Spurnarlátbrigði í íslensku táknmáli

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Höfundur: Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir

Þessi grein er unnin upp úr MA-ritgerð höfundar frá árinu 2012 er kallast Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu. Ritgerðin er eign Háskóla Íslands og höfundar og því óheimilt að afrita textann án þess að vitna til þess hvaðan textinn kemur upphaflega. Í heimildaskrá verka skal vitna á þennan hátt:

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir. 2012. Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu. MA ritgerð í almennum málvísindum. Háskóli Íslands, Reykjavík. [Rafræn útgáfa.] Sótt DD. MM ÁÁÁÁ af http://hdl.handle.net/1946/12835.


Inngangur

Í grunninn eru hv-spurningar eins myndaðar í öllum rannsökuðum táknmálum og þar með talið í íslenska táknmálinu (ÍTM). Flestar þeirra innihalda annars vegar ákveðin spurnartákn og hins vegar ákveðin spurnarlátbrigði þó einhverjar þeirra geti einungis innihaldið spurnartákn eða einungis spurnarlátbrigði. Frekari upplýsingar um spurnartákn í ÍTM má finna hér. Spurnarlátbrigði með hv-spurningum eru ólík eftir táknmálum en þeim svipar þó til hvers annars og íslenska táknmálið er það engin undantekning. Þá eru spurnarlátbrigði með hv-spurningum sem innihalda einnig spurnartákn vanalega valfrjáls í flestum táknmálum en þegar þau eru til staðar er misjafnt eftir táknmálum yfir hverstu stóran hluta setningarinnar þau verða að ná (sjá t.d. Zeshan 2006a).

Hvers konar spurnarlátbrigði?

Algengast er í flestum vestrænum táknmálum, s.s. ameríska táknmálinu (ASL), breska táknmálinu (BSL), flæmska táknmálinu (VGT) og því ástralska (Auslan), að sjá táknara setja í brýrnar þegar hann spyr hv-spurninga þótt dæmi séu einnig um það að táknari lyfti frekar augabrúnunum (sjá t.d. Zeshan 2006a). Þannig virðist þetta einnig vera í ÍTM, þ.e. dæmi eru bæði um að táknari setji í brýrnar og að hann lyfti þeim upp með hv-spurningum, en ekki hefur verið gerð nákvæm athugun á algengi þessa látbrigða með hv-spurningum og því ekki vitað hvort er algengara í ÍTM (sjá Elísu Guðrúnu Brynjólfsdóttur (EGB) 2012).

Johnston og Schembri (2007:201), sem rannsakað hafa Auslan, telja að ástæðan fyrir því að augabrúnir séu settar upp í Auslan sé að í þeim tilvikum sé táknari fyrst og fremst að leita eftir samþykki á einhverju sem hann hefur áður sagt en ekki eftir frekari upplýsingum frá viðmælanda sínum. Í flæmska táknmálinu (VGT) er aftur á móti talið að augabrúnir upp komi til vegna sterkra tilfinninga, þ.e. tilfinningasvipbrigðin hafa áhrif á spurnarlátbrigðin (van Herreweghe og Vermeerbergen 2006:232).

Þær hv-spurningar sem höfundur fann í athugun sinni (EGB 2012) þar sem táknari setti augabrúnir upp en ekki niður virðast allt vera hv-spurningar þar sem spyrill er klárlega að leita eftir frekari upplýsingum frá viðmælanda sínum. Því þykir ólíklegt að ástæðan fyrir augabrúnum upp í ÍTM sé sú sem Johnston og Schembri (2007:201) nefna fyrir Auslan. Við skulum þó skoða eitt dæmi, sem ég fann í rannsókn minni (EGB 2012) á ÍTM þar sem skýring á hegðun augabrúna gæti hugsanlega verið sú sama og Johnston og Schembri (2007:201) nefna en einnig sú að tilfinningar ráði för, eins og van Herreweghe og Vermeerbergen (2006:232) halda fram fyrir VGT.

Dæmið er úr sögunni Elsku mamma (2008) en sagan segir frá litlum strák sem fer í feluleik við mömmu sína þar sem mamman felur sig og strákurinn leitar. Í sögunni táknar táknarinn sömu hv-spurninguna tvisvar, annars vegar með augabrúnum upp og hins vegar með augabrúnum niður. Báðar spurningarnar innihalda einungis spurnartáknið HVAR en merkingin er í raun ʻhvar er mammaʼ. Með fyrri spurningunni í sögunni (tími 01:32) setur táknari augabrúnir upp en með þeirri seinni augabrúnir niður (tími 01:53). Ein leiðin til að útskýra hegðun augabrúnanna væri að segja að í fyrri spurningunni væri strákurinn hissa á því að finna mömmu sína ekki en svo þegar kemur að seinni setningunni er hann (strax) orðinn pirraður á því að finna hana hvergi. Undrunin lætur því táknara setja augabrúnir upp. Það mætti þó jafnvel halda því fram að í báðum spurningunum hafi tilfinningarnar áhrif á spurnarlátbrigðin. Undrunin lætur táknara setja augabrúnir upp en pirringurinn hann setja augabrúnir mjög vel niður. Ástæðan fyrir augabrúnum upp í ÍTM væri því sú sama og í VGT, tilfinningar. Hin leiðin til að útskýra hegðun augabrúnanna væri að segja að fyrri spurningin, sem kemur fyrir mjög snemma í sögunni og táknari setur augabrúnir upp um leið og hann táknar, væri að segja að svona snemma í sögunni sé strákurinn ekki að biðja um svar heldur einungis halda áfram að leita. Síðar í sögunni vill hann frekar fá svar um hvar mamma sín, þ.e. hann vill endilega fara að finna mömmu sína. Ástæðan fyrir augabrúnum upp væri því nær því að vera sú sama og fyrir augabrúnum upp í Auslan, skv. Johnston og Schembri (2007:201), samþykki eða staðhæfing en ekki spurning þar sem leitað er eftir svari.

Í einhverjum táknmálum fylgja frekari látbrigði með hv-spurningum, þ.e. ekki einungis breyting á hæð augabrúna, en í ASL eru augun t.d. einnig pírð og höfðið fært aðeins til hliðar á meðan táknari myndar hv-spurningar (sjá t.d. Valli o.fl. 2005:128 og Liddell 1980:18-23). Í ÍTM fundust dæmi þess að táknari hallaði höfðinu örlítið fram á sama tíma og hann lyfti eða hnykklaði augbrúnirnar samhliða hv-spurningu (sjá t.d. Sagan af Gýpu 2003 (03:53)).


Hvar koma spurnarlátbrigðin?

Spurnarlátbrigði með hv-spurningum eru í flestum rannsökuðum táknmálum vanalega valfrjáls ólíkt þeim spurnarlátbrigðum sem fylgja já/nei-spurningum sem virðast nánast alltaf vera skyldubundin. Ástæðan liggur sennilega í því að látbrigðin eru í flestum táknmálum það eina sem greinir já/nei-spurningar frá fullyrðingum en í hv-spurningum má oftast einnig finna spurnartáknin sem greina slíkar spurningar frá öðrum setningum. Spurnarlátbrigðin í hv-spurningum eru því ekki eins mikilvæg, og þ.a.l. frekar valfrjáls þó til séu táknmál þar sem spurnarlátbrigði virðast ávallt vera skyldubundin, sbr. finnska táknmálið (FinSL) (Savolainen 2006:287 og Zeshan 2006b:40). Niðurstöður athugunar (EGB 2012) á ÍTM sýndu ekki hvort látbrigði með hv-spurningum væru valfrjáls eða skyldubundin í ÍTM þar sem erfitt var að greina spurnarlátbrigði í mörgum gagnanna, vegna gæða myndefnisins. Það að erfitt var að greina spurnarlátbrigðin gæti því bæði bent til þess að þau væru valfrjáls, þ.e. þau eru ekki til staðar, en einnig einungis að myndefnið var ekki nógu gott til greiningar á spurnarlátbrigðum.

Dreifing spurnarlátbrigða, þ.e. yfir hversu stóran hluta setningarinnar þau ná, er misjöfn eftir táknmálum en spurnarlátbrigði geta minnst fylgt spurnartákninu sjálfu og mest allri setningunni (Zeshan 2006b:39). Miðað við þær athuganir sem gerðar hafa verið á hinum ýmsu táknmálum virðast möguleikarnir á dreifingu þó aðallega vera þessir tveir, þ.e. annaðhvort fylgja spurnarlátbrigðin einungis spurnartákninu sjálfu eða ná yfir alla spurnarsetninguna (sjá t.d. Zeshan 2006a). Sum táknmál leyfa aðeins annað, t.d. japanska táknmálið (JSL) en þar fylgja spurnarlátbrigðin ávallt allri setningunni, sbr. (1) (Morgan 2006:104).

Myndspurning1.PNG

Einhver táknmál leyfa síðan báða möguleikana, t.d. nýsjálenska táknmálið (NZSL) en þar verða spurnarlátbrigði ávallt að fylgja spurnartákninu sjálfu en þau geta einnig komið fyrir með allri setningunni, sbr. (2) (McKee 2006:75).

Mynd2spurning.PNG

Engar heimildir fundust um táknmál sem einungis leyfa spurnarlátbrigðum að fylgja spurnartáknunum sjálfum en það útilokar þó ekki að táknmál þar sem slíkt er nauðsynlegt séu til.

Þrátt fyrir að flest táknmál velji á milli þess minnsta eða þess mesta í dreifingu látbrigða eru til táknmál sem leyfa dreifingu þarna á milli, t.d. ítalska táknmálið (LIS). Í LIS þurfa látbrigðin ekki að ná yfir alla setninguna séu þau yfir meira en spurnartákninu sjálfu, þ.e. þau geta náð yfir einungis hluta setningarinnar, sbr. (3) þar sem spurnarlátbrigðin ná yfir sagnliðinn en ekki frumlag setningarinnar (Cecchetto o.fl. 2009:294).

Mynd3spurning.PNG

ÍTM er líkara NZSL en JSL hvað dreifingu varðar, þ.e. í rannsókn höfundar (EGB 2012) fundust bæði dæmi um hv-spurningar þar sem spurnarlátbrigðin fylgdu allri hv-spurningunni og þar sem þau birtust einungis með spurnartákninu sjálfu. Algengara virðist þó vera að þau fylgi allri setningunni en að þau fylgi einungis spurnartákninu sjálfu. Einnig fundust þó dæmi í ÍTM þar sem spurnarlátbrigðin virtust ná yfir meira en einungis spurnartáknið, sbr. LIS, en þó ekki yfir alla setninguna, sbr. (4).

Mynd4spurning.PNG

Í (4a) ná spurnarlátbrigðin yfir sögnina og spurnarfrumlagið en í (4b) er frumlagið í upphafi setningarinnar undanskilið látbrigðunum.


Spurnarlátbrigði en engin spurnartákn

Þrátt fyrir að flestar hv-spurningar í flestum táknmálum innihaldi bæði spurnartákn og spurnarlátbrigði þá er það einnig möguleiki í mörgum táknmálum, t.d. í rússnesku táknmáli (RSL), argentísku táknmáli (LSA) og ASL, að notast í einhverjum tilvikum einungis við spurnarlátbrigðin til að merkja að um hv-spurningu sé að ræða, sbr. dæmi (5) úr ASL.

Mynd5spurning.PNG

Í spurningum án spurnartákna ná látbrigðin þá vanalega yfir alla spurninguna, sbr. (5b) (Zeshan 2006b:42), þó táknmálið leyfi einhverja aðra dreifingu þegar spurnartákn eru til staðar. Slíkar setningar, setningar án spurnartákna, virðast einungis koma fyrir þegar samhengið sem setningin er sögð í er nokkuð skýrt (Zeshan 2004:30).

Samskonar dæmi fann höfundur í athugunum sínum á ÍTM en spurnartákn virðast ekki alltaf vera nauðsynleg í ÍTM, sbr. (6) (EGB 2012). Einungis fundust þó dæmi þar sem spurnarmerkingin er ʻhvaðʼ, þ.e. ef spurnartákn hefði verið til staðar hefði það verið spurnartáknið HVAÐ.

Mynd6spurning.PNG

Ekki er vitað hversu algengt þetta er í ÍTM en í þeim setningum sem skoðaðar voru virðist sem algengara sé að sjá spurnartákn í setningunni heldur en ekki. Áhugavert þykir að í bæði (6c) og (6d) eru það ekki einungis spurnarlátbrigðin sem merkja að um hv-spurningu sé að ræða heldur er munnhreyfing spurnartáknsins mynduð, eins og táknið sé til staðar. Munnhreyfingin kemur þá í flestum tilvikum fyrir rétt á undan munnhreyfingu sagnarinnar, sbr. (6c), eða með munnhreyfingu sagnarinnar, sbr. (6d). Þetta er þó ekkert einsdæmi fyrir ÍTM en t.d. í VGT hafa fundist dæmi þar sem spurnartákn eru ekki táknuð en í staðinn er samsvarandi spurnarorð úr nágrannaraddmáli mótað á vörum táknara, sbr. (7). Skv. Zeshan (2004:31) virðist þessi leið aðallega koma fyrir í vestrænum táknmálum þar sem raddmálstefnan var ríkjandi stefna í kennslu heyrnarlausra.

Mynd7spurning.PNG

Dæmi (7) er þá sambærilegt dæmi (6c) úr ÍTM en í heimildum, eins og t.d. van Herreweghe og Vermeerbergen (2006), fundust engin dæmi eins og (6d) úr ÍTM.

Bæði í dæmi (6c) og (6d) í ÍTM er þó hugsanlegt að spurnartáknið sé í raun að einhverju leyti til staðar en hugsanlegt er að hljóðkerfisleg samlögun hafi orðið á spurnartákninu og sögninni, FINNAST í (6c) og GERA (6d). Handformið í spurnartákninu HVAÐ og í FINNAST er það sama, 5-handform, en samlögunin er hugsanlega þannig að innri hreyfing táknsins HVAÐ færist yfir í táknið FINNAST. Afstaða handa er eins í spurnartákninu HVAÐ og GERA, lófi vísar upp, auk þess sem það er líkamlega auðvelt að fara úr handforminu í HVAÐ, 5-handformi, yfir í handformið í GERA, lokað B-handform.

Á dæmunum (6a), (6b) og (6d) má sjá að látbrigðin virðast fylgja allri setningunni, eins og algengt er í öðrum táknmálum, þegar ekkert spurnartákn er til staðar. Dæmi (6c) er aftur á móti frábrugðið, þ.e. látbrigðin fylgja ekki allri spurningunni. Dæmi (6c) bendir þá kannski til þess að ÍTM sé eitthvað ólíkt öðrum táknmálum hvað varðar dreifingu látbrigða með spurnarsetningum án spurnartákna.

Í sögunni um Búkollu (2003), þaðan sem dæmi (6d) er fengið, má finna annað dæmi sem er alveg eins og dæmi (6d), merkir það sama og er notað í sama tilgangi, en inniheldur spurnartáknið HVAÐ, sjá (8).

Mynd8spurning.PNG

Áhugavert er að sjá að munnhreyfing spurnartáknsins HVAÐ kemur framan við munnhreyfingu sagnarinnar í (6d) þar sem spurnartáknið HVAÐ er ekki táknað en í (8), þar sem spurnartáknið HVAÐ er táknað, kemur það fyrir aftan sögnina og munnhreyfingin sömuleiðis.

Í öllum dæmunum í (6) kæmi spurnartáknið HVAÐ fyrir ef spurnartákn væri til staðar en í ÍTM er einnig að finna dæmi um hv-spurningar þar sem spurnartáknið HVER gæti komið við sögu í merkingunni ʻhversuʼ en algengast er þó að láta spurnarlátbrigðin ein merkja að um hv-spurningu sé að ræða. Táknið ALDUR með hv-spurnarlátbrigðum er eitt slíkt dæmi og merkir þá ʻhversu gamallʼ sjá svipaða umræðu hjá Zeshan 2004:26).

Samantekt

Spurnarlátbrigði fylgja mjög gjarnan hv-spurningum í táknmálum en þó er hægt að mynda hv-spurningar án spurnarlátbrigða, þ.e. þau eru oft og tíðum valfrjáls. Niðurstöður athuguninnar sem gerð var á hv-spurningum í ÍTM (EGB 2012) gat ekki svarað því hvort spurnarlátbrigðin væru valfrjáls eða ekki. Spurnarlátbrigði eru ólík eftir táknmálum en í vestrænum táknmálum, eins og ÍTM, er algengast að sjá táknara setja í brýrnar þegar hann spyr hv-spurninga og fylgja þau látbrigði þá gjarnan annað hvort allri setningunni eða einungis spurnartákninu sjálfu. Reyndar fundust dæmi í ÍTM þar sem spurnarlátbrigðin fylgdu aðeins hluta setningarinnar. Þá er hægt í einhverjum táknmálum, t.d. í ÍTM, að mynda hv-spurningar með spurnarlátbrigðum eingöngu, þ.e. án spurnartákna. Í flestum táknmálum kalla slíkar hv-spurningar á spurnarlátbrigði með allri spurningunni en svo virðist ekki vera raunin í ÍTM. ÍTM virðist því vera að einhverju leyti frábrugðið öðrum táknmálum hvað varðar dreifingu látbrigðanna.


Heimildir

Aarons, Debra. 1994. Aspects of the Syntax of American Sign Language. Doktorsritgerð frá Boston University, Boston.

Búkolla. 2003. Táknari: Elsa Guðbjörg Björnsdóttir. Barnasögur. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Cecchetto, Carlo, Carlo Geraci og Sandro Zucchi. 2009. Another way to mark syntactic dependencies: The case for right-peripheral specifiers in sign languages. Language 85,2:278-319.

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir. 2012. Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu. MA-ritgerð frá Háskóla Íslands, Reykjavík.

Elsku mamma. 2008. Táknari: Elsa Guðbjörg Björnsdóttir. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. Sótt af www.utgafa.shh.is 28. maí 2013. [myndefni]

Geiturnar þrjár. 2003. Táknari: Elsa G. Björnsdóttir. Barnasögur. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Johnston, Trevor og Adam Schembri. 2007. Australian Sign Language (Auslan): An Introduction to Sign Language Linguistics. Cambridge University Press, Cambridge.

Liddell, Scott K. 1980. American Sign Language Syntax. Mouton Publishers, Haag.

McKee, Rachel. 2006. Aspects of interrogatives and negation in New Zealand Sign Language. Interrogative and negative constructions in sign languages, bls. 70-90. Ritstj. U. Zeshan. Ishara Press, Nijmegen.

Mjallhvít. 2003. Táknari: Elsa G. Björnsdóttir. Barnasögur. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Morgan, Michael W. 2006. Interrogatives and negatives in Japanese Sign Language. Interrogative and negative constructions in sign languages, bls. 91-127. Ritstj. U. Zeshan. Ishara Press, Nijmegen.

Petronio, Karen & Diane Lillo-Martin. 1997. WH-movement and the position of Spec-CP: Evidence from American Sign Language. Language 73:18-57.

Sagan af Gýpu. 2003. Táknari Júlía G. Hreinsdóttir. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. Sótt af www.utgafa.shh.is 28. maí 2013. [myndefni]

Savolainen, Leena. 2006. Interrogatives and Negatives in Finnish Sign Language: An Overview. Interrogative and negative constructions in sign languages, bls. 284-302. Ritstj. U. Zeshan. Ishara Press, Nijmegen.

Valli, Clayton, Ceil Lucas, Kristin J. Mulrooney. 2005. Linguistics of American Sign Language: An Introduction. 4. útg. Gallaudet University Press, Washington D.C.

van Herreweghe, Mieke og Myriam Vermeerbergen. 2006. Interrogatives and negatives in Flemish Sign Language. Interrogative and negative constructions in sign languages, bls. 225-256. Ritstj. U. Zeshan. Ishara Press, Nijmegen.

Viðtöl 1-21 tekin upp sumarið 2010 af Árna Inga Jóhannessyni og Steinunni Lovísu Þorvaldsdóttur í húsnæði Félags heyrnarlausra. Óútgefið efni í eigu Háskóla Íslands. [myndefni]

Zeshan, Ulrike. 2004. Interrogative Constructions in Signed Languages: Crosslinguistic Perspectives. Language 80,1:7-39.

Zeshan, Ulrike (ritstj.). 2006a. Interrogative and Negative Constructions in Sign Language. Ishara Press, Nijmegen.

Zeshan, Ulrike. 2006b. Negative and interrogative constructions in sign languages: A case study in sign language typology. Interrogative and negative constructions in sign languages, bls. 28-68. Ritstj. U. Zeshan. Ishara Press, Nijmegen.