014a. Om svenskt teckenspråk. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.sprakochfolkminnen.se/sprak/minoritetssprak/svenskt-teckensprak/om-svenskt-teckensprak.html.

Institutet för språk och folkminnen. 2014b. Sök personal. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.sprakochfolkminnen.se/om-oss/kontakt/sok-personal.html.

International Institute for Sign Languages & Deaf Studies (iSLanDS Centre). 2014. Cataloguing Endangered Sign Languages. Preston: International Institute for Sign Languages & Deaf Studies, University of Central Langashire. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.uclan.ac.uk/research/explore/projects/sign_languages_in_unesco_atlas_of_world_languages_in_danger.php.

Lovtidende A nr. 517/2014, Lov om ændring af lov om Dansk Sprognævn, 27. maí. Sótt þann 15. október 2014 af: file:///C:/Users/kria/Downloads/AK1029.pdf.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið. 2010. Skýrsla nefndar um lagalega stöðu íslenskrar tungu og táknmálsins. Sótt þann 15. október 2014 af http://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/242/skyrsla_islensk_tunga_2010.pdf?sequence=1.

Mesch, Johanna. 2006. Påminner nationella teckenspråk om varandra? Í Karin Hoyer, Monica Londen og Jan-Ola Östman (ritstj.). Teckenspråk: Sociale och historiska perspektiv, 71-95. Helsinki: Nordica Institutionen för nordiska språk och nordisk litteratur, Helsingfors universitetet.

Rainò, Päivi. 2004. Henkilöviittomien synty ja kehitys suomalaisessa viittomakieliyhteisössä [Uppruni og þróun nafnatákna meðal táknmálsnotenda í Finnlandi]. Háskólinn í Helsinki, doktorsritgerð, Döff fræði í Finnlandi 2. Helsinki: Félag heyrnarlausra.

Rannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir. 2014. Why is the SKY BLUE? On colour signs in Icelandic Sign Language. Í Ulrike Zeshan og Keiko Sagara (ritstj.). Semantic fields in sign languages, (væntanlegt). Berlin: Mouton de Guyter og Nijmegen: Ishara Press.

Schröder, Odd-Inge. 1993. Introduction to the history of Norwegian Sign Language. Í Renate Fischer og Harlan Lane (ritstj.). Looking Back. A reader on the History of Deaf Communities and their Sign Languages, 231-248. Hamburg: Signum Press.

Språklag nr. 600/2009. Sótt þann 15. október 2014 af https://lagen.nu/2009:600.

Språkrådet. 2012. Årsmelding Språkrådet 2012. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.sprakradet.no/Toppmeny/Om-oss/Aarsmeldingar/Arsmelding-Sprakradet-2012/.

St. meld. nr. 35/2007-2008, 27. júní. Mål og mening. Ein heilskapleg norsk språkpolitikk. Sótt þann 16. október 2014 af http://www.regjeringen.no/pages/2090873/PDFS/STM200720080035000DDDPDFS.pdf.

Stjórnarskrá Finnlands nr. 731/1999 með viðbótum til og með 1112/2011, 11 júní. Ensk þýðing. Sótt þann 16. október 2014 af http://www.finlex.fi/en/laki/kaannokset/1999/en19990731.pdf.

Wittmann, Henri. 1991. Classification linguistique des langues signées non vocalement. Revue québécoise de linguistique T&A 10,1:215-88. Sótt þann 15. október 2014 af http://www.nou-la.org/ling/1991a-class.pdf.


Munnlegar heimildir

Mathæussen, Rita og Jakob Petrussen. 2012. Tölvupóstsamskipti Mathæeussen og Petrussen við Valgerði Stefánsdóttur, 15. september.