Táknmálsmunnhreyfingar í íslensku táknmáli: Flokkun og greining

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Jónu Kristínar Erlendsdóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2020

Í þessari ritgerð er tilraun gerð til að flokka og greina 28 táknmálsmunnhreyfingar í íslensku táknmáli (ÍTM). Markmið ritgerðarinnar er tvíþætt: (1) Auka skilning táknmálsfræðinema og annarra áhugamanna á táknmálsmunnhreyfingum, svo þeir geti nýtt sér þá þekkingu í eigin táknun. (2) Athuga hvort hægt sé að nýta flokkunarkerfi úr öðru táknmáli til að flokka munnhreyfingar íslenska táknmálsins. Fjallað er um látbrigði í táknmálum, þ.e. þeir þættir táknmálsins sem ekki eru myndaðir með höndum, heldur líkamsstöðu, öxlum, höfði og andliti. Þá er fjallað nánar um munnhreyfingar, en þær skiptast í raddmálsmunnhreyfingar (RMM) og táknmálsmunnhreyfingar (TMM). Ýmis skráningar- og flokkunarkerfi fyrir munnhreyfingar eru skoðuð og kostir þeirra og gallar taldir upp. Þá er rætt um skráningu munnhreyfinganna og val á kerfi og rök færð fyrir valinu. Munnhreyfingarnar eru settar upp í töflu sem sýna ritunarhátt þeirra, sem byggist á íslensku, hljóðritun og flokkinn sem þær tilheyra. Í greiningu er farið yfir hverja og eina munnhreyfingu og reynt er að færa rök fyrir flokkuninni. Að síðustu er rætt um hvernig hún gekk, hversu hentug hún þykir fyrir ÍTM og hvort þörf sé á fleiri flokkum. Við rannsóknina kom í ljós að enn er mörgu ósvarað um eðli, tilgang og gerð táknmálsmunnhreyfinga í ÍTM, svo fróðlegt væri að kanna ýmsar hliðar þeirra nánar.


Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Táknmálsmunnhreyfingar í íslensku táknmáli: Flokkun og greining