Táknmálstúlkur í mynd
Árný Guðmundsdóttir, fagstjóri táknmálstúlkunar á SHH
Táknmálsútgáfa
Snemma í janúar 2021 gerði Árný Guðmundsdóttir fagstjóri táknmálstúlkunar á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) könnun á upplifun táknmálstúlka SHH af því að túlka fyrir framan myndavélar. Með túlkun fyrir framan myndavélar var s.s. átt við túlkun í gegnum síma, tölvu, í stúdíói, á vegum RÚV, á fundum Almannavarna og Landlæknis. Könnunin var send til 15 starfsmanna SHH sem hafa það að aðal- eða hlutastarfi að sinna táknmálstúlkun. 13 svör bárust, sem er um 86% svarhlutfall í nafnlausri könnun.
Starfsreynsla þessara 13 táknmálstúlka er mislöng, allt frá 0-3 árum upp í meira en 17 ár.
Ástæða þess að könnunin var gerð var mikil aukning í beiðnum um túlkun í gegnum myndavélar og fjarfundabúnað vegna Covid-19 og þeirra samkomutakmarkana sem fylgdu. Fram að mars 2020 hafði ekki mikið verið túlkað á þennan hátt, fyrir utan upptökur vegna heimasíðna, einstaka fundum var streymt og umræðufundir á RÚV kvöldið fyrir kosningar hafa verið túlkaðir, auk aukafréttatíma vegna hamfara eða veðurviðvarana. Frá haustinu 2019 hafði verið í gangi tilraunaverkefni um fjartúlkun á Samskiptamiðstöð, þar sem táknmálstalandi einstaklingar gátu pantað tíma þar sem túlkur væri við tölvu til að túlka við ýmsar aðstæður, en það gekk hægt að koma þessu formi þjónustunnar inn í almenn verkefni. Myndsímatúlkun hefur þó verið sinnt í yfir 10 ár á SHH en það verkefni hefur að mestu leyti verið á herðum tveggja túlka sem hafa aðsetur utan höfuðborgarsvæðisins. Því þótti kjörið að safna saman upplýsingum um þessar breyttu aðstæður sem táknmálstúlkar á SHH búa við þessi dægrin og skrá niður sameiginlega reynslu, gera má þó ráð fyrir að ýmislegt af því sem kemur fram í svörum túlkanna eigi einnig við um önnur verkefni sem unnin eru á hefðbundnari hátt.
Mesta áskorunin
Áhugavert þótti að kanna hvað túlkunum þætti vera mesta áskorunin við að sinna verkefnum á þennan hátt og þær niðurstöður má gróflega flokka í fernt:
• Tæknivandamál sem geta komið upp hjá öllum þátttakendum hvað varðar nettengingu, myndavél, hljóð og annað
• Táknmálstalandi einstaklingur sem er ekki í augnsambandi við túlkinn eykur álagið við túlkunina þar sem ekki fæst samþykki eða viðbrögð við túlkuninni.
• Flókið er að geta ekki nýtt stuðning frá samstarfstúlki þegar einungis annar túlkurinn getur verið í mynd og þeir á sitt hvorum staðnum.
• Þegar aðstæðurnar verða þannig að ómögulegt er að túlka allt sem fram fer vegna þess að margir tala í einu, fólk er samankomið í stóru rými og margir langt frá tölvunni sem verið er að nota eða umhverfishljóð hafa truflandi áhrif.
Þjálfun
Þar sem þessa breytingu á veitingu túlkaþjónustunnar bar töluvert brátt að var þjálfun fyrir verkefnin að mestu leyti sjálfsnám og lestur á því efni sem var til eða var útbúið snemma árs 2020. Þegar túlkarnir voru spurðir hvað þeir hefðu viljað vita áður en þeir fóru að sinna svona verkefnum kom í ljós að það voru ýmis tækni atriði, s.s. eins og hversu mikilvægt það er að halda augnsambandi við myndavélina og „hvað það getur truflað ef augnsamband reikar“ og þegar svona verkefnum er sinnt í fyrsta skipti er mikilvægt að túlkurinn sýni aldrei „að hann ráði ekki við aðstæðurnar…bara halda áfram“ í þeim verkefnum þar sem hraðinn er mikill. Einnig er alveg nauðsynlegt að þekkja þau forrit sem verið er að nota – og þau eru fjölmörg. Að lokum var það nefnt að það hefði verið gott að átta sig á því hversu erfitt það getur verið „að hafa ekki móttakanda“ þegar verið er að túlka í streymi eða upptöku fyrir ýmsa miðla.
Þessu tengt var næst spurt um hvað túlkarnir hefðu viljað fá þjálfun í að gera áður en þessi verkefni urðu svona algeng og voru svörin mjög tengd fyrri spurningu. Eins og það hvernig ætti „að haga augnsambandi“ þegar móttakandi er ekki sjáanlegur og hvernig hægt er að halda fókus við þær aðstæður. Það er líka mikilvægt að æfa sig í að nota slökunaraðferðir sem áhorfandinn tekur ekki eftir, því það að rugga sér á staðnum eða nudda saman höndum getur virkað truflandi. En það sem flestir voru sammála um var það hversu nauðsynlegt væri að vera búinn að ná upp hraða áður en farið er að túlka svona verkefni. Hraða og færni í að „greina kjarnann frá hisminu“, átta sig á aðalatriðum og innihaldi þess sem verið er að segja frekar en að hengja sig í hvert sagt orð. Einn þátttakandi tilgreindi reyndar að síðasta önnin í túlkanáminu hafi farið mikið til fram í gegnum fjarfundabúnað sem hafi verið ákveðin þjálfun fyrir svona verkefni, þó að þar hefðu hlutirnir alltaf gengið vel fyrir sig þá hefði kannski mátt æfa hvað túlkur gerir þegar tæknin virkar illa „eða eitthvað kemur upp á“.
Undirbúningur og athugasemdir
Eitt af því sem er mikilvægt fyrir táknmálstúlka er undirbúningur, því með því að undirbúa sig vel fyrir verkefni þá eru meiri líkur á því að þau gangi vel. Það gildir það sama fyrir þessi verkefni eins og önnur að undirbúningurinn skiptir miklu máli en er ólíkur á milli verkefna. Það sem flestir minntust á var orða- og táknforði, að lesa sér til um efnið þar sem það væri aðgengilegt, skoða SignWiki til að finna tákn. Lesa efni sem flokkast sem óbeinn undirbúningur, „fylgjast með fréttamiðlum“ vegna túlkunar á kvöldfréttum RÚV, „fá glærur til undirbúnings fyrirfram“ á ráðstefnum og fundum, læra lög og texta utan að fyrir túlkun á sönglögum og undirbúa þá texta sem eru aðgengilegir. Annað atriði var samstarf við aðra túlka, oft vegna táknaforða og undirbúnings fyrir verkefni, „tala við þá túlka sem voru áður“ í sama eða samskonar verkefni. Þriðja atriðið var svo tæknilegs eðlis, passa upp á nettengingu, hleðslu tækjanna og birtu/lýsingu. Hafa bakgrunninn þægilegan og „ekkert aukadót“ í rammanum – sjá til þess m.ö.o. að ekkert trufli og vinnan gangi eins snurðulaust fyrir sig og hægt er.
Þegar spurt var um hvers konar athugasemdir túlkum hefðu helst borist frá táknmálstalandi notendum eru þær flestar tæknilegs eðlis; að myndin sé óskýr, léleg tenging einhvers staðar, lýsingu ábótavant og myndramminn of lítill. Þetta eru einmitt atriði sem túlkar reyna að sjá til þess að séu í lagi, eins og þeir geta. Stundum eru þessi atriði þó í höndum einhverra tæknimanna sem kannski gera sér ekki grein fyrir þörfinni á mikilli lýsingu og þokkalega stórum ramma fyrir túlkinn. Aðrar athugasemdir eru jákvæðari, ánægja með að hægt sé að leysa verkefni á þennan hátt og að verkefnin hafi gengið vel.
Hvernig er að túlka fyrir framan myndavél
Að sjálfsögðu eru engin tvö túlkaverkefni eins, hvorki þegar rætt er um verkefni sem fara fram á staðnum eða í gegnum myndavél eða hugbúnað svo ákveðið var að spyrja hvers konar túlkun í gegnum myndavél væri erfið og hvers vegna. Í svörunum voru þrír punktar sem komu sterkast fram. Það eru í fyrsta lagi verkefni þar sem talað er hratt, hvort sem verið er að lesa af blaði eða fólk talar í æsingi. Í öðru lagi eru það verkefni þar sem túlkurinn er sá eini í fjarfundarbúnaði, allir aðrir saman eða tveir túlkar að vinna saman en á sitthvorum staðnum, þ.e.a.s. verkefni þar sem staðsetning þátttakendanna hefur áhrif á túlkunina og í þriðja lagi er það þegar ekki er hugsað út í að verið sé að túlka. Hér eru nokkur dæmi til nánari útskýringar. Þegar fólk les af blaði er algengt að talandinn verði töluvert hraðari en þegar fólk talar frá eigin brjósti. Mikill hraði í tali leiðir til þess að túlkunin verður flóknari, sérstaklega ef túlkurinn hefur ekki fengið þennan texta til undirbúnings. Mikill hraði getur líka haft áhrif þegar fólk er í uppnámi og þá talar það hratt hvort heldur sem er á íslensku eða ÍTM. Þegar fundarmenn eru allir á sama stað en túlkurinn sá eini í fjarfundarbúnaði er erfiðara að stjórna aðstæðunum (sem oft er nauðsynlegt til að túlkunaraðstæður gangi upp), því þegar ekki er hægt að sjá hver er að tala gerir það túlkunina flóknari, það er líka erfitt þegar tveir túlkar vinna saman og eru á sitthvorum staðnum því þá er erfiðara að styðja hvorn annan. Að lokum er það þegar ekki er hugsað út í að verið sé að túlka aðstæðurnar, þá fer fólk að tala hvert ofan í annað, talar langt frá tölvunni svo hljóðið greinist ekki eða að fundarstjórn er ekki góð. Þetta allt saman veldur því að erfiðara er að túlka við þessar aðstæður.
Einnig var spurt hvers konar túlkun í gegnum myndavél væri skemmtileg og af hverju. Það voru fjögur sameiginleg atriði sem komu fram þar. Algengasta svarið var þegar verkefni væru krefjandi, eins og t.d. fréttatími RÚV „mér finnst fréttirnar skemmtilegar. Krefjandi og hraðar…“. Einnig var algengt að nefna verkefni sem hægt var að undirbúa vel sem skemmtileg og á það í raun „einnig við verkefni sem unnin eru á staðnum“. Þriðja atriðið var svo þegar fólk er meðvitað um túlkinn og hann getur haft ákveðna stjórn á aðstæðunum og að lokum var sagt „mér finnst öll verkefni, sem ganga vel, vera skemmtileg“.
Eins og fyrr sagði var stórkostleg aukning í því að túlkar væru að túlka fyrir framan myndavélar á síðasta ári, fram að því voru þetta einstaka verkefni sem send voru út beint eða tekin upp og sýnd síðar. Verkefni af þessu tagi komu upp kannski einu sinni í mánuði eða sjaldnar, en nú er þetta orðinn daglegur veruleiki allra túlkanna á SHH. Einn þátttakendanna ræddi um þá jákvæðu breytingu á viðhorfum tæknimanna og þeirra sem sjá um tæknimál á stærri fundum þar sem túlkur er fyrir framan myndavél og jafnvel enginn táknmálstalandi á staðnum og sagði; „maður er ekki lengur með vesen. Svo er verið að bjóða manni kaffi og svona, hugsað vel um mann“.
Meirihluti verkefna sem verið er að sinna nú á fyrri hluta ársins 2021 fara að einhverju leyti fram í gegnum myndavél eða fjarfundabúnað. Því þótti áhugavert að komast að því hvort þessi vinna vekti einhverjar ákveðnar tilfinningar eða líðan hjá túlkunum. Nokkur atriði voru tiltekin hvað það varðar og má þá helst nefna þau verkefni þar sem ekki er um að ræða samskipti fram og til baka, að það sé einmanalegt að túlka fyrir framan myndavél og vita ekki hvort einhver sé að horfa. Þá var líka nefnt að þessum verkefnum fylgi ákveðið stress og spenna, bæði varðandi tæknivandamál og jafnvel útlit túlksins. Þriðja atriðið sem var nefnt var að í þessum verkefnum er túlkurinn gjarnan eini táknmálstalandi einstaklingurinn sem kemur að því og þá „tökum [við] okkar ákvarðanir um verkefnið“ án þess að einhverjar samræður eigi sér stað við táknmálstalandi túlkanotendur. Að lokum var svo minnst á að það væri að sjálfsögðu umhverfisvænt að sinna verkefnum á þennan máta þar sem akstur á milli staða er óþarfur.
Hvers konar verkefni ganga best og síst
Nú þegar komin er nokkur reynsla á það að nýta túlkun í gegnum myndavélar er ekki úr vegi að spyrja að því hvers konar verkefni gangi best í þeim aðstæðum og stóð ekki á svörunum við því.
Þar má fyrst telja upp að verkefnin sem eru þess eðlis að allir þátttakendur fundarins/viðburðarins/viðtalsins séu rafrænir á sér aðgangi eru best til þess fallin að ganga vel. Einnig voru nefnd verkefni þar sem þátttakendur eru fáir. Þegar þeir eru þrír að túlki meðtöldum er líklegt að þau gangi vel og það sama var sagt um verkefni sem eru stutt. Þetta tvennt síðast talda fer oft saman eins og í verkefnum sem fara fram í banka, hjá sjúkraþjálfara, læknum, í verslun, foreldraviðtöl og fámennir fundir. Annars konar verkefni sem nefnd voru að geti líka gengið vel í gegnum myndavélar eru t.d. fyrirlestrar og fundir sem eru einstefna. Það geta verið margir þátttakendur en ekki er ætlast til virkrar þátttöku þeirra og engin samtöl fara fram, bara fyrir fram ákveðnir fyrirlestrar eða kynningar.
Um leið og farið er að velta fyrir sér hvaða aðstæður ganga vel koma að sjálfsögðu líka upp aðstæður sem ganga síður og þar voru túlkar nokkuð sammála. Það má segja að það séu aðstæður þar sem eru margir þátttakendur, lítil fundarstjórn og túlkurinn yfirleitt sá eini sem er í mynd. Þetta geta verið verkefni eins og húsfundir, veislur, saumaklúbbar og starfsmannafundir. Þetta voru þær aðstæður sem allir voru sammála um að gengu hvað síst í þessu fjarfunda-/myndavélaformi.
Í heildina má segja að upplifunin af því að túlka í gegnum myndavél sé frekar jákvæð og í raun „í takt við tímann“ eins og einn þátttakenda orðar það. Við þessar breytingar á veitingu þjónustu er verið að stíga græn skref eins og kom fram hér að ofan. Sum verkefni sem túlkar hafa verið að fara í taka stuttan tíma, eru fyrir fram bókuð og fáir þátttakendur í þeim. Með því að sinna þeim í gegnum svona búnað er verið að draga úr ferðum, sem oftast eru farnar á einkabíl með tilheyrandi bensín- eða rafmagnseyðslu, slitum á bíl/dekkjum og taka oft töluverðan tíma þegar langt þarf að fara. Gott er þegar slíkum verkefnum er hægt að sinna með nútímatækni sem flestir í þjóðfélaginu eru farnir að venjast. Það eru að sjálfsögðu ákveðin verkefni sem henta betur en önnur í túlkun af þessu tagi og þegar samkomutakmarkanir verða rýmkaðar frekar standa vonir túlkanna til að mörg þessara verkefna verði áfram túlkuð á þennan máta á meðan þægilegra væri fyrir alla að túlkurinn væri á staðnum í öðrum.
Að lokum
Samkvæmt þessari samantekt má í raun skipta þessum verkefnum gróflega í tvo flokka sem væru annars vegar verkefni þar sem táknmálstalandi einstaklingurinn er virkur í samskiptunum sem eru þá yfirleitt í formi fámennra funda eða viðtals og þátttakendur á bilinu 2-10 fyrir utan túlkinn. Verkefnin fara fram í gegnum fjarfundabúnað í tölvu, eða snjalltæki og þægilegast er þegar allir eru með sér aðgang eða mjög fáir saman ef túlkurinn er sá eini sem er í fjarfundarbúnaði. Ef verkefnið er tveggja túlka er best ef túlkarnir geta verið á sama stað.
Hins vegar eru þetta verkefni þar sem ekki er vitað hvort það sé táknmálstalandi einstaklingur að taka á móti efninu, túlkað er fyrir framan myndavél á viðburði, í gegnum fjarfundarbúnað í tölvu eða í upptökuveri, verkefni er ýmist í streymi eða tekið upp til sýningar síðar eða sett inn á vef, hér væri einnig best ef túlkarnir væru á sama stað ef það eru tveir túlkar sem sinna verkefninu auk þess að fá undirbúning í það minnsta tveimur dögum fyrir viðburðinn fyrir túlkana.
Í ljósi samkomutakmarkana vegna Covid er í sumum tilfellum ekki hægt að sinna þjónustunni á bestu mögulegu vegu. Að þessu tímabili loknu mun líklega ýmiskonar verkefnum áfram vera sinnt í gegnum fjartúlkun og þá væri gott að nýta sér niðurstöður þessarar könnunar til að gera það sem bestan hátt fyrir alla sem þar koma að. Við móttöku pantana fyrir fjarfund þyrfti að fá upplýsingar um fjölda þátttakenda og skipulag við uppsetningu fundarins, s.s. hversu margir eru á sama stað og hversu margir verða í gegnum fjarfundabúnað. Ræða við þann pantar og benda á að ef túlkurinn er sá eini sem á að vera í fjarfundabúnaði væri betra að túlkurinn mætti á staðinn, því þannig myndi túlkunin ganga best og táknmálstalandi einstaklingurinn vera meiri þátttakandi í fundinum. Gott væri að senda óreyndari túlka með reyndari túlkum í flóknari fjartúlkunar verkefni, jafnvel þannig að óreyndari túlkarnir væru ekki að túlka, heldur fylgjast með og öðlast reynslu á þann hátt. Jafnvel að hafa vinnufundi reglulega um verkefni sem sinnt er á þennan hátt þar sem hægt er að deila þekkingu á milli starfsmanna um hin ýmsu atriði sem geta komið upp í þessari túlkun. Einnig mætti benda þeim sem panta túlk á þægindin sem felast í fjartúlkun þegar um er að ræða stutta fundi/viðtöl þar sem fáir taka þátt, s.s. sjúkraþjálfun, viðtal við yfirmann í vinnu o.s.frv.
Að lokum má nefna að mikilvægt er að þekking um um túlkun fyrir framan myndavélar komist til nemenda í táknmálstúlkun. Starfsmenn SHH hafa um áraraðir sinnt þeirri kennslu við HÍ á grundvelli samstarssamnings við háskólann og því eru hæg heimatökin að miðla þekkingunni í samstarfi við greinarformann í táknmálsfræði- og táknmálstúlkun og þar með að uppfæra námsefni í takt við breytta tíma. Í þeirri kennslu væri mikilvægt að kenna túlkanemum að nota búnað af þessu tagi og þá ekki bara þegar tæknin og aðstæðurnar eru eins og best er á kosið, heldur líka hvernig leysa megi úr erfiðum aðstæðum. Mögulega væri hægt að auka þátt myndsímatúlkunar í náminu og tengja við almenna fjartúlkun.