Spurnartákn í íslenska táknmálinu

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Höfundur: Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir

Þessi grein er unnin upp úr MA-ritgerð höfundar frá árinu 2012 er kallast Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu. Ritgerðin er eign Háskóla Íslands og höfundar og því óheimilt að afrita textann án þess að vitna til þess hvaðan textinn kemur upphaflega. Í heimildaskrá verka skal vitna á þennan hátt:

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir. 2012. Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu. MA ritgerð í almennum málvísindum. Háskóli Íslands, Reykjavík. [Rafræn útgáfa.] Sótt DD. MM ÁÁÁÁ af http://hdl.handle.net/1946/12835.


Inngangur

Flestar hv-spurningar í öllum rannsökuðum táknmálum innihalda ákveðin spurnartákn en fjöldi spurnartákna er misjafn eftir táknmálum. Í táknmálum eins og því ástralska (Auslan) og því ameríska (ASL) eru spurnartáknin t.a.m. talin vera níu, auk ólíkra afbrigða af einhverjum táknanna, en í indópakistanska táknmálinu (IPSL) er aðeins til eitt spurnartákn (sjá t.d. Fisher 2006 fyrir ASL, Johnston og Schembri 2007 fyrir Auslan og Pfau og Zeshan 2003 fyrir IPSL). Þrátt fyrir að táknaröð í táknmálum sé oft tiltölulega frjáls virðist það skipta miklu máli fyrir myndun hv-spurninga í táknmálum hver staða spurnartáknanna er í spurningunum. Miðað við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á hv-spurningum í ólíkum táknmálum virðist algengast að sjá spurnartákn á setningamörkum, þ.e. í upphafi setningar, í enda setningar eða bæði í upphafi og enda setningar. Það er þó ekki þannig að öll táknmál leyfi allar þessar stöður en leyfilegar stöður eru ólíkar á milli táknmála (Zeshan 2006:63-64).

Svo virðist sem íslenska táknmálið eigi tiltölulega mörg spurnartákn en skv. athugunum höfundar (2012) eru spurnartáknin í ÍTM 13 talsins. Þetta eru ósamsettu spurnartáknin: HVER, HVOR, HVAÐ, HVAR, AF-HVERJU, HVERNIG, HVENÆR, HVER-AF og HVAÐ-SEGIRÐU og samsettu spurnartáknin: Á-HVAÐA-HÁTT, HVERS-KONAR, HVERNIG-ER-HÆGT og Á-HVAÐA-HÁTT-ER-HÆGT. Þá hafa þrjú ósamsettu táknanna, HVAÐ, AF-HVERJU og HVOR, tvö ólík afbrigði og virðist notkun ólíkra afbrigða fara eftir málhöfum en ekki ólíkum notkunarsviðum. Vafi leikur reyndar á hvort telja eigi tvö ósamsettu táknin, HVER-AF og HVAÐ-SEGIRÐU, til spurnartákna en HVER-AF gæti hugsanlega frekar talist sem sérstök fleirtölumynd af spurnartákninu HVER og HVAÐ-SEGIRÐU sem sérstök mynd af sögninni SEGJA o.þ.a.l. ekki sem sérstök spurnartákn. Eins og í öðrum táknmálum er mjög algengt að sjá spurnartáknin í ÍTM á setningamörkum, í upphafi, í enda eða bæði í upphafi og enda spurningar. Allar þessar stöður eru mögulegar í íslenska táknmálinu en það er þó misjafnt eftir spurnartáknum hvar þau geta staðið. Hér verður fjallað um hvert þessara spurnartákna, merkingu þeirra, hlutverk og stöðu í setningum.

Ósamsett spurnartákn í ÍTM

HVER og HVOR

Spurnartáknið HVER er notað ef hópurinn sem verið er að velja úr telur fleiri en tvo en reyndar er í einhverjum tilvikum hægt að nota spurnartáknið HVER þó einungis sé verið að spyrja um annan af tveimur, sbr. HVER VINNA, ef verið er að spyrja um úrslit í t.d. fótboltaleik. Þá getur hugsanlega spilað inn í að hvort lið telur fleiri en einn. Spurnartáknið HVOR er aftur á móti einungis hægt að nota þegar verið er að spyrja um annan af tveimur. HVOR hefur tvö afbrigði í ÍTM og virðist það fara eftir táknurum hvort táknið þeir nota og þá hafa sumir bæði afbrigðin í máli sínu. Svo virðist sem táknin tvö hafi sama notkunarsvið og því verður ekki greint á milli afbrigða í textanum hér í framhaldinu.

Spurnartáknin HVER og HVOR virðist bæði vera hægt að tákna á hlutlausum stað í rýminu, beint fyrir framan táknara en einnig er hægt að beina tákninu í átt að vísimiðum sem gefin hafa verið hólf í rýminu. Spurnartáknin HVER og HVOR táknuð á hlutlausum stað í rýminu geta staðið sérstætt, sbr. (1) og (2), en einnig er hugsanlegt að þau geti staðið hliðstætt með nafnorði, sbr. (3) og (4).


(1) HVER GANGA ÉG EIGA BRÚ ʻHver er að ganga á brúnni minni?ʼ (Geiturnar þrjár 2003, 03:18-03:24)


(2) HVOR BETRA ʻHvort er betra?ʼ (Viðtal nr. 21)


(3) STELPA HVER LESA BÓK ʻHvaða stelpa las bókina?ʼ


(4) HÓPUR-HÓPUR HVOR SIGRA ʻHvor hópurinn vann?ʼ


Hliðstætt með nafnorði virðist merking HVER vera ʻhvaðaʼ en svo virðist sem HVER geti einungis staðið hliðstætt með nafnorðum sem standa fyrir manneskjur. Þannig væri setningin í (5) ótæk.


(5) *JÓN EIGA NAMMI HVER ʻHvaða nammi á Jón?ʼ


Athugið að dæmi eins og dæmi (3) og (4) voru samþykkt af málhöfum í athugun minni (EGB 2012) þó engin slík dæmi hafi fundist í þeim gögnum sem skoðuð voru.

Þegar HVER og HVOR beinast að hólfi vísimiða og nafnorðin eru ekki táknuð í sömu setningu mætti segja að þau standi hliðstætt með hólfunum. Merking HVER í þessum tilvikum er þá alltaf ʻhvaðaʼ. Sé vísimiðunum gefin hólf í rýminu eru spurnartáknin HVER og HVOR alltaf táknað í hólfum vísimiðanna. Ef hópunum í (4) og stelpunni í (3) eru ekki gefin hólf í rýminu stendur HVOR og HVER einungis hliðstætt með nafnorðum en sé hópunum í (4) og stelpunni í (3) aftur á móti gefið hólf í rýminu mætti segja að HVOR og HVER standi í þeim tilvikum bæði hliðstætt með nafnorðum og einnig með hólfum vísimiða.

Algengt er að HVER komi fyrir fremst í setningum í ÍTM, sbr. t.d. (1) hér að ofan. Það hafa þó alveg fundist dæmi um HVER annars vegar í enda setningar, sbr. (6), og hins vegar bæði í upphafi og enda setningar, sbr. (7) (Elísa G. Brynjólfsdóttir 2012).


(6) ÞÚ HVER ʻHver ert þú?ʼ (Rauðhetta 2003, 04:03-04:05)


(7) HVER+(bend-í-átt-að-hurð) BANKA HVER ʻHver er að banka?ʼ/ʻhver er þar?ʼ (Rauðhetta 2003, 05:36-05:41)


Eins og með HVER er algengt að sjá HVOR fremst í setningum í ÍTM, sbr. (8). Athugið að í (8b) er HVOR fremst í aukasetningu.


(8a) HVOR SIGRA ʻHvor vann?ʼ

(8b) ÉG EFAST [HVOR NAMMI VERA BETRI] ʻÉg er í vafa um hvort nammið er betraʼ (Signwiki)


Þegar HVOR stendur hliðstætt með nafnorði virðist það þó bæði geta komið fyrir á undan og eftir því, sbr. (8b) og (4) hér að ofan.


HVER-AF

Í stað þess að vísifingur vísi beint út í rýmið eins og í HVER er vísifingurinn dreginn í lárétta eða bogadregna línu í rýminu í tákninu HVER-AF. Þar sem þessi lárétta eða bogadregna bending virðist vera ein leið til að tjá fleirtölu í ÍTM, t.d. fleirtölu nafnorða, auk þess sem persónufornafn í 2./3. persónu fleirtölu er einnig hægt að tjá á sama hátt, er vel hugsanlegt að líta svo á að hér sé um sérstaka fleirtölumynd táknins HVER að ræða sem einungis sé notuð í merkingunni ʻhver afʼ. Spurnartáknið HVER virðist aftur á móti vera eins í eintölu og fleirtölu, sbr. (9), og því mætti líta svo á að þetta sé ekki fleirtölumynd af tákninu HVER heldur sérstakt spurnartákn (sjá t.d. Zeshan 2006:58).


(9a) Spurning: HVER KOMA ʻHver kom?ʼ Svar: JÓNʻJónʼ

(9b) Spurning: HVER KOMA ʻHverjir komu?ʼ Svar: JÓN SIGGI ANNA ʻJón, Siggi og Annaʼ


Þar að auki virðist HVER-AF einungis koma fyrir hliðstætt, sbr. (10), ólíkt HVER.


(10)HVER-AF KONA MARGIR MESTUR FÍNN ʻHvaða kona er fegurst allra?ʼ (Mjallhvít 2003, 00:42-00:49)


Þar sem HVER-AF virðist einungis koma fyrir hliðstætt en HVER ekki lít ég (EGB 2012) svo á að telja eigi þetta sem sérstakt spurnartákn í ÍTM.


HVAÐ

Spurnartáknið HVAÐ í ÍTM hefur að minnsta kosti tvö afbrigði eins og spurnartáknið HVOR. Ekki er vitað hvort notkunarsvið beggja afbrigðanna sé það sama en það sem hér kemur fram á í það minnsta við um fyrra afbrigðið (5.hf. og tvíhanda), það algengara. Rannsaka þarf betur síðara afbrigðið (vísi-hf.). Fyrra afbrigðið er í grunninn tvíhandatákn en eins og með önnur tvíhandatákn í ÍTM er hægt að tákna það aðeins með annarri hendinni, sé hin höndin upptekin við eitthvað annað, t.d. að halda á kaffibolla. Spurnartáknið getur bæði komið fyrir sérstætt, sjá (11), og hliðstætt með nafnorði í merkingunni ʻhvaðaʼ, sjá (12). Algengara er þó að sjá HVAÐ notað sérstætt. Nafnorðið sem spurnartáknið stendur með getur bæði komið fyrir á undan eða á eftir spurnartákninu, sbr. (12a) og (12b).


(11) HVAÐ FINNAST ÞÚ-TVEIR NÝR BORGARSTJÓRI J-Ó-N G-N-A-R-R FINNAST ÞÚ-TVEIR ʻHvað finnst ykkur um nýja borgarstjórann Jón Gnarr?ʼ (Viðtal nr.3)


(12a) DÝR HVAÐ ʻHvaða dýrum?ʼ (Viðtal nr. 8)

(12b) HVAÐ DÝR ʻHvaða dýrum?ʼ


Spurnartáknið HVAÐ virðist geta staðið bæði með nafnorðum sem standa fyrir dauða hluti og lifandi verur í merkingunni ʻhvaðaʼ, en þó ekki með nafnorðum sem standa fyrir manneskjur, sbr. (13). Spurnartáknið HVER í merkingunni ʻhvaðaʼ væri þá frekar notað í slíkum setningum, sbr. umræðuna í kafla 1.1.


(13) *STELPA HVAÐ KAUPA BÍLL ʻHvaða stelpa keypti bíl?ʼ


Spurnartáknið er þó ekki einungis notað í merkingunni ʻhvaðʼ og ʻhvaðaʼ heldur getur spurnartáknið einnig verið notað í merkingunni ʻhvertʼ, sbr. (14).


(14) ÞÚ FARA HVAÐ ʻHvert ert þú að fara?ʼ


Algengt er að spurnartáknið HVAÐ komi fyrir aftast í setningum. Dæmi fundust um spurnartáknið HVAÐ aftast bæði í beinum og óbeinum spurningum, sbr. (15).


(15a) VIÐ-TVEIR GERA HVAÐ ʻHvað eigum við að gera?ʼ (Búkolla 2003, 03:33-03:36)

(15b) ÞÚ HEITA HVAÐ ʻHvað heitir hvað?ʼ (Sagan af Gýpu 2003, 02:52-02:55)

(15c) U-N-N-U-R UNNUR HÚN VITA HÚN VILJA HVAÐ ʻHún Unnur veit hvað hún villʼ (Ég vil fisk 2008, 00:22-00:33)


Dæmi eru þó einnig um HVAÐ fremst í setningum, sbr. (16).


(16a) HVAÐ FINNST ÞÚ ʻHvað finnst þér?ʼ (Viðtal nr.16)

(16b) HVAÐ VERA ÞJÓÐFRÆÐI ʻHvað er þjóðfræði?ʼ (Viðtal nr. 10)


Þessi staða spurnartáknins HVAÐ, þ.e. fremst í setningum, virðist vera algengari í máli ungra málhafa, málhafa á aldrinum ca. 25-35 ára, heldur en eldri málhafa.


HVAR og HVENÆR

Spurnartáknið HVAR er í grunninn tvíhandatákn en eins og með HVAÐ er einnig hægt að mynda það aðeins með annarri hendinni. Spurnartáknið er ekki einungis notað í merkingunni ʻhvarʼ, sbr. (17a), heldur einnig í merkingunni ʻhvertʼ og ʻhvaðanʼ, sbr. (17b og c). Það er þá í raun samhengið og önnur tákn, eins og t.d. sögnin, sem gefa til kynna hvora merkinguna skuli leggja í táknið hverju sinni.


(17a) ÞÚ BÚA HVAR ʻHvar býrðu?ʼ

(17b) ÞÚ FARA HVAR ʻHvert ert þú að fara?ʼ

(17c) ÞÚ FRÁ HVAR ʻHvaðan kemur þú?ʼ


Þegar spurnartáknið HVAR er notað í merkingunni ʻhvertʼ og ʻhvaðanʼ fylgja þó stundum tákninu bendingar út í rýmið. Ólíkt HVAR kemur spurnartáknið HVENÆR einungis fyrir í merkingunni ʻhvenærʼ. Hvorugt táknið virðist hafa afbrigði.

Spurnartáknið HVAR virðist geta komið fyrir í upphafi spurningar (18a), enda spurningar (18b) og bæði í upphafi og enda (18c).


(18a)HVAR KÆRASTA ʻHvar er kærastan þín?ʼ (Viðtal nr. 3)

(18b)KÆRASTA HVAR ʻHvar er kærastan þín?ʼ (Viðtal nr. 3)

(18c)HVAR FJÁRMÁLAEFTIRLIT HVAR ʻHvar var Fjármálaeftirlitið?ʼ (Viðtal nr. 8)


Algengast er þó að sjá spurnartáknið HVAR í enda spurningar og virðist tvöföldun á spurnartákni, þ.e. að spurnartáknið komi fyrir bæði í upphafi og enda spurningar, vera til áhersluauka. Eins og með spurnartáknið HVAR virðist algengast að sjá spurnartáknið HVENÆR aftast í setningum, sbr. (19).


(19)ÞÚ-TVEIR SUMARFRÍ HVENÆR ʻHvenær farið þið í sumarfrí?ʼ (Viðtal nr.14)


Aðrar stöður eru ekki útilokaðar en í rannsókn minni (EGB 2012) fundust fá dæmi um notkun spurnartáknsins HVENÆR. Þar sem spurnartáknið kom fyrir, kom það ávallt fyrir aftast. Svo virðist sem algengt sé í ÍTM að sjá tímaliði í upphafi setninga og því einstaklega áhugavert að sjá að spurnartákn sem notað er til að spyrja um tíma komi fyrir aftast í hv-spurningum.


AF-HVERJU og HVERNIG

Til eru að minnsta kosti tvö ólík afbrigði af spurnartákninu AF-HVERJU. Fyrra afbrigðið (tvö vísihf.) af AF-HVERJU, algengara afbrigðið, er nánast eins myndað og spurnartáknið HVERNIG en í máli margra er ólík munnhreyfing það eina sem greinir táknin að. Með spurnartákninu AF-HVERJU fylgir munnhreyfingin <af-vú/af hverju> en með tákninu HVERNIG munnhreyfingin <vú>. Aðrir málhafar greina táknin að með ólíkum fjölda hreyfinga í táknunum, þ.e. í AF-HVERJU er hreyfingin endurtekin að minnsta kosti tvisvar sinnum en í HVERNIG er hreyfingin einungis gerð einu sinni. Seinna afbrigðið af AF-HVERJU er samsett tákn úr fyrra afbrigðinu (tvö vísihf.) og spurnartákninu HVAÐ. Notkunarsvið þessara tveggja tákna er það sama og þeir táknarar sem hafa bæði afbrigðin í máli sínu geta því notað þau í sömu aðstæðunum.

Fá dæmi fundust um notkun spurnartáknanna HVERNIG og AF-HVERJU í þeim gögnum sem ég skoðaði í minni rannsókn (EGB 2012) en í þeim sem fundust kemur AF-HVERJU ávallt fyrir í upphafi spurningar, sbr. (20).


(20a)AF-HVERJU VILJA BÚA KANARÍ ʻAf hverju viltu búa á Kanarí?ʼ (Viðtal nr. 18)

(20b)AF-HVERJU HRÆDDUR ʻAf hverju ertu hræddur?ʼ (Viðtal nr. 8)


Þá fann ég (EGB 2012) eitt dæmi þar sem AF-HVERJU kom fyrir bæði fremst og aftast í spurningu, sbr. (21).


(21)AF-HVERJU AKUREYRI AF-HVERJU ʻAf hverju Akureyri?ʼ (Viðtal nr. 6)


Af þeim dæmum sem fundust með spurnartákninu HVERNIG virðist spurnartáknið að minnsta kosti geta komið fyrir í upphafi spurnarsetninga, bæði í beinum spurnarsetningum (22a) og óbeinum spurnarsetningum (22b).


(22a)HVERNIG NÆST 30 ÁR ʻHvernig verða næstu 30 ár?ʼ (Viðtal nr. 5)

(22b)ÉG ÆTLA SMÁ ÚTSKÝRA UM [HVERNIG FLYTJA HEIM ÍSLAND]ʻÉg ætla að segja fyrir ykkur aðeins frá því hvernig var að flytja heim til Íslands (Dýrt að búa 2004, 00:11-00:16)


Spurnartáknið HVERNIG getur verið hluti af stærri lið og í þeim tilvikum virðist spurnarliðurinn hafa tilhneigingu til að koma fyrir í lok setningar, sbr. (23).


(23a)ÞÚ-TVEIR SJÁ FRAMTÍÐ [HVERNIG TÆKNI] ʻHvernig tækni sjáið þið fyrir ykkur í framtíðinni?ʼ (Viðtal nr. 10)

(23b) ÞÚ-TVEIR SJÁ [HVERNIG FRAMTÍÐ]ʻHvernig sjáið þið framtíðina fyrir ykkur?ʼ (Viðtal nr. 2)


Eins og sjá má á (23) kemur spurnartáknið HVERNIG fremst í spurnarliðnum, þ.e. á undan nafnorðinu sem það stendur með.


HVAÐ-SEGIRÐU

Táknið HVAÐ-SEGIRÐU kemur einungis fyrir í merkingunni ʻhvað segirðuʼ og táknið virðist frekar vera notað þegar fólk nær ekki því sem verið var að segja fólk, næstum eins og upphrópunin ha! í íslensku, heldur en þegar það hittist og spyr um líðan hvors annars, sbr. hvað segirðu gott? í íslensku.

Einhverjir myndu líklega ekki telja HVAÐ-SEGIRÐU sem eitt af spurnartáknunum í ÍTM heldur sem sérstaka mynd af tákninu SEGJA. Táknin HVAÐ-SEGIRÐU og SEGJA eru ekki eins mynduð en hægt er að sjá líkindi í myndun táknanna, t.d. sama handform og nánast sama myndunarstað. Af þeirri ástæðu er hugsanlegt að segja þetta sérstaka mynd af tákninu SEGJA. Þar fyrir utan er táknið nánast eins myndað eins og tákn í merkingunni ʻtala (og tala) endalaustʼ en ólík látbrigði og munnhreyfing greina á milli þessara tveggja tákna. Táknari setur í brýrnar um leið og hann táknar HVAÐ-SEGIRÐU en þau látbrigði eru algeng með hv-spurningum í ÍTM sem og í öðrum táknmálum (sjá grein um spurnarlátbrigði).

Ef táknið væri eins myndað og SEGJA eða jafnvel TALA væri hugsanlegt að líta svo á að lábrigðin ein merktu að um hv-spurningu væri að ræða. Hv-spurningar í ÍTM, og fleiri táknmálum, þurfa ekki að innihalda spurnartákn heldur geta látbrigðin ein fylgt táknum og þannig merkt að um hv-spurningu sé að ræða. Þar sem táknið aftur á móti er ekki eins myndað og táknin SEGJA og TALA vill höfundur (EGB 2012) telja þetta með spurnartáknum í ÍTM.


Samsett spurnartákn í ÍTM

Spurnartáknin HVERS-KONAR, Á-HVAÐA-HÁTT, HVERNIG-ER-HÆGT og Á-HVAÐA-HÁTT-ER-HÆGT eru samsett spurnartákn í ÍTM. Þau eru öll samsett úr spurnartákninu HVERNIG og öðru tákni. Spurnartáknið HVERS-KONAR er samsett úr HVERNIG og tákninu EINKENNI, spurnartáknið Á-HVAÐA-HÁTT er samsett úr HVERNIG og tákninu VINNA/SIGRA og spurnartáknið HVERNIG-ER-HÆGT er samsett úr HVERNIG og tákninu GETA. Þá má segja að táknið Á-HVAÐA-HÁTT-ER-HÆGT sé samsett úr spurnartákninu HVERNIG, tákninu VINNA/SIGRA og tákninu GETA eða hreinlega úr spurnartákninu Á-HVAÐA-HÁTT og GETA. Merking þessara tákna er a.m.k. sú sem kemur fram í glósun táknanna en hvort táknin geti merkt eitthvað allt annað verður að rannsaka nánar. Þrátt fyrir að íslensk samsvörun þessa tákna í dæmunum hér fyrir neðan sé í einhverjum tilvikum einungis spurnarorðið hvernig væri ekki hægt að notast einungis við spurnartáknið HVERNIG í þessum setningum heldur verður að notast við þessi samsettu tákn.

Einhverjar hljóðkerfislegar breytingar verða á táknunum í samsetningunni. Hjá einhverjum málhöfum þar sem táknið HVERNIG hefur endurtekna hreyfingu verður hreyfingin aðeins ein í samsetningunni en engar breytingar verða á hinum táknunum. Þessi breyting á HVERNIG í samsetningunni eru ástæðan fyrir því að ég (EGB 2012) geri ráð fyrir að þessi spurnartákn séu samsett spurnartákn en slíkar breytingar sjást ekki ef um tvö aðgreind tákn er að ræða. Einnig virðast málhafar líta á þetta sem sérstök spurnartákn en þeir t.d. telja þessi tákn sérstaklega upp séu þeir beðnir að telja upp spurnartákn í ÍTM.

Hvað varðar stöðu þessara samsettu spurnartákna virðist spurnartáknið HVERS-KONAR að minnsta kosti geta komið fyrir aftast í spurningum, sbr. (24a) og spurnartáknin Á-HVAÐA-HÁTT, HVERNIG-ER-HÆGT og Á-HVAÐA-HÁTT-ER-HÆGT að minnsta kosti fremst, sbr. (24b-d). Þar sem dæmin voru ekki fleiri um þessi fjögur samsettu spurnartákn er ekki hægt að segja til um það hvort þetta sé eini mögulegi staðurinn fyrir þau eða hvort fleiri stöður séu mögulegar.


(24a)ÞÚ REIÐUR HVERS-KONARʻHvernig ert þú þegar þú ert reiður?ʼ (Þegar ég er reiður 2009, 09:39-09:46)

(24b)Á-HVAÐA-HÁTT VIÐ-TVEIR TILBAKA STRÁKUR ʻHvernig fáum við strákinn tilbaka?ʼ (Átján barna 2003, 03:06-03:10)

(24c)HVERNIG-ER-HÆGT KENNA ʻHvernig kennir maður?ʼ

(24d)Á-HVAÐA-HÁTT-ER-HÆGT FLJÚGA-GEIMFAR MARS ʻHvernig í ósköpunum er hægt að fljúga geimfari til Mars?ʼ


Athugið að dæmi (24c) og (24d) fundust ekki í gögnunum sem skoðuð voru heldur voru fengin úr samtölum við málhafa. Spurnartáknin, HVERNIG-ER-HÆGT og Á-HVAÐA-HÁTT-ER-HÆGT, virðast vera notuð til að spyrja sams konar spurninga en einhver áherslumunur virðist vera á þeim eins og sést á þýðingunum. Á-HVAÐA-HÁTT-ER-HÆGT er t.d. frekar notað ef spyrja á um eitthvað sem fólk er undrandi á en HVERNIG-ER-HÆGT ef spyrja á um eitthvað sem vekur ekki eins mikla undrun.


Samantekt

Hér hefur verið dregin upp mynd af notkun og stöðu 13 spurnartákna í ÍTM, allra þeirra spurnartákna sem talin eru spurnartákn í ÍTM (EGB 2012). Sum hver, t.d. HVER og HVAÐ, eru algengari í notkun og því er meira vitað um þau heldur en önnur, t.d. samsettu spurnartáknin. Þá verður að hafa í huga að sú staða spurnartákna sem rædd hefur verið hér miðast við þá stöðu sem spurnartáknin hafa fundist á en gögnin segja einungis til um mögulega stöðu en ekki ómögulega. Myndin sem hér hefur verið dregin upp er að mörgu leyti sú sama og höfundur dró upp í meistararitgerð sinni en þó má í einhverjum tilvikum finna þar frekari upplýsingar um hvert spurnartáknanna.


Heimildir

Átján barna faðir í álfheimum. 2003. Táknari: Sólrún Birna Snæbjörnsdóttir. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. Sótt af www.utgafa.shh.is 28. maí 2013. [myndefni]

Búkolla. 2003. Táknari: Elsa Guðbjörg Björnsdóttir. Barnasögur. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Dýrt að búa á Íslandi. 2004. Táknari: Anna Jóna Lárusdóttir. 10 sögur. Námsefni í

Færninámskeiði I (nú TÁK102G). Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir. 2012. Hvað gerðir þú við peningana sem frúin í Hamborg gaf þér? Myndun hv-spurninga í íslenska táknmálinu. MA-ritgerð frá Háskóla Íslands, Reykjavík. Hægt að skoða hér: http://skemman.is/handle/1946/12835

Ég vil fisk. 2008. Táknari: Kolbrún Völkudóttir. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. Sótt af www.utgafa.shh.is 28. maí 2013. [myndefni]

Fisher, Susan D. 2006. Questions and negation in American Sign Language. Interrogative and negative constructions in sign languages, bls. 165-197. Ritstj. U. Zeshan. Ishara Press, Nijmegen.

Geiturnar þrjár. 2003. Táknari: Elsa G. Björnsdóttir. Barnasögur. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Johnston, Trevor og Adam Schembri. 2007. Australian Sign Language (Auslan): An Introduction to Sign Language Linguistics. Cambridge University Press, Cambridge.

Mjallhvít. 2003. Táknari: Elsa G. Björnsdóttir. Barnasögur. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Pfau, Roland og Ulrike Zeshan. 2003. Wh-movement and wh-split in Indo-Pakistani Sign Language. Erindi flutt á South Asian Language Analysis Roundtable (SALA 23). Austin Texas 11. október.

Rauðhetta. 2003. Táknari: Elsa G. Björnsdóttir. Barnasögur. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. [myndefni]

Sagan af Gýpu. 2003. Táknari Júlía G. Hreinsdóttir. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. Sótt af www.utgafa.shh.is 28. maí 2013. [myndefni]

Viðtöl 1-21 tekin upp sumarið 2010 af Árna Inga Jóhannessyni og Steinunni Lovísu Þorvaldsdóttur í húsnæði Félags heyrnarlausra. Óútgefið efni í eigu Háskóla Íslands. [myndefni]

Zeshan, Ulrike. 2006. Negative and interrogative constructions in sign languages: A case study in sign language typology. Interrogative and negative constructions in sign languages, bls. 28-68. Ritstj. U. Zeshan. Ishara Press, Nijmegen.

Þegar ég er reiður. 2009. Táknari: Elsa G. Björnsdóttir. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Reykjavík. Óútgefið efni í eigu SHH. [myndefni]