Sagnir í íslenska táknmálinu

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Sagnir í íslenska táknmálinu

Formleg einkenni og málfræðilegar formdeildir

Lokaverkefni til MA-gráðu í íslenskri málfræði við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Kristín Lena Þorvaldsdóttir

Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er að gera grein fyrir sagnakerfi íslenska táknmálsins (ÍTM), bæði í ljósi algildra lögmála sem gilda um tungumál almennt, sem og fræðilegra kenninga og umfjöllunar um önnur táknmál [1].

Í upphafi ritgerðarinnar er gerð grein fyrir rannsóknasögu táknmála, auk sérstakrar umfjöllunar um rannsóknasögu íslenska táknmálsins. Þá er vikið að sögnum í táknmálum og gerð er ítarleg grein fyrir þeim þremur tegundum sagna sem finnast í langflestum táknmálum sem rannsökuð hafa verið til þessa. Þessar þrjár tegundir nefnast venjulegar sagnir (e. plain verbs), áttbeygðar sagnir (e. agreement verbs, indicating verbs) og próformasagnir (e. classifier predicates, depicting verbs).

Seinni hluti ritgerðarinnar snýr að rannsókn á íslenska táknmálinu en sú umfjöllun hefst á almennri umræðu um táknmálssamfélög og gagnasöfnun. Þá er gerð grein fyrir þeim gögnum sem rannsóknin byggir á og hvernig unnið var úr þeim. Rannsóknin miðaði að því að leggja fram grunnlýsingu á venjulegum sögnum og áttbeygðum sögnum í íslenska táknmálinu [2]. Gerð er grein fyrir kerfisbundnum eiginleikum þessara tveggja sagnategunda og þeir bornir saman við þá eiginleika sem þekktir eru bæði í raddmálum og í öðrum táknmálum.

Meginmarkmið þessarar ritgerðar er sú grunnlýsing sem lögð er fram á venjulegum sögnum og áttbeygðum sögnum í íslenska táknmálinu. Þessi rannsókn sýnir að táknmál eru ekki undanskilin algildum lögmálum sem gilda um tungumál almennt. Sagnir í táknmálum eru t.d. byggðar upp af smærri einingum sem bera merkingu, líkt og sagnir raddmála. Sagnir í táknmálum eiga það einnig sameiginlegt með sögnum í raddmálum að þeim má skipta upp í áhrifssagnir og áhrifslausar sagnir og að þær geta falið í sér málfræðilegar formdeildir (e. grammatical categories) líkt og persónu og tölu. Sagnir í íslenska táknmálinu eru sambærilegar sögnum í öðrum táknmálum. Áttbeygðar sagnir í ÍTM fela í sér formdeildirnar persóna, tala og staðsetning en venjulegar sagnir í ÍTM sýna enga þessara formdeilda. Þá fela allar sagnir í sér formdeildirnar hátt, horf og ákefð.

[1] Táknmál eru þau mál heimsins sem tjáð eru með höndum og numin með sjón ólíkt raddmálum sem eru tjáð með röddu og numin með heyrn.

[2] Ástæða þess að hér verður ekki lögð fram grunnlýsing á próformasögnum í ÍTM er að þær hafa ekkert staðlað form.

Ritgerðin er aðgengileg í heild sinni hér: Sagnir í íslenska táknmálinu