Táknmál bjóða upp á margt sem raddmál gera ekki
Döff samfélagið er ekki útópía. Það býður þeim sem vilja taka þátt í því upp á annað tungumál, aðra menningu og félagslíf.
Sarah Klenbort
Þegar fólk sér mig og dóttur mína tala saman á táknmáli úti á götu stoppar það mig oft og segir: „Þú veist að það er til nokkuð sem heitir kuðungsígræðsla.“ Eins og þær upplýsingar gætu hafa farið framhjá móður döff barns.
Eða það bendir á fyrirmyndir: „ég hitti heyrnarlausa konu frá Queensland þegar ég var í fríi á Fiji, hún var með heyrnartæki og hún er ofsalega góður pípari, ég meina það, alveg svakalega góður.“
Þar sem núna er vika döff vitundarvakningar, þá finnst mér upplagt tækifæri að tala um eðli ástralska táknmálsins, Auslan, og döff samfélagið. Einungis eru fjögur ár frá því ég byrjaði að læra Auslan, en ég hef bætt miklu við mig frá því ég mætti á fyrsta námskeiðið.
Ég var nefnilega eins og þið. Ég hélt að táknmálið fylgi málfræði raddmálsins. Og ég hélt að það væri bara til eitt táknmál – sama táknmálið um allan heim. Ef ég hefði hugsað um það í augnablik hefði ég samt áttað mig á því að þessar hugmyndir útiloka í raun hvor aðra.
Ég tók því líka sem gefnu að allir döff vildu frekar vera heyrandi.
Döff samfélagið er ekki útópía. En það býður þeim sem vilja taka þátt í því upp á annað tungumál, aðra menningu og félagslíf. Það er margt sem táknmál bjóða upp á sem raddmál gera ekki. Því er hér listi sem sýnir á hvaða hátt sjónræn tungumál standa raddmálum framar:
10. Þú getur átt í flóknum samræðum á háværum skemmtistað eða bar, á meðan fólkið í kringum þig öskrar inn í eyru hvers annars í tilraun til að koma til skila einföldum skilaboðum á borð við „ég þarf á klósettið.“
9. Sjónræn tungumál eru aðgengilegri, fyrir þá sem eru heyrnarlausir, en líka (fræðilega) fyrir þá sem eru með skerta heyrn eða 1 Ástrala af hverjum 6.
8. Þú getur staðið úti á svölum á fjórðu hæð og beðið sambýlinginn, sem stendur niðri á bílastæði, að grípa póstinn með upp, án þess að trufla alla nágrannana.
7. Hægt er að tala saman neðansjávar.
6. Sögur sem eru sagðar á sjónrænu tungumáli eru meira grípandi og nákvæmari en þær sem eru sagðar á raddmáli. Þar sem táknmál eru sjónræn og nýta rýmið henta þau sérstaklega vel til að segja frá rými og hreyfingum.
5. Hægt er að tala saman í gegnum bílrúður. Það er einfalt að gefa táknmálstalandi vini leiðbeiningar hvort sem hann ekur á undan eða eftir þér.
4. Sýnt hefur verið fram á að döff fólk er margtyngdara. Breski vísinda- og fræðimaðurinn Sabaji Panda stýrði heillandi rannsókn þar sem niðurstöður sýndu að ef tveir döff einstaklingar sem ekki eiga sameiginlegt tungumál eru settir í sama herbergið er það einungis tímaspursmál hvenær þeir finna leið til að eiga í samskiptum (ímyndið ykkur að gera þessa rannsókn með heyrandi fólki). Þar sem táknmál eiga sér stutta sögu, deila þau oft ákveðnum málfræðiatriðum sem þýðir að jafnvel þó einstaklingarnir eigi engan sameiginlegan orðaforða, tekur það stuttan tíma að finna leið til að eiga í samskiptum.
3. Hægt er að gagnrýna ömurlegan fyrirlestur/sýningu/upplestur án þess að nokkur áheyrendanna heyri í þér.
2. Ólíkt Esperanto, tungumálinu sem tókst ekki að verða alþjóðlegt, þá hefur Alþjóðleg táknun (IS) skapað sér sess í gegnum samfélagsmiðla. Döff fólk lærir oft og notar IS þegar það ferðast, notar Skype, og/eða flytur fyrirlestra á alþjóðlegum ráðstefnum og uppákomum.
1. Táknmál, oft kallað „náttúrulegt tungumál heyrnarlausra“, veitir döff fólki jákvæða sjálfsmynd og félagslega samkennd.
Ég get ekki talað fyrir döff samfélagið – ég er ekki döff – en ég get deilt með ykkur því sem ég hef lært í gegnum reynslu dóttur minnar. Hún talar skýrri röddu, en hún heyrir ekki vel. Hún elskar Auslan og er stolt af sinni döff sjálfsmynd. Það sem hana skortir mun meira en heyrn er sú staðreynd að hún á ekki marga jafnaldra sem hún getur spjallað við á táknmáli; meirihluti döff barna í Ástralíu hefur engan aðgang að Auslan.
Auslan er hvorki kennt í opinberum skólum né í notað í snemmtækri íhlutun. Meira en 95% döff barna eiga heyrandi foreldra, sem læknar og talmeinafræðingar ráðleggja oft að tákna ekki – þeir halda því fram að það muni tefja þroska raddmálsins, þrátt fyrir að rannsóknir hafi sýnt fram á hið gagnstæða. Sex ára dóttir mín sannaði þetta í talkeppni í síðasta mánuði. Það er viðeigandi að enda á orðum hennar.
Myndlistarkennari dóttur minnar bað hana um daginn að mála mynd af því sem henni þætti vænst um í fari sjálfrar sín. „Hvað var það?“ spurði ég.
„Að ég er döff!“ sagði hún, eins og ég væri heimsk. „Ég málaði mynd af mér að tala táknmál.“
Sarah Klenbort býr í Sidney ásamt velskum eiginmanni og áströlskum börnum. Hún kennir bókmenntir við Háskólann í vestur Sidney og er rithöfundur. Einnig býður hún heyrandi foreldrum döff barna sem vilja læra Auslan upp á samveru.
Greinin birtist fyrst á síðu the Guardian Signed languages can do so many things spoken languages can't