Saga táknmála
Táknmál eiga sér langa sögu. Þó skortir ritaðar heimildir og er aðalástæðan sennilega sú að félagsleg staða táknmála hefur verið lág og einnig sú að táknmál hafa ekki átt ritmál. Því hafa hvorki heyrandi né heyrnarlausir skrifað um þau fyrr en á síðustu áratugum. Í Evrópu og Bandaríkjunum hafa heyrnarlausir fengið sérkennslu í nokkur hundruð ár. Tímabilið um og eftir miðja 19. öld hefur stundum verið kallað blómaskeið heyrnarlausra. Þá voru víða um heim skólar fyrir heyrnarlausa þar sem skilningur ríkti á mikilvægi þess að nota táknmál í kennslu heyrnarlausra. Móðurskóli þeirrar stefnu var ríkisskólinn í Frakklandi sem stofnaður var af prestinum de l´Epée. Í nokkrum löndum var þó enn áhersla á að heyrnarlausir lærðu að tala og átti sú stefna rætur í þýska skólanum með upphafsmanninum Heinicke. Árið 1880 var svart ár í sögu heyrnarlausra þegar ákveðið var á þingi kennara heyrnarlausra í Mílanó að banna táknmál. Það var ekki fyrr en á seinni hluta 20. aldarinnar sem farið var að viðurkenna táknmál að nýju sem fullgild mál.
Málvísindalegar rannsóknir á táknmáli hófust í kringum árið 1960. Upphafsmaður táknmálsrannsókna í heiminum var Bandaríkjamaðurinn William C. Stokoe. Með rannsóknum sínum sýndi hann fram á það að táknmál eru fullkomin mál en ekki bara tilviljanakenndar hreyfingar eða látbragð. Rannsóknir á táknmálum eru nú orðnar útbreiddar við háskóla víða um heim. Rannsóknir hafa breytt viðhorfum heyrandi fólks til táknmála og aukið virðingu fyrir þeim sem og heyrnarlausum og menningu þeirra. Í dag styðja flestir heyrnarlausir og þau sem vinna að málum þeirra svokallaða tvítyngisstefnu. Tvítyngi merkir að hafa vald á tveimur málum og nota þau í daglegu lífi. Táknmáls - raddmálstvítyngi er sú leið sem farin er núna til þess að uppfylla þarfir heyrnarlauss barns þannig að það geti átt samskipti við foreldra, þroskað vitsmuni, fengið þekkingu um heiminn, átt samskipti við fólk í umhverfi sínu og aðlagast menningu heyrandi og heyrnarlausra.
Sjá einnig hvað er táknmál?